20.12.1976
Sameinað þing: 36. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1485 í B-deild Alþingistíðinda. (1166)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Geir Hallgrímsson) :

Herra forseti. Það er rétt sem kemur fram hjá fyrirspyrjanda, að í 21. gr. laga um Viðlagatryggingu Íslands segir:

„Viðlagatrygging Íslands skal taka við eignum og skuldum Viðlagasjóðs hinn 1. jan. 1977, enda falla þann dag úr gildi lög nr. 4 frá 7. febr. 1973 og lög nr. 5 frá 28. febr. 1975, svo og öll lög um breyt. á þeim lögum.

Nemi skuldir Viðlagasjóðs þann dag meiru en eignir skal ríkissjóður greiða þann mun.“ Ríkisstj. hefur fjallað um þá breytingu sem þessu fylgir nú nm áramótin, og álit hennar er að í þessu lagaákvæði felist að Viðlagatrygging Íslands taki við öllum skuldbindingum Viðlagasjóðs.

Þingkjörin stjórn Viðlagasjóðs vinnur nú að því að taka þær ákvarðanir sem hún telur nauðsynlegar til að hún geti lokað reikningum sjóðsins miðað við næstu áramót. Í byrjun næsta árs mun stjórnin síðan vinna að lokauppgjöri sínu og semja skýrslu um störf sín sem væntanlega verður kynnt hér á Alþ.

Skrifstofa Viðlagasjóðs mun starfa áfram, bæði við reikningsuppgjör á vegum fráfarandi stjórnar og eins að þeim úrlausnarefnum sem ólokið kann að verða og þá í umboði stjórnar Viðlagatryggingar.

Fyrirspyrjandi spyr „hvort ekki sé öruggt að þau mál, sem eftir kunna að liggja óuppgerð hjá Viðlagasjóði um næstu áramót, verði gerð upp af stjórn Viðlagatryggingar í samræmi við yfirlýsingu forsrh. frá því í des. 1975“.

S. l. föstudag barst mér skeyti frá uppbyggingarnefnd Neskaupstaðar þar sem þess er eindregið farið á leit „að starfsemi Viðlagasjóðs verði haldið áfram eftir áramót á einhvern þann hátt sem tryggi að hægt sé að ljúka uppgjöri tjóna með eðlilegu móti“.

Yfirtaka Viðlagatryggingar Íslands á skuldbindingum Viðlagasjóðs felur í sér að þeir, sem eiga eftir að gera upp mál sín við sjóðinn þegar hann lýkur störfum, geta borið þau upp við stjórn Viðlagatryggingar. Við úrlausn þeirra mun hún fara að þeim lögum og reglugerðum sem nú gilda um Viðlagasjóð, enda eru ákvæði þeirra sérstaklega sett vegna náttúruhamfaranna í Vestmannaeyjum og Norðfirði.

Að lokum finnst mér ástæða til að víkja að því mikla starfi sem stjórn Viðlagasjóðs hefur unnið á starfstíma sínum. Miklir fjármunir hafa um sjóðinn farið og úrlausnarefni stjórnar hans snert jafnt vandræði einstakra fjölskyldna og framtíð heilla byggðarlaga. Auðvitað sýnist sitt hverjum þegar margir eiga í hlut og miklum fjármunum er deilt út á grundvelli tjónamats. Stjórn Viðlagasjóðs hefur lokið öllum meiri háttar úrskurðarefnum sem á hennar borð hafa komið. Um leið og ég þakka stjórninni störf hennar vil ég ítreka það sem ég áður sagði, að stjórn Viðlagatryggingar Íslands tekur við óleystum úrlausnarefnum Viðlagasjóðs. Verður þannig staðið við allar skuldbindingar og yfirlýsingar þar að lútandi.