20.12.1976
Neðri deild: 35. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1473 í B-deild Alþingistíðinda. (1147)

119. mál, tollskrá o.fl.

Magnús T. Ólafsson:

Hæstv. forseti. Eins og nú er komið þingstörfum er þess enginn kostur að fjalla á nokkurn hátt eins ítarlega og vert væri um það mál sem hér liggur fyrir. Það er aðeins unnt á þeim skamma tíma, sem eftir er til þingfrestunar, að drepa á nokkur meginatriði.

Þá vil ég fyrst taka það fram um þá meginástæðu, sem til þess liggur að nú kemur ný tollskrá til afgreiðslu, sem sé framkvæmd gerðra samninga við Fríverslunarbandalagið og Efnahagsbandalagið, að afar þungvæg rök þurfa að mínum dómi að liggja til þess að sótt sé um undanþágu frá slíkum samningum, framlengingu á frestum eða að öðru leyti ekki staðið við það sem upphaflega hefur verið ráð fyrir gert.

Það ber að geta þess sem gert er. Það er að mínum dómi ljóst að þeir, sem fjallað hafa um þessa endurskoðun, hafa lagt síg fram um að taka þar tillit til óska íslensks iðnaðar sem lendir í versnandi samkeppnisaðstöðu hvað verðlag snertir eftir því sem tollar frá EFTA- og Efnahagsbandalagslöndum lækka. Er þar í rauninni um sjálfsagða hluti að ræða. Því er ekki að leyna, að talsmenn iðnaðarins halda því fram að því fari fjarri að þeirra hagur hafi verið bættur og þeirra starfsskilyrði lagfærð eins og þeir hafi talið að heit hafi legið fyrir um þegar innganga í EFTA var ákveðin. Hvað sem um það má segja, held ég þó að það fari ekki milli mála að einhver frestun þeirra lækkunarþrepa, sem hér er um að ræða, hefði dregið iðnaðinn langtum skemmra en gera mundi leiðrétting á stóru misrétti sem íslenskur iðnaður sætir miðað við iðnaðinn í þeim löndum sem innflutningur iðnaðarvara hingað er einkum frá og íslenskur iðnaður þarf við að keppa. Þar á ég við þau áhrif, þau svo kölluðu uppsöfnunaráhrif, sem framkvæmd söluskattsálagningar hér leggur á iðnaðinn og reyndar fleiri greinar. Þarna er um að ræða mjög miklar fjárhæðir. En hjá þessum vanda, hjá þessari uppsöfnun hefur verið stýrt í þeim löndum sem íslenskur iðnaður á í samkeppni við, ýmist með upptöku annars skatts, virðisaukaskatts, eða annarri framkvæmd söluskatts. Þetta atriði er að mínum dómi það brýnasta hvað það varðar að bæta stöðu iðnaðarins í landinu. Og svo verður ætíð að taka mið af því grundvallaratriði, og því aðeins er innlendur iðnaður til raunverulegra hagsbóta þjóðarbúinu, að hann sé samkeppnisfær um verð og gæði. Til þess þarf að styðja hann, og það verður að mínum dómi best gert með því að létta sem fyrst af þeim uppsöfnunaráhrifum söluskattsins sem nú íþyngja iðnaðinum svo mjög.

Annað atriði, sem ég tel óhjákvæmilegt að víkja að á þeim stutta tíma sem til umráða er, fjáröflunartollarnir sem hér á landi eru margfalt hærri en nokkurs staðar í nálægum löndum, svo sem skýrt er sýnt fram á í grg. með tollskrárfrv. Þar er munurinn svo gífurlegur að hlutur tolltekna í ríkistekjum er hér tífaldur og allt upp í tvítugfaldur við það sem gerist í löndum sem næst okkur eru og við berum okkur gjarnan saman við um samfélagshætti. Og þar að auki, eins og skýrt er bent á í aths. með frv., er innheimta á ríkistekjum með þessum hætti sú sem síst er löguð til þess að jafna afkomu og aðstöðu manna í þjóðfélaginu. Meira að segja má sýna fram á það, segja þeir sem samið hafa aths., að fjáröflunartollar af því tagi sem hér tíðkast geta valdið stighækkandi álögum sem hlutfalli af tekjum. Þetta fyrirkomulag, þessir gífurlega háu fjáröflunartollar á algengasta neysluvarning eiga stóran þátt í þeim mun á kaupmætti launa sem á sér stað á Íslandi miðað við nálæg lönd, t. a. m. Norðurlönd. Og þessa er þegar farið að sjá veruleg merki í neysluvenjum fólks. Þessi gífurlegi munur, sem stafar að verulegu leyti af mismunandi tollheimtu, er undirrótin að vaxandi innkaupaferðum af landi burt til Glasgow, London eða Kaupmannahafnar. Þar gerir fólk sín neysluvöruinnkaup, m. a. vegna þess að tollarnir í þessum löndum eru aðeins lítið brot af því sem hér tíðkast. Við þetta flyst smásöluverslunin meira og meira út úr landinu. Þeim, sem sömdu þetta frv. og aths. með því, er sá vandi og það óeðlilega ástand, sem hér hefur skapast, mætavel ljóst. Það kemur fram í þeirra máli. En ljóst er að þeir hafa ekki fengið heimild ríkisstj. til þess að gera nema mjög litla lækkun á allra hæstu fjáröflunartollunum. Þess getur ekki orðið langt að bíða að hér verði stigin miklu stærri skref, því að núverandi fyrirkomulag er vægast sagt orðið þjóðhagsleg fásinna.

Þá er spurt: Hvaðan eiga ríkinu að koma tekjur í staðinn til að mæta ekki aðeins missi af tolltekjum vegna samningsbundinna lækkana, heldur einnig vegna lækkunar fjáröflunartolla? Á það hefur margoft verið bent, og ég held að allir viðurkenni það orðið, að í skattkerfinu, innheimtu og álagningu tekju- og eignarskatts, eru gífurlegar gloppur, og það er iðurkennt í verki í því skattalagafrv. sem brátt mun koma til umr. hér í hv. d. Það þarf að mínum dómi að haldast í hendur að tekjuskattsheimta verði gerð réttlátari og skilvirkari, þannig að þeir tekjustofnar geti staðið undir lækkun á fjáröflunartollunum til stórra muna.