18.12.1976
Efri deild: 27. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1430 í B-deild Alþingistíðinda. (1054)

31. mál, dagvistarheimili fyrir börn

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson) :

Herra forseti. Þetta mál er komið til okkar frá Nd. þar sem þar hafa verið gerðar breytingar á 6. og 9. gr. frv. Þessar breytingar eru einungis orðalagsbreytingar og til þess að kveða skýrar á um merkingu, og breyta þær því ekki efni frv. í neinu. Ég sé þess vegna ekki ástæðu til að fjölyrða um þær. Ég vil taka það fram, að hv. félmn. Ed. tók þetta mál ítarlega fyrir og fékk á sinn fund m. a. fulltrúa úr menntmrn. og framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga og afgr. málið svo og þessi hv. d. En það kom í ljós í menntmrn. að það þurfti að kveða skýrar á, og barst formanni félmn. Ed. bréf um það efni sem endaði með þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta: „Beðist er velvirðingar á þessum mistökum og farið fram á að félmn. Ed. beiti sér fyrir lagfæringunni.“ Þetta bréf er frá menntmrh. Er þetta bréf barst hafði n. afgr. málið og þessi d. afgr. það þannig að þessi lagfæring varð að fara fram í hv. Nd.