18.12.1976
Efri deild: 31. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1455 í B-deild Alþingistíðinda. (1114)

136. mál, almannatryggingar

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég get í einu og öllu tekið undir orð síðasta ræðumanns varðandi undirbúning þessa máls. Hann er með þeim endemum af hálfu rn. að mun sem betur fer eiga sér fáa líka í starfssögu Alþingis. Það er stundum gaman að því hent hér meðal þm. að helmingur fjárlaganna sé á vegum tveggja rn., þ. e. a. s. heilbr.- og trmrn. og menntmrn. Þó er hlutur heilbr.- og trmrn. stærri, því það mun vera nálægt 35% af öllum fjárlögum ríkisins sem fer um hendur þess eða þeirra stofnana sem undir það heyra. Þegar hent er inn slíkri breytingu sem hér um ræðir í umræddu frv., þá kemur manni til hugar að það hljóti að geta haft allvíðtæk áhrif og þá sérstaklega tilfinnanleg fyrir hin smærri og fjárvana sjúkrasamlög sem hafa um áraraðir átt í vök að verjast. Slíkur uppskurður er gerður á sama tíma sem við höfum lögbundið tryggingaráð starfandi, auk þess milliþn. í þessum viðkvæmu málum sem er að endurskoða löggjöfina um Tryggingastofnunina í heild. Hvorugur þessara aðila er spurður ráða þegar umrædda breytingu á að gera, heldur er málinu fleygt hér inn að nóttu til, sem er kannske í samræmi við málatilbúnaðinn allan, og ætlast til þess að alþm. geri upp hug sinn á örskömmum tíma, sem tekið hefur umrædda aðila alllangan tíma, þ. e. a. s. milliþn. og tryggingaráð, sem stöðugt starfar að þessum málum með viku- eða hálfsmánaðarlegum fundum. Þetta eru afleit vinnubrögð þegar þess er gætt, að það eru engin rök færð fyrir því í fyrsta lagi, sem bent var á hér áðan, hvert á að færa þann ágóða sem breytingin hugsanlega gæti leitt af sér hjá einstökum sjúkrasamlögum. Hvert á að færa hann? Á að taka hann af þeim og færa til hinna sem hafa skaðast við þessa breytingu, eða á millifærslan, sem á kynni að vanta hjá öðrum sjúkrasamlögum, að koma úr ríkissjóði? Ég hef orð fjmrh. fyrir því að þetta frv. eigi að ná fram að ganga, hann hafi samþ. það og það sé bókstaflega hans samþykki háð að þetta frv. eigi að leiða til sparnaðar. Hvar og hjá hvaða aðilum á það að leiða til sparnaðar? Það er óupplýst og engin svör hafa við því borist.

Ég tel, eins og ég áðan sagði, að það séu fyrst og fremst engin rök sem enn þá hafi verið færð fyrir því að þessu frv. liggi svo á sem látið er í veðri vaka, — ekki nokkur haldbær rök, — og það hefði ekkert skaðað málið á einn eða annan hátt þó að því yrði frestað fram yfir áramót og tíminn tekinn í það fyrir þinglok að sannfæra alþm. um að hér sé um réttláta breytingu að ræða til sparnaðar.

Ég skal taka undir það með hv. 7. landsk. þm., sem talaði hér á undan mér, að sú breyting, sem ráðh. lýsti hér áður, að fælist í umræddu frv., hefur þó verið nokkuð lagfærð af hv. meiri hl. n., en þó hvergi nærri svo að nein rök hafi verið færð fyrir því að frv. liggi svo mikið á að það þurfi endilega að binda gildistöku laganna við n. k. áramót.

Ég skal ekki fara um þetta fleiri orðum. Það hefur nægjanlega verið upplýst hvernig að málinu hefur verið staðið og með hvers lags offorsi það er áfram keyrt. En ég vildi gjarnan hafa aðstöðu til þess, þegar meiri hl. neytir síns aflsmunar hér, að geta átt viðræður um niðurstöðurnar af þeirri reynslu sem þeir gera ráð fyrir og eru smeykir við, þar sem þeir hafa bætt inn í brtt. sína að fyrir árslok 1978, þ. e. a. s. að tveimur árum liðnum, verði búið að rannsaka niðurstöðurnar af þessu frv. En það verður að bíða síns tíma að þær umr. geti farið fram. En ég tel að meiri hl., ef hann neytir síns aflsmunar hér, taki á sig mikla ábyrgð með slíkri breytingu sem hér um ræðir að órannsökuðu máli, gangandi fram hjá þeim aðilum sem gerst ættu til hlutanna að þekkja og mest hafa um þau fjallað.

Ég legg svo fram, herra forseti, eftirfarandi till. til rökstuddrar dagskrár frá mér og hv. 7. landsk. þm. í framhaldi af okkar nál.:

„Með tilliti til nál. okkar á þskj. 244 gerum við undirritaðir það að till. okkar, að frv. verði vísað frá og fyrir tekið næsta mál á dagskrá.