18.12.1976
Efri deild: 31. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1456 í B-deild Alþingistíðinda. (1115)

136. mál, almannatryggingar

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Það hefur lengi verið ljóst, að rekstur sjúkrahúsa er vandamál í okkar þjóðfélagi og þar má eflaust ýmist draga úr kostnaði eða bæta þjónustu. Þetta vandamál hefur verið rætt í mörg ár, en það er eins og það sé afskaplega erfitt að taka á þessu vandamáli. Þótt ýmsar samþykktir liggi fyrir og ýmsar yfirlýsingar, þá er eins og ekkert verði úr verkum og virðist vera sama hver á þar í hlut, þannig að ég held að flestir séu sammála um að það sé nauðsynlegt að ráðast að þessum vanda og lagfæra þá agnúa sem á rekstri sjúkrahúsanna eru.

Það var ákveðið að leggja það til, þegar fjárlög komu fram, að gera ýmsar breytingar. En það er alveg rétt, sem fram hefur komið frá þeim hv. þm. sem hér hafa talað, að síðan virðist lítið hafa verið gert í málinu og ber vissulega að fordæma slík vinnubrögð. Spurningin er sú, hvort við eigum að vísa þessu frv. frá vegna þess að ekki hafi verið nægilega vel unnið að málum eða reyna að lagfæra það sem augljóst er að miður fer. Ég segi fyrir mig, að ég hefði vissulega helst viljað geyma þetta mál vegna þess að það er ekki nægilega vel undirbúið. En hitt er svo annað mál, að það er einnig ljóst að það getur verið þess virði að reyna að gera lagfæringar miðað við það frv., sem hér hefur komið fram, og sjá hvernig það reynist, ef það er tryggt að það sé ekki beinlínis vegið að t. d. ýmsum sjúkrasamlögum úti um land, og brtt. n. á að tryggja það að mestu leyti. Hins vegar er ljóst, að það kemur ekki nægilega fram og hefur ekki komið nægilega fram hvernig framkvæmd þessara mála skuli vera. Hæstv. fjmrh. lýsti því yfir hér í viðræðum fyrir stuttu að hann teldi nauðsynlegt að líta betur á þessi mál nú yfir helgina til þess að gera sér betur grein fyrir hvernig framkvæmdinni yrði háttað, og ég vænti þess að það verði gert áður en málið verður tekið fyrir í Nd., þannig að það verði betur ljóst, áður en frv. verður endanlega samþ. sem lög frá Alþ., hvernig framkvæmd málanna verður og hvort hér sé nægilega vel gengið frá málum. Ég vænti þess að svo verði gert, þannig að sæmilega verði við unað.