20.12.1976
Neðri deild: 35. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1469 í B-deild Alþingistíðinda. (1145)

119. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. minni hl. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. er, eins og fram hefur komið í ræðu hv. frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn., flutt í tengslum við samninga Íslands við Fríverslunarsamtök Evrópu og Efnahagsbandalagið. Þingflokkur Alþfl. var þessari samningsgerð fylgjandi á sínum tíma og hefur stutt þau frv. sem áður hafa verið flutt í beinum tengslum við þessa samninga. Hið sama á við um þetta frv. Þm. Alþfl. munu því greiða atkv. með þeirri breytingu á tollskránni sem hér er um að ræða.

Engu að síður viljum við vekja athygli á því, að þó að þetta frv. stefni allt í rétta átt, bæði þær lækkanir á tollum, sem eru í beinum tengslum við samningana við EFTA og Efnahagsbandalagið, og aðrar tollalækkanir, þá eru enn í gildi mjög háir fjáröflunartollar sem að ýmsu leyti eru algerlega óeðlilegir. Það eru enn háir fjáröflunartollar á ýmsum vörutegundum sem einu sinni mátti með réttu kalla óhófsvörur, en eru nú orðnar almennar neysluvörur. Því er heitið í grg. frv. að taka þetta mál til athugunar og vil ég vekja athygli á nauðsyn þess að það sé gert sem fyrst.

Þegar fjárlög voru lögð fram á s. l. hausti var gert ráð fyrir 600 millj. kr. tekjulækkun vegna væntanlegs frv. um tollskrá, þess frv. sem hér er um að ræða. Sú breyting hefur síðan orðið á, að til viðbótar þessu nemur niðurfelling sölugjalds 150 millj. kr. Enn fremur gerði frv., þegar það endanlega sá dagsins ljós fyrir fáum dögum hér á hinu háa Alþ., ráð fyrir 350 millj. kr. meiri tollalækkunum en ráðgerðar höfðu verið í haust. Og enn fremur samþykkti hv. Ed. 100 millj. kr. tollalækkun til viðbótar. Þetta frv. mun þýða, ef að lögum verður, sem ég vona að verði, um 1200 millj. kr. tekjurýrnun hjá ríkissjóði á næsta ári. Það var ekki fyrr en milli 2. og 3. umr. um fjárlagafrv. sem hæstv. ríkisstj. kunngerði hvernig hím ætlaði sér að mæta þessari 1200 millj. kr. tekjurýrnun, og ég fæ ekki betur séð, þó að 3. umr. hafi að vísu ekki farið fram og ekki hafi verið gerð grein fyrir niðurstöðum hv. fjvn. og hæstv, ríkisstj. varðandi þetta mál en að það sé fyrst og fremst gert með því móti að breyta tölum í fjárlagafrv., en ekki nema að litlu leyti aflað raunverulegra nýrra tekna. Þetta eru að sjálfsögðu ekki vinnubrögð sem eiga hrós skilið. En ég vil ekki blanda umr. um fjárlagafrv. inn í þessar umr., en lýk máli mínu með því að taka fram að við í þingflokki Alþfl. teljum meginstefnu þessa frv. vera rétta og munum því greiða atkv. með frv.