20.12.1976
Sameinað þing: 36. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1500 í B-deild Alþingistíðinda. (1170)

1. mál, fjárlög 1977

Frsm. minni hl. (Geir Gunnarsson) :

Herra forseti. Varðandi þær brtt., sem fjvn. flytur á þskj. 253, vil ég taka fram af hálfu minni hl. fjvn. að við erum óbundnir um afgreiðslu einstakra till. og höfum áskilið okkur rétt til þess að flytja brtt. eða fylgja brtt. sem fram kunna að koma.

Ég hef áður rætt um það með hvílíkum endemum hefur verið staðið að undirbúningi og flutningi þeirra mála sem eiga að vera grundvöllur að afgreiðslu fjárl. í veigamiklum atriðum, svo sem lánsfjáráætlun, vegáætlun, frv. um breyt. á skattalögum og breyt. á lögum um almannatryggingar, en þessi gögn hafa verið að sjá dagsins ljós milli 2. og 3. umr. um fjárlög. Vegáætlun hefur þó ekki verið lögð fram enn. Fjvn.-menn og aðrir hv. alþm. hafa að sjálfsögðu enga aðstöðu haft til að kanna þessi gögn að nokkru gagni, en verða þó að afgreiða mál, sem óhjákvæmilegt er að hljóti afgreiðslu, eins og frv. um breyt. á almannatryggingalögum, sem hefur verið kastað hér inn í þingið þannig að sýnilegt er að það er algerlega óundirbúið og ógrundað, enda hefur ekkert samráð verið haft við þá aðila sem málið varðar mest og best þekkja til. Það frv. hefur aðeins verið afgr. í annarri þd. þegar endanleg afgreiðsla fjárl. fer fram.

Öll er þessi frammistaða stjórnarflokkanna og afgreiðsla svo fyrir neðan allar hellur að engu tali tekur, og í rauninni er engan veginn hægt að ætlast til þess að stjórnarandstaðan komi nálægt því að taka þátt í afgreiðslu fjárlagafrv. þegar þannig er staðið að málum.

Við 1. og 2. umr. um fjárlagafrv. ræddi ég um frv. og afgreiðslu þess í höfuðatriðum og um einstaka þætti þess, og er ástæðulaust að hafa um það efni mjög mörg orð nú við 3. umr. Afgreiðsla þeirra mála, sem n. hefur fjallað um milli 2. og 3. umr., gefur ekki tilefni til að bæta miklu við það sem ég hef áður látið koma fram. Sú afgreiðsla er, eins og við mátti búast, í samræmi við stefnu frv. og þá afgreiðslu þess sem áður hefur farið fram: útþensla rekstrarliða, minnkandi raungildi fjárveitinga til framkvæmda og aukning skatta á almennar neysluvörur. Ég mun þó minnast á nokkra þætti sem ekki voru endanlega afgreiddir við 2. umr.

Varðandi fjárveitingar til Íþróttasjóðs lá fyrir þegar við 2. umr. hver heildarfjárhæð yrði veitt á árinu 1977 til að sinna málefnum Íþróttasjóðs, og út frá þeirri staðreynd ræddi ég málefni sjóðsins við 2. umr. Nú hefur málið hlotið endanlega afgreiðslu í fjvn., og niðurstaðan er sú sem ég áður greindi frá, að skuldahali Íþróttasjóðs vegna framkvæmda í íþróttamálum stóreykst. Málefni sjóðsins eru í algeru óefni og með þeirri afgreiðslu, sem nú fer fram, er ákveðið að fækka mjög fjárveitingum sem ætlaðar eru til fyrstu greiðslu vegna mannvirkja og tækja. í fyrra voru slíkar fjárveitingar veittar til ríflega 60 aðila, en jafnhliða því að nú er mjög óverulega séð fyrir fjárveitingum vegna eldri framkvæmda, þá eru fjárveitingar til framkvæmda, sem fá fjárveitingar í fyrsta skipti nú, skornar niður í um það bil 20. Íþróttanefnd ríkisins hafði úr öllum umsóknum valið 43 og gert lokatill. um að fjárveiting yrði miðuð við þá tölu mannvirkja og tækja. Hér er því skipulega hert á fyrri ákvörðun stjórnarflokkanna að halda sem allra mest aftur af framkvæmdum við íþróttamannvirki og eflingu tækjakosts íþróttasamtakanna í landinu. Allharkalega var að þessu staðið í fyrra, en með fjárveitingum á fjárl. fyrir næsta ár er íþróttanefnd ríkisins og íþróttasamtökum landsins hvarvetna í landinu nánast gert ókleift að vinna að framgangi þessara mála.

Á sama tíma og ákveðið er að stórauka skuldahala Íþróttasjóðs við íþróttasamtök og sveitarsjóði í landinu eru lagðar fram hér á Alþ. við 3. umr. fjárl. áætlanir um að ríkissjóður auki á næsta ári tekjur sinar af áfengissölu um 2600 millj. kr., í 8600 millj. Það er heldur hærri krónutala en heildarfjárhæð fjárl. var 1970. Fjárveitingar til að efla aðstöðuna til að beina æskulýðnum í landinu að íþrótta- og útilífi og því félagslífi, sem þeirri starfsemi fylgir, er samtímis 2600 millj. kr. aukningu á tekjum af áfengis- og tóbakssölu takmörkuð við 130 millj. kr. fyrir alla landsbyggðina og skuldahali Íþróttasjóðs aukinn með því um 50% á næsta ári.

Þá hafa rekstraráætlanir vegna ríkisspítalanna verið afgreiddar og hagað í samræmi við þá nýju uppsetningu í fjárlagafrv., að rekstur spítalanna verði í A-hluta fjárl. og fjármagnaður úr ríkissjóði, en daggjöld falli niður samtímis því að þátttökuhluti sveitarfélaganna í greiðslu annars kostnaðar sjúkratrygginga verði aukinn að sama skapi. Enn er nánast ókannað hvernig brugðist verður við ýmiss konar vanda sem fylgir þessum ráðstöfunum, og ekki hefur heldur verið sýnt fram á hvaða aðferðum verður beitt til að tryggja aukna hagkvæmni í rekstri með þessari tilhögun. Ég hygg þó að breytingin geti orðið tæki til þess að koma við meira eftirliti og aðhaldi við stjórn ríkisspítalanna, en í engu hefur verið skýrt hvernig því tæki verður beitt.

Óskum stjórnar ríkisspítalanna um aukningu starfsliðs var í engu sinnt, og er með afgreiðslu fjárl. ekki gert ráð fyrir að fjölgað verði um einn einasta starfsmann á öllum ríkisspítölunum. Sú regla gildir þó vissulega ekki um aðrar stofnanir í ríkiskerfinu. Ég hef ekki nákvæma tölu um aukningu á starfsliði í ríkiskerfinu eftir afgreiðslu fjárl. fyrir næsta ár, en mér sýnist þó að ef sleppt er að telja með alla aukningu í kennaraliði og fastráðningu starfsmanna sem ráðnir höfðu verið án heimilda, þá hafi í fjárlagafrv. verið gert ráð fyrir ríflega 70 nýjum stöðum í ríkiskerfinu, og við afgreiðslu fjvn. hafa verið samþykktar milli 20 og 30 nýjar stöður til viðbótar, eða samtals allt að 100 nýjum stöðum, auk þess sem bremsunefnd kann að hafa samþykkt frá því að fjárlög voru siðast samþ. Útgjöld vegna þessara nýju starfa, sem samþ. hafa verið í fjárlagafrv. og verða við afgreiðslu fjárl. nú, gætu numið um 150 millj. kr. á ári. En engar af þessum nýju stöðum eru ætlaðar til þess að bæta þjónustuna á sjúkrahúsum. Þar er öllu neitað.

Vegáætlun hafði ekki verið lögð fram þegar fjvn. lauk störfum fyrir 3. umr., en n. fékk í hendur áætlun um tekjur og gjöld Vegasjóðs á árinu 1977. Þar er gert ráð fyrir að tekjur Vegasjóðs af mörkuðum tekjustofnum verði hækkaðar til samræmis við verðlagsforsendur endurskoðaðrar tekjuáætlunar ríkissjóðs og ákvarðanir ríkisstj. um beitingu heimilda til hækkunar gjalda í samræmi við þær verðlagsforsendur. Þær hækkanir bensingjalds eru nú þegar að koma fram. En samkv. áætluninni um tekjur Vegasjóðs á næsta ári og ráðstöfun þeirra kemur fram að ætlunin er að verja á næsta ári til nýrra þjóðvega og brúa 2668 millj. kr., en á vegáætlun fyrir árið 1976 er hliðstæð tala 2.500 millj. Hækkunin er 2.7%, en áætlað er að almennt verðlag í landinu hækki um 30% á þessu ári. Miðað við þann kostnaðarauka er hér um að ræða 26.6% niðurskurð á fjárveitingum til nýrra þjóðvega og brúa frá fjárveitingunni í ár, og mun þó öllum hv. þm. hafa þótt ærið nógur sá niðurskurður sem þegar hefur orðið í þessum framkvæmdum í tíð núv. hæstv. ríkisstj.

Í núgildandi vegáætlun var gert ráð fyrir að af 330 millj. kr. halla í lok ársins 1975 yrðu greiddar 100 millj. kr. á þessu ári. Samkv. nýjustu áætlun er ljóst að þess í stað hefur hallinn verið aukinn úr 330 millj. í 650 millj. kr., og þrátt fyrir hinn stórfellda niðurskurð á nýjum framkvæmdum er ekki gert ráð fyrir að greiða neitt af þessum halla á næsta ári, heldur velta honum yfir á þar næsta ár. Það eru því ekki einungis málefni íþróttasjóðs sem hægri stjórninni ætlar að takast að koma á vonarvöl, heldur eru mál Vegasjóðs þegar komin í algert óefni.

Þá hefur verið lögð fyrir ný áætlun um rekstur Pósts og síma á næsta ári. Hún er við það miðuð að gjaldskrá fyrirtækisins hækki um 25% hinn 1. jan. n.k. og útgjaldaliðirnir laun og önnur rekstrargjöld hækki á næsta ári frá núgildandi fjárl. um ríflega 2400 milli. kr., en fjárfestingar um 470 millj. Launakostnaður og önnur rekstrargjöld hækka þannig á einu ári um 78% og hafa þessir liðir hækkað um 213% frá fjárl. 1974, en fjárfesting um 114%. Þróunin er því hin sama og almennt í ríkisrekstrinum hjá þeirri hægri stjórn sem nú situr, síaukinn þáttur rekstrarútgjaldanna miðað við framkvæmdaþættina.

Skýrsla ríkisstj. um lánsfjáráætlun 1977, sem boðað var að lögð yrði fyrir Alþ. fyrir eða um miðjan nóv., var nú eins og í fyrra lögð fram um það bil sem fjvn. var að ljúka störfum fyrir 3. umr. Þegar haft er í huga, að auk afgreiðslu fjárl. er Alþ. í hinu mesta tímahraki við afgreiðslu fjölmargra mála, þá er sýnilegt að ekki er til þess ætlast að þm. geti kynnt sér lánsfjáráætlunina fyrr en þingstörfum er lokið fyrir jól. Þess er því enginn kostur að eyða orðum að lánsfjáráætluninni að þessu sinni. En þó mætti á það benda, að gert er ráð fyrir að hreinar ríkisframkvæmdir og sameiginlegar framkvæmdir ríkis og sveitarfélaga við byggingar og mannvirki lækki að krónutölu á næsta ári um 3180 millj. kr. og þessar framkvæmdir nemi á árinu 1977 um 70% af framkvæmdum á árinu 1976, sé miðað við sambærilegt verðlag. Og gert er ráð fyrir að til viðbótar 12 270 millj. kr. nettóaukningu erlendra lána þjóðarinnar á þessu ári verði enn nettóaukning á næsta ári um 10260 millj. kr.

Í samræmi við lánsfjáráætlunina er síðan gert ráð fyrir að auka erlendar lántökur á fjárl. næsta árs um 922 millj. kr. frá því, sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv., og innlend lán um 100 millj., jafnframt því sem vaxtagjöld í A-hluta eru aukin um 128.5 millj. kr. frá frv. og vaxtagjöld í B-hluta um 306.4 millj., eða samtals aukning vaxtagjalda frá því, sem greinir í frv., um 434.9 millj. kr. Þá nema vextir í A-hluta fjárl. á næsta ári 2273.3 millj. kr. og vextir í B-hluta hækka úr 6228.3 millj. í 6534.7 millj. kr. Nema þá vaxtagjöld í heild 8808 millj. kr. á næsta ári og hafa hækkað frá núgildandi fjárl. um 4244 millj. kr. — hækka um 4244 millj. kr. á einu ári eða um 93%. Hækkun vaxta í A- og B-hluta fjárl. á næsta ári jafngildir 52% af öllum nettótekjuskatti allra einstaklinga í landinu á því sama ári.

Fulltrúar Þjóðhagsstofnunar komu á fund fjvn. fyrir 2. umr. og greindu frá framvindu efnahagsmála á árinu 1976 og horfum á næsta ári. Fyrir 3. umr. lögðu sömu aðilar síðan fram endurskoðaða tekjuáætlun fyrir næsta ár og er nú byggt á þeirri nýju spá um þróun verðlags og launa sem sett er fram í kverinu „Úr þjóðarbúskapnum“ frá 7. des. s. l., þ. e. að meðalverðlag geti orðið 6–7% hærra og innflutningsverð í íslenskum krónum og almennt kauplag 7–8% hærra en reiknað er með í fjárlagafrv. Með því að reikna þannig með meiri áhrifum verðbólgu en gert er í fjárlagafrv. eru tekjur ríkissjóðs hækkaðar frá fjárlagafrv. um ríflega 5900 millj. kr. í 89 milljarða 942 millj. kr.

Þrátt fyrir framkvæmd stefnunnar um samdrátt opinberra framkvæmda, minnkun samneyslu, dugir stjórnarflokkunum þó ekki þessi tekjuáætlun Þjóðhagsstofnunar. Útþenslan, sem orðin er á rekstrarliðunum, sprengdi þennan ramma og þá var gripið til þess að hækka áætlun Þjóðhagsstofnunar um tekjur af söluskatti um 150 millj. kr., áætlun um óvissar tekjur um 70 millj. og áætlun stofnunarinnar um tekjur af stimpilgjöldum um 30 millj., kr., og hafði Þjóðhagsstofnun þó hækkað áætlun um tekjur af þessum lið um 130 millj. frá frv. til samræmis við frv. sem hefur verið til meðferðar á Alþ. um breytingar á þessum gjöldum. Þessu til viðbótar lækkuðu síðan fulltrúar stjórnarflokkanna áætlun um óviss útgjöld um 100 millj. kr. til þess að ná endum saman á fjárl. sem hækka um nær 30 milljarða kr. og nema um 90 milljörðum. Er þó sjúkratryggingagjaldi, um 1200 millj. kr., haldið utan fjárl. enda þótt innheimtumenn ríkissjóðs eigi nú að innheimta gjaldið sem rennur til greiðslu kostnaðar við almannatryggingar ríkisins.

Samkv. þessu verða áætlaðar tekjur ríkissjóðs á fjárl. næsta árs 89 milljarðar 942 millj. kr. og hækka um nær 30 milljarða frá núgildandi fjárl. Væri í fjárl. næsta árs miðað við verðlag og kaupgjald í des., svo sem venja hefur verið, þegar ekki hefur verið til að dreifa eins og nú umsömdum kauphækkunum á komandi ári, er talið að tekjuupphæðin væri um 6000 millj. kr. lægri. Sé einnig dregið frá olíugjald, 1700 millj. kr., en það er ekki í tekjulið núgildandi fjárl., þá nemur hækkun skattheimtu á sambærilegum grunni frá núgildandi fjárl. um 21.9 milljörðum kr. eða ríflega 36%, en í fjárlagafrv. var gert ráð fyrir að þessi hækkun næmi 30.6%. Sé þannig tekið tillit til áhrifa af umsömdum kaupbreytingum á næsta ári og þess, að olíugjald er nú talið með ríkistekjum, þá eykst skattheimta ríkissjóðs um liðlega 36%. En samkv. upplýsingum Þjóðhagsstofnunar er meðalhækkun kauptaxta launafólks á þessu ári um 26% og hækkun framfærsluvísitölu um 31–32%. Þetta segir sína sögu um baráttu hæstv. ríkisstj. gegn verðbólgunni og fyrir bættum kjörum almennings, en þar er árangurinn öfugur við öll fyrirheit.

Þriðju fjárlög hæstv. ríkisstj. bera því sömu einkennin og hin fyrri: Þau hækka langt umfram verðlags- og kaupgjaldshækkanir. Þáttur samfélagslegra framkvæmda rýrnar, en rekstrarútgjöldin þenjast þeim mun meira út. Enn er við haldið niðurskurði á kaupmætti lífeyrishóta gamalmenna og öryrkja. Aukning skattheimtu umfram almennar verðlags- og kaupgjaldshækkanir kemur fram í hækkun neysluskatta sem hitna harðast á barnafjölskyldum og lífeyrisþegum, en gróðafélögum er hlíft við skattlagningu. Gert er ráð fyrir því að auka kostnað sjúklinga vegna lyfjakaupa og læknishjálpar um 400 millj. kr. á næsta ári, auk þess sem boðuð er í grg. fjárlagafrv. frekari endurskoðun á hlutdeild sjúklinga í sjúkrakostnaði. Lántökur eru enn auknar þrátt fyrir samdrátt í verklegum framkvæmdum. Tekjuáætlun er þanin út fyrir áætlun Þjóðhagsstofnunar til þess að koma saman endum við afgreiðslu fjárl. Gert er ráð fyrir að gengi krónunnar sígi enn á næsta ári þrátt fyrir hækkandi afurðaverð og bætt viðskiptakjör, en samkv. áætlun Þjóðhagsstofnunar verður útflutningsverð sjávarafurða 11% hærra á næsta ári en í ár, en talið er að gengissig íslensku krónunnar hafi hækkað verðlag innflutnings um 8000 millj. kr. á þessu ári og sama leikinn á að leika á næsta ári.

Allt er þetta í samræmi við stefnu stjórnarflokkanna til þessa, en sú stefna takmarkalausrar útþenslu rekstrarútgjalda í ríkisrekstrinum og hömlulausrar notkunar erlends gjaldeyris til innflutnings hvers kyns varnings í samkeppni við innlenda framleiðslu hefur dregið úr þeim bata sem orðið hefur á viðskiptajöfnuði, en að dómi Þjóðhagsstofnunar stafar sá bati að verulegu leyti af aukningu útflutnings á áli og samdrætti í innflutningi áls. Þá hefur innflutningur skipa dregist svo saman á árinu að hann er einungis 38% af innflutningi 1975. Enn fremur hefur verið gengið svo á birgðir útflutningsvöru að útflutningur hefur á þessu ári aukist um 14% meir en framleiðslan. Verðlag útflutnings hefur einnig hækkað í þeim mæli að meðalútflutningsverð alls útflutnings hefur í ár verið um 17–18% hærra í erlendri mynt en á árinu 1975. Allt hefur þetta því valdið talsverðum bata á viðskiptajöfnuði þrátt fyrir eyðslustefnu hæstv. ríkisstj., en sú stefna dregur úr áhrifum þeirra breytinga ytri aðstæðna sem öllu hafa valdið um bættan viðskipta jöfnuð.

Stefna hæstv. ríkisstj. hefur einnig valdið því, að þrátt fyrir óverulega hækkun innflutningsverðs í erlendum gjaldeyri á s. l. tveimur árum, eða 5% 1975 og 6–7% í ár, samanborið við 35% á árinu 1974 og þrátt fyrir rýrnandi kaupmátt launa almennings tvö s. l. ár, þá er verðbólgan í landinu enn yfir 30% á þessu ári og miklu minna hefur dregið úr verðbólguvextinum hér en í nokkru öðru nálægu landi. Og vegna áhrifanna af áframhaldandi útþenslu rekstrarútgjalda í ríkisrekstrinum og sóunarstefnu í gjaldeyrismálum er búist við því að þótt einungis sé miðað við þegar umsamdar launahækkanir á næsta ári verði framfærsluvísitalan 23–24% hærri að meðaltali á næsta ári en á árinu 1976. Þetta er óglæsilegur árangur stjórnarstefnunnar, en í fullu samræmi við það hvernig haldið hefur verið á málum.

Það er ástæðulaust að hafa öllu fleiri orð um fjárlagaafgreiðsluna að þessu sinni en ég hef þegar gert við þessa umr. og hinar fyrri. Þannig er að málum staðið af hálfu hæstv. ríkisstj. að í raun er óviðunandi fyrir þm. og þá ekki síst fyrir fulltrúa stjórnarandstöðunnar. Vinnubrögðin, sem viðhöfð eru, gera þeim í rauninni ókleift að taka eðlilegan þátt í afgreiðslu fjárl.

Fulltrúar stjórnarflokkanna viðurkenna vissulega að undirbúningur og afgreiðsla frv. og áætlana, sem áttu að liggja fyrir við afgreiðslu fjárl., hafi verið með öllu óviðunandi. En því er á hinn bóginn haldið fram sem verulegu atriði við afgreiðslu fjárlagafrv. nú, að það byggist á miklu meira raunsæi en áður vegna þess að nú er gert ráð fyrir umsömdum kaupgjaldsbreytingum á næsta ári. Þetta um raunsæið gæti verið rétt ef ástandið í launa- og kjaramálum væri á þann veg að einhverjar líkur væru á því að launafólk yndi við þær breytingar einar sem þegar hefur verið samið um. Þannig er staðan ekki nú. Kjaraskerðingin s. l. tvö ár hefur verið stórfelldari en svo samtímis bættum ytri aðstæðum á þessu ári og áætluðum bata á næsta ári að um það geti verið að ræða að launafólk sætti sig einungis við umsamdar launabreytingar. Það er ámóta nærri lagi að telja að fjárlög séu nú raunhæf vegna áætlunar um umsamdar kaupgjaldsbreytingar á næsta ári og að telja að maður, sem gengið hefur um þurrlendi á strigaskóm og setur upp lág gúmmístigvél nokkru áður en hann leggur út í að vaða stórfljót, hafi mætt þeim aðstæðum með raunsæjum hætti. Það má vera að hann sýnist forsjáll þann stutta tíma sem hann gengur í lágu stígvélunum á þurrlendinu, en það mun koma í ljós þegar að fljótinu kemur hversu honum endist forsjálnin.