18.12.1976
Neðri deild: 30. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1443 í B-deild Alþingistíðinda. (1077)

99. mál, tímabundið vörugjald

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég skal ekki hafa mörg orð um þetta frv., ég hef áður gert grein fyrir afstöðu minni til þessa máls. Fyrstu lög um þetta gjald voru brbl. núv. hæstv. ríkisstj. sem áttu einungis að gilda tæplega hálft ár, en voru síðan framlengd og áttu þá að gilda árið 1976, en þó fara lækkandi. Því var síðan breytt og var vörugjald hækkað frá því að vera 12%, fyrst þegar það var sett á, í það að vera 18%, sem það er nú og á að standa óbreytt allt næsta ár. Ég hef vikið að því áður hér, að þetta er sá skattur sem er hvað ranglátastur að því er varðar a. m. k. það fólk sem býr úti á landsbyggðinni. Það er staðreynd, sem ekki verður hrakin, að með 18% vörugjaldi er álagningin orðin allt upp í 27–29% þegar neytendur úti á landsbyggðinni fá vöruna til þess staðar þar sem þeir þurfa að kaupa hana. Hér er því enn eitt dæmið um hvað Framsfl. hefur látið hrekja sig af réttri braut byggðastefnu út í það að ganga sífellt meira og meira á hinn tiltölulega litla rétt, sem landsbyggðarfólk hafði, og ganga í frekari átt til ójafnaðar en verið hefur. Ég vil því ítreka andstöðu mína gegn þessu máli og tel að hér sé um að ræða einn af þeim ranglátustu sköttum sem um getur að því er varðar dreifbýlisfólkið. Ég mun því greiða atkv. gegn því að þetta mál nái fram að ganga.