20.12.1976
Efri deild: 33. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1463 í B-deild Alþingistíðinda. (1129)

99. mál, tímabundið vörugjald

Frsm. minni hl. (Jón Árm. Héðinsson) :

Herra forseti. Í sjálfu sér væri gaman að rekja sögu þessa tímabundna sérstaka gjalds, en til þess er ekki svigrúm nú á næstsíðasta degi þingstarfa fyrir jól. En við skilum hér minnihlutaáliti, fulltrúar Alþb. og Alþfl., og ég ætla í stuttu máli að hafa framsögu fyrir þessu minnihlutaáliti, en í niðurstöðum þess álits leggjum við til að frv. verði fellt.

Upphaflega var þetta gjald hugsað aðeins sem tímabundið vörugjald og átti að standa í 51/2 mánuð eða svo, en nú er lagt til að það verði út næsta ár og það virðist ætla að verða fastur gjaldstofn handa ríkissjóði. Ástæðurnar til þess, að þetta gjald var tekið upp á sínum tíma, voru sérstakar þarfir í sérstök verkefni sem of langt mál væri að fara að rekja nú, en því var marglofað að gjaldið yrði mjög tímabundið og einnig skipt skv. því áformi. En svo reynist ekki þegar fram líða stundir. Í stað þess að standa aðeins í 51/2 mánuð, eins og upphaflega var ákveðið, er ljóst að gjaldið verður innheimt a.m.k. í 21/2 ár, og ef að líkum lætur verður það framlengt þegar kemur að árslokum 1977.

Núv. ríkisstj. hefur verið athafnasöm hvað varðar nýjar álögur og að fitja upp á nýjum tekjustofnum fyrir ríkissjóð. Hér skulu nefnd nokkur dæmi um þessa athafnasemi:

1) Strax eftir valdatöku ríkisstj. hækkaði hún söluskatt um 2%. Skv. tekjuáætlun nú er það ekki undir 3.4 milljörðum. Hins vegar er tekjuáætlun jafnan að birtast með stuttum fyrirvara og þessar tölur kunna allar að vera orðnar breyttar eftir nokkrar mínútur jafnvel.

2) Hún tók í ríkissjóð 2.5% söluskatt, sem áður rann í Viðlagasjóð vegna gossins í Vestmannaeyjum og vegna snjóflóðanna í Neskaupstað. Það nemur nú a. m. k. 3.4 milljörðum.

3) Hún tekur nú í ríkissjóð 1% söluskatt sem við vorum að deila hér um fyrir skömmu og áður rann í olíusjóð til lækkunar á kyndingarkostnaði, þó mínus 600 millj. segir í nál., en í ljós hefur komið við nánari athugun að sennilega renna þar 700 millj. í, og einnig er um hærri tekjustofn að ræða en fyrst var áætlað eða um 1.7 milljarða.

4) Hún hefur lagt á 18% tímabundið vörugjald sem nemur nú 5.3 milljörðum.

Nemur þá allt þetta 13.2 millj. kr. Enginn skyldi þó halda að með þessari upptalningu sé allt talið af nýrri tekjuöflun fyrir ríkissjóð sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur staðið fyrir. Hér er aðeins um sýnishornatöku að ræða. Stjórnin er mjög fingralipur í því að tryggja sér auknar tekjur og hefur mikil umsvif í tekjuöflun, en lítið svigrúm gefst til þess að fara yfir alla ráðstöfunina. Hér fyrir Alþ. liggur nú lánsfjáráætlun upp á milljarða, en aðeins nokkrar mínútur virðast eiga að fara í að fjalla um ráðstafanir á slíkum gífurlegum tölum. Við svo búið viljum við ekki una í stjórnarandstöðunni. Við teljum að öll þessi mál ætti að athuga mjög miklu betur, og niðurstaða okkar, eins og ég sagði í upphafi máls míns, er sú að þetta tímabundna vörugjald verði afnumið. Það var þannig til komið á sínum tíma. Sé um þessa tekjuþörf að ræða, þá á að ná þeim tekjum með öðrum hætti.