18.12.1976
Neðri deild: 31. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1444 í B-deild Alþingistíðinda. (1082)

133. mál, lántaka vegna opinberra framkvæmda á árinu 1977

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Með frv. því, sem hér er lagt fram, er leitað heimildar til að taka lán erlendis vegna opinberra framkvæmda á árinu 1977 og til að endurlána Framkvæmdasjóði þar á meðal. Samtals er hér um jafnvirði 9 milljarða 732 millj. kr. að ræða sem skiptist þannig: 6 milljarðar 870 millj. fara til opinberra framkvæmda og 2 milljarðar 862 millj. kr. er ætlunin að endurlánist Framkvæmdasjóði sem síðan miðlar lánsfé til fjárfestingarlánasjóða, svo sem kunnugt er. Í frv. er einnig leitað heimildar til að ábyrgjast allt að 700 millj. kr. lán vegna orkuframkvæmda sveitarfélaga, og eru þar fyrst og fremst hafðar í huga hitaveituframkvæmdir á Akureyri. Loks er í frv. leitað heimildar til að ákveða með reglugerð að innlend skuldabréfalán allt að 100 millj. kr, sem sveitarfélög kunna að bjóða út vegna meiri háttar hitaveituframkvæmda, skuli hljóta sömu skattalegu meðferð og ríkisskuldabréf, en samkv. 1. gr. laga nr. 7 1974 skulu þau undanþegin framtalsskyldu og skattlagningu á sama hátt og sparifé. Miðar þetta að því að auðvelda sölu slíkra skuldabréfa.

Sú fjárþörf, sem frv. felur í sér, er í samræmi við niðurstöður lánsfjáráætlunar ríkisstj. fyrir árið 1977 sem nú hefur verið lögð fram, en gerð verður grein fyrir við 3. umr. fjárlaga. Af ýmsum orsökum er lánsfjáráætlunin siðbúnari en stefnt var að.

Frv. fylgir yfirlitstafla þar sem lánsfjárþörfin er sýnd eftir uppruna fjármagns ásamt skiptingu á einstakar framkvæmdir. Þar kemur í ljós að áformaðar lántökur til ríkisframkvæmda eru 10 milljarðar og 30 millj. kr., sem hækkar í 10 milljarða 280 millj. kr. þegar endurlán til sveitarfélaga og vörukaupalán Pósts og síma eru meðtalin. Af þessari fjárhæð er gert ráð fyrir að 3410 millj. kr. verði aflað innanlands og verði því lánsfjárþörf erlendis 6 milljarðar 870 millj. kr., eins og fyrr greinir. Samkv. því verður þriðjungur fjármagnaður með fjáröflun innanlands og 2/3 hlutar með erlendum lánum.

Fjáröflunarþörf vegna ríkisframkvæmda hefur hækkað um 1 milljarð 122 millj. kr. frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrv., og stafar það einkum af því að nauðsynlegt þykir að hefja lagningu línu frá Kröfluvirkjun austur til Eyrarteigs og verja til þess 500 millj. kr. á næsta ári, auk þess sem önnur ný viðfangsefni hafa bæst á lánsfjáráætlunina og endurskoðun kostnaðaráætlana og verkefnaáfanga einstakra framkvæmda hefur leitt til aukinnar lánsfjárþarfar. Um þessi atriði er nánar fjallað í lánsfjáráætluninni og verður frekari grein gerð fyrir því við 3. umr. fjárlaga.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til að frv. þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.