18.12.1976
Efri deild: 31. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1457 í B-deild Alþingistíðinda. (1116)

136. mál, almannatryggingar

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Það voru reyndar síðustu orð 5. þm. Austurl. sem urðu þess valdandi að ég sá ástæðu til að stiga hér í stólinn, þegar hann óskaði eftir því að það yrði athugað af hæstv. fjmrh. a. m. k. yfir helgina og við fengjum um það nokkra vitneskju eða Nd. að málið yrði sæmilega viðunandi, — „sæmilega viðunandi,“ sagði ræðumaður. Þetta er ekki nógu gott, segi ég, verandi í Ed., því við erum í þann veginn að afgr. málið úr d., og ég hefði talið lágmarkskurteisi við Ed.-menn að annar hvor ráðh., fjmrh. eða heilbrrh., sem hvorugur hefur verið við umr. núna, væri hér viðstaddur og umr. yrði frestað þá til mánudags, því að miðað við það, sem við höfum heyrt frá n., og miðað við stöðu þessa máls, þá er þetta mikilvægt mál. Við erum allir sammála um það, hv. þm., og ég fer ekki í greinarmun með það hverjir vilja veg trygginganna mestan og þar fram eftir götunum, því það hefur sýnt sig í áratugi að allir þm. eru hlynntir þróun þessara mála. Spurningin er oft um hve mikið við viljum gera og með hvaða hætti. Um það hefur verið togast á nokkrum sinnum og orðahnippingar, en heildarstefnan í þessu máli er það viðkvæm og það mikilvæg, að ég held, miðað við fram komnar upplýsingar, að ekki sé annað sæmandi. Ég vil biðja hæstv. forseta, svo réttlátan og sanngjarnan mann sem hann er, að íhuga þetta andartak a. m. k. áður en hann knýr fram atkvgr., hvort hægt sé að verða við því að fresta málinn. En ég harma það að hvorugur ráðh. skuli sýna okkur þann heiður, að vera viðstaddur fyrst málið ber að með svo skjótum hætti, og það er auðfundið bæði hjá frsm. meiri hl. og einnig síðasta ræðumanni, að menn eru ekki ánægðir, menn vildu gjarnan gera betur, en svigrúm hefur ekki gefist. Þess vegna eru rök fyrir því að doka aðeins við í málinu og hugleiða betri árangur.