20.10.1976
Neðri deild: 5. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í B-deild Alþingistíðinda. (108)

15. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi

Jóhann Hafstein:

Virðulegi forseti. Ég skal aðeins segja örfá orð um þetta frv. Það hefur reyndar komið fram í viðræðum þm. hér, að það er ekki líklegt að neinn ágreiningur sé um sjálft frv. Mér finnst þess vegna að nú séu bæði óheppilegar þær umr., sem fram hafa farið, og eins ótímabærar.

Ég held að það sé alveg laukrétt hjá hæstv. sjútvrh., að það hefur aldrei fyrir okkur íslendingum vakað að leita eftir einhverjum gagnkvæmum sjónarmiðum sem við gætum svo fært til Efnahagsbandalagsins eða breta og sagt: Viljið þið nú koma og ræða við okkur um samninga um þessi gagnkvæmissjónarmið í sambandi við fiskveiðarnar? Viðræður, ef einhverjar yrðu síðar, yrðu að byggjast á því að þeir óskuðu eftir viðræðum og legðu fram hvaða gagnkvæmissjónarmið þeir teldu að væru fyrir hendi.

Ég álit miklu heppilegra að hafa þann hátt á um þetta mál eins og áður hefur verið, að það sé rætt innan ríkisstj., landhelgisnefndar og utanrmn. áður en til umr, þurfi að koma um það hér í þinginu, þannig að leitast sé við að reyna að hafa sem fyllst samkomulag. Sterkastir höfum við verið, íslendingar, þegar við allir vorum sammála í landhelgismálinu. Ég hygg einnig að alls ekki sé ósennilegt að þannig mundi þetta verða og viðræður innan þessara n. og annaðhvort milli þeirra og ríkisstj. eða milli þessara aðila með einhverju móti gætu stuðlað að því, að þegar við ættum að taka afstöðu til eða svara fram komnum beiðnum um gagnkvæmistillögur frá viðkomandi aðilum, Efnahagsbandalagi Evrópu eða bretum, þá værum við búnir að átta okkur á því hvar við ætluðum að standa og hverju við ætluðum að svara og gætum þar svarað einum rómi því sem um væri að ræða. Jafnvel þó að rétt sé að þetta ætti frekar við undir öðrum dagskrárlið, þá held ég nú ekki að við eigum að hefja umr. eða deilur um þessi mál undir þeim dagskrárlið sem er síðar á dagskránni, heldur láta þessi mál bíða, og hugsanlegir samningar um gagnkvæm réttindi til fiskveiða komi ekki til álita fyrr en fram eru komnar af hálfu einhverra annarra aðila óskir um slíkar viðræður. Við íslendingar eigum ekki og ætlum okkur ekki að hafa frumkvæði að þessu.