20.10.1976
Neðri deild: 5. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í B-deild Alþingistíðinda. (107)

15. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég á eins og kunnugt er ekki sæti í þessari hv. d. og missti þar af leiðandi af fyrri hluta þeirra umr. sem hér hafa farið fram um fiskveiðar í fiskveiðilögsögunni, enda átti ég raunar ekki von á því að aðalefni þessara umr. yrði samningar við erlend ríki, ekki síst vegna þess að fyrir Alþ. liggur þáltill. um staðfestingu á samningi við Stóra-Bretland, sem gerður var í Osló á sínum tíma, nánar til tekið 1. júní s.l. Þess vegna bjóst ég fremur við umr. um slíka samninga undir þeim dagskrárlið heldur en þeim sem þér er til umr. En menn eru auðvitað frjálsir að því að ræða það sem þeim hentar, og ekki ætla ég að fara að kenna hv. Nd. þingsköp eða aðferðir við umr. En vegna þess sem ég hef þó heyrt af þessum umr., þá hef ég löngun til að segja þér aðeins örfá orð, en skal lofa hæstv. forseta því að utangarðsmaður skal ekki taka þér allt of langan tíma frá dm.

Ég vil taka það fram í upphafi, að Framsfl. sem slíkur, þingflokkur Framsfl., hefur ekki tekið neina afgerandi afstöðu til þess máls sem hér hefur orðið aðalumræðuefni manna, þ.e.a.s. hvort gagnkvæmir samningar við aðrar þjóðir komi til greina eða ekki.

Efnahagsbandalag Evrópu hefur enga stefnu í fiskveiðilögsögumálum, eins og kunnugt er, í dag Þar af leiðir að það hefur ekki getað, jafnvel þótt það hefði haft hug á, komið til okkar með neinar beiðnir um viðræður eða tilboð um veiðar á gagnkvæmnisgrundvelli. Það er ljóst að í allra fyrsta lagi getur orðið um að ræða slíka samræmda fiskveiðistefnu Efnahagsbandalagsins eftir þann ráðherrafund sem haldinn verður 28. og 29. þ. m. í Haag. Þess vegna hlýt ég að verða að mótmæla því mjög harðlega, sem haft er eftir utanrrh. Bretlands í erlendum fréttaskeytum í dag, og gærkvöld raunar líka, að einhverjar viðræður séu ákveðnar 3. nóv. Þetta er algerlega úr lausu lofti gripið og mér með öllu óskiljanlegt hvernig slík frétt getur fengið byr undir vængina, og allra síst skil ég það ef utanrrh. sjálfs Stóra-Bretlands hefur látið hafa þetta eftir sér, því að hér er um alranga frásögn að ræða. Einu viðræðurnar, sem farið hafa fram milli Efnahagsbandalagsins og Íslands, eru bær sem fram fóru í júlí í Brussel og frá var skýrt á fundi utanrmn. á sínum tíma og voru einungis til upplýsinga frá hvorum aðila fyrir sig. Í þeim tók þátt af Íslands hálfu Tómas Á. Tómasson sendiherra og tveir menn frá sjútvrn., og það, sem þeir sögðu á þeim fundi, var hvernig ástand fiskstofnanna við Ísland væri og hversu örðugt, svo að ekki væri meira sagt, mundi verða fyrir íslendinga að gera samninga, jafnvel þótt á gagnkvæmnisgrundvelli væri.

Ég vil hins vegar játa því, sem hæstv. sjútvrh. hefur raunar sagt, að við í ríkisstj. og við í Framsfl., eftir því sem ég best veit, erum samþykkir því að viðræður við bandalagið fari fram þegar það hefur einhverja stefnu og þegar það getur sagt til um hvað það er sem það hafi fram að bjóða. Mér heyrðist líka á hv. 2. þm. Austurl. að hann teldi þessa málsmeðferð út af fyrir sig ekki óeðlilega. Ég vona þess vegna að það geti orðið samstaða um það meðal sem flestra, já, og helst allra hv. alþm., að sá háttur verði á hafður að viðræður megi fara fram og fari fram, en það sé ekki fyrir fram sagt að engar viðræður komi til greina undir nokkrum kringumstæðum.

Í tilefni af því sem hv. 3. þm. Reykn. gat hér um, að við legðum á borð með okkur allverulega þegar samningaviðræður, ef til þeirra kæmi við Efnahagsbandalagið, hæfust, þar sem væru samningar við þjóðverja í eitt ár um 60 þús. tonna afla, aðallega af karfa og ufsa, og um takmarkaðar veiðar belga með tilteknum togarafjölda, þá vil ég bara minna á það, að í Tímanum 15. þ.m. var haft við mig viðtal um útfærsluna og það sem gerst hefði á árinu, og þar lét ég einmitt þessa sömu skoðun uppi, þannig að hér er ekki um neitt nýmæli í mínum eyrum að ræða. En það má vera að aðrir hafi ekki tekið eftir þessu og því vek ég athygli á því.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, hæstv. forseti, því að aðrir þurfa að komast hér að. En ég vildi leyfa mér að gera grein fyrir þessum fáu atriðum fyrst þessi mál bar hér á góma og það vildi svo til að ég var hér viðstaddur í húsinu.