20.12.1976
Sameinað þing: 36. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1522 í B-deild Alþingistíðinda. (1174)

1. mál, fjárlög 1977

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Eins og fram kemur á nál. frá samvn. samgm. hef ég undirritað það með fyrirvara. Sá fyrirvari byggist fyrst og fremst á þremur atriðum.

Það er í fyrsta lagi í sambandi við djúpbátinn Fagranes hf. Eins og kom fram hjá formanni og frsm. n. hefur verið mjög erfiður rekstur þess báts að undanförnu og það var raunar fyrir séð við afgreiðslu fjárl. á s. l. ári að hverju stefndi og var auðvitað algerlega óraunhæft að afgreiða það mál eins og þá var gert. En þá komu yfirlýsingar góðra manna hér um sérstaka fyrirgreiðslu sem þá var um talað, en ég skal ekki fara frekar út í þá sálma í sambandi við það mál. En það er, að ég held, nokkuð séð að með þessari styrkveitingu til Fagranessins er vægast sagt teflt á tæpasta vað með það hvort rekstur bátsins getur gengið allt árið fáist ekki leiðrétting á þessari upphæð.

Í öðru lagi er varðandi sama lið, þ.e. vegna mjólkurflutninga úr Dýrafirði. Það má furðulegt teljast að ekki skyldi fást fram breyting á þessum lið. En um þetta voru greidd atkv. í samgn. og það kolfellt, þó að þar væri um að ræða tiltölulega litla breytingu í fjárhæð talið, en mjög svo sanngjarna og nauðsynlega. Hér er um það að ræða að það er búið að gera samning um þetta verkefni og sá samningur hljóðar upp á helmingi hærri upphæð en hér er um að ræða, um 500 þús. kr., ef ég man rétt. Þetta er bindandi samningur, þannig að það var og er augsýnilegt að þessi upphæð er fjarri því að leysa þann vanda sem þar er. Auk þess er rétt að minnast þess, að í fyrra var þessi fjárhæð, held ég, ekki hækkuð neitt frá fjárl. ársins 1975, þannig að þarna var vissulega mikil þörf á leiðréttingu.

Í þriðja lagi var um að ræða lið nr. 43, þ. e. mjólkurflutninga í Önundarfirði. Það er alveg sambærilegt við það sem gerist í Dýrafirði. Það er einnig, ef svo má segja, á verksviði Djúpbátsins, og þennan lið hefði þurft að fá leiðréttan til hækkunar.

Ég hef ekki enn sem komið er lagt fram brtt. við neinn þessara liða. Ég vænti þess og trúi varla öðru en þetta verði leiðrétt án þess að það verði bornar fram hér sérstakar brtt., hvorki af stjórnarandstæðingum né stjórnarsinnum, en báðir eru til þess líklegir að gera slíkt ef í hart færi. En mér finnst satt að segja að það sé raunar óviðunandi að fá ekki nokkra hækkun á sérstaklega þessum tveimur liðum því að þar er þó um óverulegar fjárhæðir að ræða sem breyta ekki neinn varðandi heildardæmið á fjárl. sem eru komin upp undir 90 milljarða kr. En ég skal ekki eyða frekari orðum þar um. Ég sé hvað setur, hvernig mál þróast hér í meðferð í kvöld. Enn er tækifæri til þess að bera fram brtt. En það verður af minni hálfu ekki gert að sinni.

Ég vil aðeins víkja örfáum orðum að því sem formaður og frsm. n. gat um í sambandi við erindi þeirra í Norðurfirði á Ströndum. Það var að mínu áliti ekkert því til fyrirstöðu að taka það hér inn og afgreiða það á þessum lið fjárl. En menn töldu æskilegra að fara hina leiðina, að óska eftir því sérstaklega af hálfu n. að Byggðasjóður sinnti þessu verkefni. Það er ekki í sjálfu sér meginatriði hvaðan þessir fjármunir koma, en þeir sóttu um 3 millj. kr. fyrirgreiðslu til þess að endurbyggja uppskipunarbát sem þeir hafa í stað hafnaraðstöðu á Ströndum. Og það liggur í augum uppi að það er margfalt ódýrara fyrir ríkissjóð að verða við þessari beiðni þeirra á Ströndum heldur en ef ætti að fara út í að byggja upp hafnaraðstöðu sem að sjálfsögðu þeir eins og aðrir landsmenn eiga rétt á. En þeir stilla þessu máli þann veg í hóf, að þeir óska aðeins eftir fyrirgreiðslu til þess að endurbyggja þennan bát.

Ég hef ekki ástæðu til þess að ætla annað en Byggðasjóður verði góðfúslega við þessari beiðni kannske ekki síst vegna þess að annar framkvæmdastjóri sjóðsins á sæti í samgn. og lýsti eindregið yfir þar að hann teldi þetta sjálfsagt mál, svo sjálfsagt að það gæti að sínu mati á engan hátt vafist á nokkurn hátt fyrir stjórn Byggðasjóðs að afgreiða það jákvætt. Ég tek því undir það, sem fram kemur í bréfi formannsins til Byggðasjóðs, að skjótt verði við brugðið í þessu máli og það fái skjóta afgreiðslu, en það hefði gjarnan mátt fylgja með: jákvæða líka, ég held að það hafi ekki verið í bréfinu. En því er þá hér með komið áleiðis. En ég a. n:. k. vona að við þessari beiðni þeirra strandamanna verði orðið af Byggðasjóði.

Ég skal ekki ræða hér neitt að þessu sinni um fjárlagafrv. í heild eins og það nú stendur og greinilegt er, að því er virðist, hver endanleg afgreiðsla þess á að verða. Það hefur verið gert hér í kvöld af fulltrúum stjórnarandstöðunnar. Ég hygg að það mundi ekki leiða neitt nýtt í ljós þó að ég færi að fara um það hér orðum. Það er haldið óbreyttri stefnu frá því sem var í fjárl. ársins í ár. Rekstrarútgjöld eru þanin út, kerfið stórlega vex, en samfélagslegar fjárveitingar eru skornar niður og dragast saman. Þetta er ljóst og ég skal ekki fara um þetta fleiri orðum.

En ég ætla með örfáum orðum að gera hér grein fyrir brtt. sem ég flyt ásamt hv. þm. Sighvati Björgvinssyni við heimildagrein fjárl., þar sem við leggjum til að inn verði tekin í 6. gr. nýr liður sem orðist svo: „Að taka lán allt að 80 millj. kr. til þess að flýta hafnarframkvæmdum í Bolungarvíkurhöfn vegna þjónustu við loðnuflotann.“ Ég held að það sé nauðsynlegt að gera með örfáum orðum grein fyrir ástæðunni að þessari brtt.

Það eru öllum hv. þm., að ég hygg, ljós hin breyttu viðhorf varðandi loðnuveiðar á þessu ári. Allt frá miðju ári hafa átt sér stað loðnuveiðar fyrir Vestfjörðum, sem ekki hefur gerst áður, og það breytir öllum viðhorfum varðandi þetta mál sem hér um ræðir. Ég hygg að öllum hv. þm. sé það einnig ljóst, að í Bolungarvík er loðnuverksmiðja og að öllum líkindum mun hún taka á móti um eða yfir 20 þús. lestum af loðnu á þessu ári, þar af mun hún vera búin að taka á móti um 17 þús. lestum af sumarloðnuveiðinni. Þegar eru hafnar framkvæmdir við stækkun þessarar verksmiðju. Eins og nú er afkastar hún um 250 lestum á sólarhring, en fyrirhuguð er og þegar hafin framkvæmd á stækkun við hana þannig að hún mun að þeirri stækkun lokinni afkasta um 500 lestum á sólarhring, þ. e. a. s. helmingsstækkun.

Til þess að þessi aukna afkastageta komi að notum eru nauðsynlegar tiltölulega litlar framkvæmdir á nútímamælikvarða í sambandi við höfnina í Bolungarvík. Í fjögurra ára áætlun, sem nú liggur fyrir frá Vita- og hafnamálaskrifstofunni, er gert ráð fyrir þeim framkvæmdum, sem við erum hér að tala um, á síðari tveimur árum þeirrar áætlunar. Hér væri því um það að ræða að flýta þessum framkvæmdum um tvö ár eða svo til þess að þær yrðu samstíga þeirri auknu afkastagetu sem nú er stefnt að að eigi sér stað í sambandi við loðnuverksmiðjuna þar vestra. Er gert ráð fyrir að stækkun verksmiðjunnar og þær hafnarframkvæmdir, sem þarf til þess að a. m. k. sé skynsamlega að þessum framkvæmdum staðið, kosti hvorar tveggja um 220–240 millj. kr., stækkun verksmiðjunnar um helming og þær hafnarframkvæmdir sem hér er verið um að tala. En eftir að þessi stækkun hefur átt sér stað á verksmiðjunni mundi hún framleiða fyrir ca. 8 millj. kr. á sólarhring, þ. e. a. s. hún mundi framleiða á röskum mánuði fyrir andvirði þess sem hvorar tveggja þessar framkvæmdir mundu kosta.

Það verður því vart fundið þjóðhagslega hagkvæmari framkvæmd en hér er um að ræða í öllum skilningi. Hér er ekki um að ræða bara framkvæmd fyrir Bolungarvík sem slíka. Hér er miklu frekar um að ræða framkvæmd sem nauðsynleg er vegna þeirra aðstæðna sem skapast hafa, þ. e. a. s. loðnuveiðanna úti fyrir Vestfjörðum, því að eins og kunnugt er, þá er ekki um að ræða, að Bolungarvíkurverksmiðjunni frá talinni, nema verksmiðju á Siglufirði eða þá hér á Suðurnesjum. Það er ljóst varðandi siglingar þær leiðir, í hvora áttina sem farið yrði, á þeim tíma sem hér um ræðir, þ. e. a. s. frá hausti og fram eftir vetri, að það er ekki skynsamlegt að stefna skipum í slíkar siglingar með loðnufarma. Og það er ljóst að það þarf að auka svo afkastagetu verksmiðja í landi að þær geti annað því aflamagni sem líkur eru taldar á að hægt verði að afla. Hér er því um það að ræða hvort verður gert kleift að fara í þessar framkvæmdir þar vestra sem kosta um 240 millj. kr. Hér er ég — og það má kannske þykja einkennilegt — hér er ég að mæla sérstaklega með einstaklingsframtakinu. En þrátt fyrir það er þetta að mínu viti svo nauðsynleg framkvæmd, skynsamleg í alla staði fyrir þjóðfélagið í heild, að það er nánast ótrúlegt að ekki verði orðið við þessari beiðni sem hér liggur fyrir. Það eru taldar á því líkur, ekki er ég viss um að full vissa liggi fyrir um það, að inn verði tekin í lánsfjárheimildir einhver upphæð til þess að veita sem fyrirgreiðslu í stækkun verksmiðjunnar, en enn sem komið er hefur ekki fengist neitt vilyrði fyrir því að taka inn á heimildagrein fjárl. eða í lánsfjáráætlunina neina fjárhæð sem gerði kleift að fara í stækkun eða lagfæringu á höfninni. Það er augljóst mál, a. m. k. þeim sem til þekkja á staðnum, að eins og hafnaraðstaða þar er nú, þá er gersamlega vonlaust að það sé bægt að veita viðtöku því hugsanlega aflamagni sem þarna gæti borist á land miðað við það að lagfæring ætti sér stað á hafnarmannvirkjum.

Þetta mál hefur verið rætt við hæstv. forsrh. og ég hygg að það hafi einnig verið rætt í ríkisstj. í heild. En mér vitanlega liggur ekki neitt fyrir um það nú við lok 3. umr. um fjárlög og endanlega afgreiðslu fjárl., að neinar líkur séu til þess að vilyrði fáist fyrir því að hægt sé að fasa í þessar lagfæringar á höfninni. Ég trúi því vart að það verði ekki orðið við þessari beiðni, því að ef menn á annað borð meina eitthvað með tali um skynsamlega fjárfestingu, þjóðhagslega hagkvæma, þá er hér eitt gleggsta dæmið um að hvor tveggja þessara skilgreininga á við um þá framkvæmd sem hér er um að ræða. Og eins og ég sagði áður, hér er um svo tiltölulega litla fjármuni að ræða að það er ótrúlegt annað en það verði orðið við þessari beiðni. Ég a. m. k. vil vona að þessi till. okkar um lántökuheimild verði samþ. til þess að a. m. k. það sé þá opin leið til að fara í þessar framkvæmdir á næsta ári.

Ég held að það þurfi ekki frekari rökstuðning við fyrir þessu máli, það er það augljóst öllum þeim, sem það vilja kynna sér, að ekki ætti að þurfa að fara um það frekari orðum. En ég sem sagt vona í lengstu lög að skynsemin fái að ráða og þjóðhagslega hagkvæmar framkvæmdir fái a. m. k. að fylgjast með, þó þær fái nú ekki forgang. Ég sem sagt vona mjög eindregið að þessi till. verði samþykkt, því að verði það ekki, þá tel ég illa farið með mjög gott og upplagt mál.