21.10.1976
Sameinað þing: 7. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í B-deild Alþingistíðinda. (118)

5. mál, Vestfjarðaskip

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Á þskj. 5 hef ég leyft mér að flytja svofellda till. til þál.:

„Alþingi ályktar að fara þess á leit við ríkisstj. að hún feli Skipaútgerð ríkisins að hefja undirbúning að útgerð á sérstöku Vestfjarðaskipi, er annist flutninga milli Reykjavíkur og vestfirskra hafna. Við þann undirbúning verði haft samráð við sveitarstjórnir á Vestfjörðum og aðra aðila þar, svo sem eins og þá aðila sem hafa með höndum flutninga á landi og sjó innan fjórðungsins, og leitast við að skipuleggja vöruflutninga í samráði við þá þannig að vöruflutningar frá Reykjavík til uppskipunarhafna á Vestfjörðum og frá uppskipunarhöfnum og um fjórðunginn geti gengið greitt og örugglega og sem ódýrast. Jafnframt verði sérstaklega athugað hvort ekki sé unnt að hefja rekstur Vestfjarðaskips mjög bráðlega, t.d. með því að taka til bráðabirgða á leigu skip til flutninganna eða með því að notast við gamla Herjólf með einhverjum breytingum á meðan verið er að undirbúa kaup eða smíði á skipi sem hentar að öllu leyti til að sinna þessu sérstaka verkefni.“

Það þarf væntanlega ekki fram að taka, að Vestfirðir hafa ásamt Austfjörðum verið sá landshluti sem búið hefur við hvað erfiðastar samgöngur á Íslandi. Mjög lengi var alls ekkert vegasamband við fjórðunginn, eftir að aðrir landsfjórðungar voru komnir í sæmilega gott vegasamband við aðalvegakerfi landsins, en með framkvæmd fyrsta samgönguþáttar Vestfjarðaáætlunar á sínum tíma var ráðin nokkur bót á þessu, þó að enn sé langt í frá að vestfirðingar séu í jafngóðu akvegasambandi við þjónustumiðstöð landsins alls — við Reykjavík — og flestir aðrir landsmenn eru. Þar við bætist að akvegir milli Vestfjarða og annarra landshluta, milli samgöngusvæða á Vestfjörðum og jafnvel milli nágrannabyggðarlaga innan sama samgöngusvæðis eru lokaðir sökum snjóa hartnær hálft árið. Þó að aðeins sé um mjög skamman veg að fara milli nágrannasveitarfélaga er sá vegur að mestu ófær hálft árið eða jafnvel meira. Allan þennan tíma verða vestfirðingar að treysta einvörðungu á samgöngur á sjó og í lofti og eru þá nánast settir líkt og þeir byggju á eyju aðskilinni frá meginlandi Íslands. Að sjálfsögðu er þetta ástand mjög bagalegt, bæði fyrir vestfirsk heimili og allan atvinnurekstur á Vestfjörðum og þá ekki hvað síst fyrir fólk í byggðarlögum sem eru algerlega einangruð frá nærsveitum á vetrum og engin aðstaða er til þess að flytja vörur eða fólk, hvorki á láði né í lofti. En þannig er því miður farið um mörg sveitarfélögin á Vestfjörðum, að það er erfitt að verða sér úti um brýnustu lífsnauðsynjar, erfitt að leita læknishjálpar, erfitt að leita sér þjónustu, sem aðrir telja sjálfsagða hluti. Á undanförnum árum hefur einangrun margra slíkra staða þó vorið rofin með gerð flugvalla í nágrenninu, en flestir þessara flugvalla eru þó í raun réttri bráðabirgðaflugvellir þar sem flest flugleiðsögutæki og öryggistæki skortir og aðstöðu fyrir farþega er mjög ábótavant. Er talið að kostnaður við að koma þeim flugvöllum, sem nú eru notaðir á Vestfjörðum, í viðunandi horf nemi ekki lægri upphæð en um það bil 1 milljarði kr., og af því má sjá að mikið verk er enn óunnið til þess að tryggja vestfirðingum viðunandi og öruggar flugsamgöngur. Þá má einnig bæta því við, að jafnvel þótt fast áætlunarflug sé tekið upp til byggðarlags á þessum slóðum, þá bregður svo undarlega við að samgöngurnar batna ekki að sama skapi, þ.e.a.s. samgöngurnar batna milli viðkomandi byggðarlags og Reykjavíkur, en leggjast jafnvel alveg niður milli þessa byggðarlags og þeirrar þjónustumiðstöðvar á Vestfjörðum sem því byggðarlagi á að þjóna, þannig að tilkoma flugvallar og fast áætlunarflugs til vestfirsks byggðarlags þarf ekki endilega að þýða alhliða samgöngubót. Það getur jafnvel þýtt afturför hvað varðar samgöngur innan Vestfjarðakjördæmis sjálfs.

Engu að síður er þó ljóst orðið af reynslunni að flugvélar verða þau samgöngutæki sem öðrum fremur munu annast flutninga á fólki til og frá Vestfjörðum og jafnvel innan samgöngusvæða í Vestfjarðakjördæmi. Flugið er sá ferðamáti sem fólkið hefur kosið sér til sjálft í þessum landshluta eins og öllum öðrum. Marka má það af því, að árið 1944 voru 75.6 % allra farþegaflutninga til og frá Vestfjörðum með flugvélum, en á árunum 1961–974 minnkuðu farþegaflutningar á sjó um helming meðan farþegafjöldi með flugvélum fimmfaldaðist. Það virðist því útséð um það, að þó að hugmyndir hafi verið uppi t.d. hjá fyrrv. forstjóra Skipaútgerðar ríkisins um að það kynni að vera ráð að byggja stór farþegaskip til hringferða kringum landið, til þess að flytja farþega bæði milli hafna og eins frá einstökum landshlutum til Reykjavíkur, þá hafi reynslan leitt S ljós að þessar hugmyndir séu alls ekki raunhæfar því að það sé harla ólíklegt, a.m.k. um staði sem nokkuð reglulegar flugsamgöngur eru til, að fólk mundi velja sér þann kostinn að fara með skipum t.d. hingað til Reykjavíkur, heldur en með flugvélum, jafnvel þótt flugsamgöngur kunni að vera stopular. Hugmyndin um byggingu farþegaskina til þess að vera í hringsiglingum um landið held ég að heyri ekki lengur þeim tímum til sem við lifum á. Það er frekar tilraun til þess að vekja upp lausn sem átti við á sínum tíma, en reynslan hefur sýnt okkur að á ekki lengur við. Því er fastlega reiknað með því að á næstu árum muni hlutur farþegaflugsins til og frá Vestfjörðum örugglega vaxa enn, enda er beinlínis ráð fyrir því gert bæði af vestfirðingum sjálfum, í útreikningum og spádómum áætlanadeildar Framkvæmdastofnunar ríkisins og enn fremur í áætlun Vegagerðar ríkisins um samgöngubætur á landi.

Öðru máli gegnir hins vegar um vöruflutningana. Eins og nú standa sakir eru flutt um 70 þús. tonn af vörum til Vestfjarða á ári og er talsverður hluti þess almennar neysluvörur ásamt vörum svo sem eins og varahlutum o.fl. til þarfa atvinnufyrirtækjanna á Vestfjörðum. Þær vörur, sem hér um ræðir, þ.e.a.s. flutningarnir til Vestfjarða, eru flestar þannig að mikið liggur við að vestfirsk heimili og atvinnufyrirtæki geti fengið vörurnar fljótt og örugglega og án allt of mikils tilkostnaðar. Vörurnar, sem fluttar eru frá Vestfjörðum, eru hins vegar að langmestu leyti framleiðsluvörur sem ekki er a.m.k. eins mikilvægt að séu fluttar með jafnskömmu millibili og þessar almennu neysluvörur, þó að vandræði hafi skapast nú nýlega vegna þess hve langt er á milli vöruflutninga frá Vestfjörðum til annarra landshluta eða beint til út]anda. Segja má að þessir vöruflutningar til Vestfjarða séu ekki óviðunandi á sumrum þegar vöruflutningabifreiðar ganga reglulega milli flestra byggðarlaga fyrir vestan og Reykjavíkur. En á vetrum er ástandið í þessum efnum hins vegar gersamlega óþolandi. Siglingar skipa Skipaútgerðar ríkisins til Vestfjarðahafna eru þá sem endranær mjög strjálar, og það hefur iðulega komið fyrir að vörur, sem pantaðar hafa verið til fjölmennustu byggðarlaganna á Vestfjörðum og áttu að koma fyrir jól, hafi ekki borist fyrr en eftir nýár. Þetta gerðist t.d. á Ísafirði um s.l. áramót, að jólavarningurinn, sem verslanir þar höfðu pantað og neytendur höfðu gert pöntun hjá þeim á, bárust ekki fyrr en talsvert löngu eftir nýár, og var þá bæði um að ræða vöruþurrð í verslunum og mikið fjárhagslegt tjón fyrir verslunareigendur. Einasta ráðið til þess að fá bót á þessu hefur verið að flytja vörurnar flugleiðis, en það er einhver dýrasti flutningamáti sem um getur, og þann mikla aukaskatt verða vestfirskir neytendur eða vestfirsk atvinnufyrirtæki að borga. Til þess að gefa einhverja hugmynd um hvaða fjárhæðir hér er um að tefla má nefna að samkv. álitsgerð Vegagerðar ríkisins um tengingu Inn-Djúps, sem gerð var s.l. sumar, nam flutningskostnaður á 10 kg vörusendingu með Skipaútgerð ríkisins frá Reykjavík til Vestfjarða á verðlagi í okt. 1975 frá kr. 66 61 upp í kr. 100.60 eftir vöruflokkum, flutningskostnaðurinn með flugvélum á sömu sendingin miðað við verðlag í árslok 1972 286 kr. og flutningskostnaður sömu sendingar með vöruflutningabifreið — og var þá afgreiðslugjald innifalið — um 250 kr. Ofan á þessi flutningsgjöld leggjast svo að sjálfsögðu smásöluálagning og söluskattur, sem breikka enn bilið, svo af því má sjá að það er ekki svo lítið atriði fyrir vestfirska neytendur og atvinnufyrirtæki á Vestfjörðum hvaða flutningaleið er valin eða öllu heldur hvaða flutningaleið menn neyðast til þess að velja miðað við aðstæður, enda er algengt að lítill varahlutur, t.d. varahlutur í bifreið sem mikið liggur við að fá, sem kostar aðeins nokkur hundruð kr. í varahlutaverslun í Reykjavík, kosti vestfirska neytandann talsvert á annað þús. þegar hann fær hlutinn í hendur, og eru þá talin útgjöld t.d. eins og símakostnaður við það að leita uppi þessa vöru og fá hana pantaða.

Það hefur sjálfsagt háð því nokkuð að fá varanlega lausn á þessum málum að til skamms tíma hefur engin ákveðin stefna verið mótuð um hvernig skuli staðið að framkvæmdum í samgöngumálum á Vestfjörðum og milli Vestfjarða og annarra landshluta hvað flutninga varðar. Menn hafa til þessa ekki snúið sér að því á grundvelli hagkvæmniskannana, rannsókna á flutningaþörf, flutningagetu og flutningamöguleikum að velja vísvitandi úr þeim flutningaleiðum sem bjóðast og ákveða t.d. á hvaða leiðir skuli leggja sérstaka áherslu fyrir hverja gerð flutninga. En nú virðist vera að sú stefna hafi verið mótuð. Það hefur verið gert í fyrsta lagi með forsendum sem áætlanadeild — nú byggðadeild — Framkvæmdastofnunar ríkisins hefur sett sér varðandi störf að gerð byggðaáætlunar fyrir Vestfirði, í öðru lagi í forsendum og niðurstöðum álitsgerðar Vegagerðar ríkisins um tengingu Inn-Djúps og í þriðja lagi í samþykkt fjórðungsþings vestfirðinga, sem gerð var í sept. í haust. Stefnan, sem mótuð hefur verið í þessum málum, er í öllum meginatriðum hin sama hjá þessum þremur aðilum. Að því er ég veit a.m.k. er það í fyrsta skipti sem einhver ákveðin stefna í slíkum málum hefur verið mótuð, eitthvert ákveðið val milli ákveðinna kosta hefur farið fram.

Í fyrsta lagi er þarna staðfest sú niðurstaða, sem reynslan hefur raunar sannreynt að sé vilji íbúa Vestfirðinga sjálfra og ég ræddi hér um áðan, að flutningar á fólki til og frá Vestfjörðum, jafnvel innan samgöngusvæða þar, fari fram í lofti. M.ö.o. má vænta þess að í framtíðinni verði samgöngubætur hvað farþegaflutninga varðar fyrst og fremst unnar á sviði loftferða — með framkvæmdum við flugvallagerð, öryggis- og flugleiðsögubúnað á flugvöllum og í bættri aðstöðu fyrir farþega. Er vissulega mikið verk óunnið þar, eins og ég drap aðeins á áður.

Í annan stað sýna kannanir á hinum ýmsu flutningamátum vöru að flutningar á sjó til og frá Vestfjörðum eru ódýrasti og öruggasti flutningamátinn, eins og ég drap á áðan í þeim samanburðarkostnaðartölum sem ég hafði úr skýrslu Vegagerðar ríkisins. Í beinu framhaldi af þessu er niðurstaðan hjá þeim þremur aðilum sem ég hef drepið á, hvað röðun framkvæmda í vegamálum á Vestfjörðum varðar, að fyrst skuli leggja áherslu á tengingu byggðarlaganna innbyrðis innan hvers hinna fjögurra samgöngusvæða á Vestfjörðum, þ.e. Ísafjarðarsvæðis, Patreksfjarðarsvæðis, Strandasvæðis og Reykhólasvæðis, fyrsta verkíð verði að vinna að varanlegri vegagerð innan þessara svæða, þannig að hægt verði að tengja byggðarlögin innan samgöngusvæðanna við sameiginlega þjónustumiðstöð allt árið um kring. Sem viðfangsefni nr. 2 verði svo að tengja þessi samgöngusvæði við aðalvegakerfi landsmanna með varanlegum hætti. Þriðja í röðinni af viðfangsefnum þessum verði svo að tengja þessi samgöngusvæði innbyrðis, að svo miklu leyti sem það hefur ekki verið gert þegar samgöngusvæðin hafa verið tengd aðalvegakerfinu, eins og gert er ráð fyrir að verði viðfangsefni 2.

M.ö.o. geta vestfirðingar ekki vænst þess í náinni framtíð að eiga völ á vöruflutningum á landi allt árið um kring frá Reykjavík, af þeirri ástæðu einfaldlega að sá kostur er svo dýr, bæði fyrir vestfirska neytendur og þjóðfélagið í heild, að hagkvæmara og öruggara er að flytja vöruna sjóleiðis vestur og svo þaðan landleiðis eða sjóleiðis um samgöngusvæðin, og í samræmi við það í að vinna að varanlegri vegagerð og þá væntanlega gerð vöruflutningahafnar og ferjubryggna í fjórðungnum.

Þarna er sem sé verið að marka þá stefnu til framtíðar í raun og veru, Þó að það sé ekki berum orðum sagt, þá er verið að marka þá stefnu til framtíðar að vöruflutningar til Vestfjarða fari fram sjóleiðis til ákveðinna uppskipunarhafna eftir aðstæðum, þær hafnir yrðu að sjálfsögðu við núverandi aðstæður að vera fleiri á vetrum en sumrum, og svo frá þessum uppskipunarhöfnum landleiðis eða með flóabát um samgöngusvæðin. Þetta er í fullu samræmi við þá forsendu bæði áætlanadeildar Framkvæmdastofnunar ríkisins og Vegagerðarinnar að vöruflutningar á sjó um langan veg séu bæði ódýrastir og hagkvæmastir, en hins vegar ódýrara og hagkvæmara að flytja vörur landleiðis ef um skamman veg er að fara. Þessi meginstefnumörkun þýðir þó að sjálfsögðu ekki að verið sé að gefa einhver fyrirmæli um að flutningar á vörum með bifreiðum eða flugvélum eigi að leggjast niður. Ýmsar vörur sérstaks eðlis verða sjálfsagt áfram fluttar flugleiðis, um það bil 1.5–2% af heildarvöruflutningunum nú, og flutningar á landi yfir sumarmánuðina milli Reykjavíkur og Vestfjarða gætu allt eins orðið hér eftir sem hingað til ef sá flutningamáti gæti reynst samkeppnisfær í verði og þjónustu, en meginstefnan er þó sú, að vörur til og frá Vestfjörðum hljóti að vera fluttar á sjó. Þannig nýtist fjármagnið best og þannig verður varan ódýrust fyrir vestfirska neytendur.

Ég álít sjálfur að þessi stefnumótun sé mjög skynsamleg. Ég held að það megi varla búast við því, og þeir geti sagt sér það sjálfir sem hafa farið um vestfirska vegi, — að það megi vart vænta þess að þjóðfélagið hafi fjárhagslegt bolmagn ekki aðeins til þess að byggja vegi sem yrðu færir allan ársins hring vestur á Vestfirði, heldur einnig að þjóðfélagið hefði fjárhagslegt bolmagn til þess að ryðja snjó af þessum vegum jafnoft og gera þyrfti ef ætti að halda vegunum opnum allt árið um kring. Margir vestfirðingar hafa sjálfsagt vonast eftir því að þetta kynni að vera hægt, en mig uggir að það sé ekki fjárhagslega hagkvæmt og það sé raunar að fara illa með fé og nýta illa þá möguleika, sem vestfirðingum gætu staðið til boða í samgöngumálum, að verja miklu fjármagni til slíkra hluta á sama tíma og það ófremdarástand, sem a.m.k. allir þm. Vestf. þekkja, ríkir í hafnarmálum og í vegamálum innan samgöngusvæðanna.

Það hefur einnig komið fram í athugunum Vegagerðar ríkisins að jafnvel þó að búíð væri að leggja varanlega vetrarvegi frá Reykjavík til Vestfjarða, þá yrði ákaflega dýrt þjóðfélagslega að halda þessum vegum opnum, t.d. fyrir vöruflutninga: Vegagerð ríkisins áætlar þannig að kostnaðurinn á kg af vöru sem flutt yrði til Ísafjarðar að vetri, kostnaðurinn við að moka snjó af þeim parti þess vegar sem ekki yrði mokaður til annarra þarfa, mundi nema um 10 kr. á hvert einasta kg af vöru sem flutt yrði til Vestfjarða. Auðvitað væri ekki hægt að leysa þetta mál nema á tvo vegu: annaðhvort með því að láta vestfirska neytendur greiða þetta í formi hækkaðs vöruverðs eða með einhvers konar niðurgreiðslum úr ríkissjóði, sem raunar þýðir eitt og það sama, eða þá í þriðja lagi að fé, sem ella gæti runnið til viðhalds vega á Vestfjörðum, þeirra vega sem fólkið skiptir mestu máli að séu opnir á vetrum, það mundi að mestu fara til þessara hluta.

Þá hefur það einnig verið nokkuð rætt og menn vonast til þess að með gerð varanlegra vega frá Reykjavík til — við skulum segja Ísafjarðar eða einhverra af þessum fjórum samgöngusvæðum sem ég rakti hér áðan, þá mundi skapast sá möguleiki að fólk af Vestfjörðum gæti átt greiða leið til Reykjavíkur á eigin bilum allt árið um kring. En ég verð nú að segja a.m.k. fyrir mig — það verður hver að dæma það fyrir sjálfan sig — að ég mundi hugsa mig tvisvar og jafnvel þrisvar um, ef ég væri staddur t.d. norður á Ísafirði í desembermánuði með fjölskyldu mína og bifreið og vissi af því að vegurinn suður til Reykjavíkur hefði verið mokaður þá um morguninn, — ég mundi hugsa mig tvisvar og þrisvar um áður en ég legði í það stórvirki að mínu mati að fara á eigin bíl alla þessa leið með fjölskyldu mína, einhverja erfiðustu vegaleið sem hægt er að fara, og ekki aðeins það, heldur um mjög langan veg þar sem engin aðstaða er til þess að leita hjálpar til aðstoðar af neinu tagi ef eitthvað brygði út af. A.m.k. hvað næstu framtíð varðar, þá held ég að það sé því algjörlega útilokað að hægt sé að ráðast í það stórvirki að halda vegum til Vestfjarðakjördæmis opnum árið um kring, og fyrst svo er, þá er ekki um annað að ræða heldur en að leysa vöruflutningaþörfina til Vestfjarða vetur og sumar með öðru móti.

Til þess að þetta geti orðið þarf hins vegar að endurskipuleggja frá grunni alla sjóflutninga til og frá Vestfjörðum. Komur skipa Skipaútgerðar ríkisins hálfsmánaðarlega og jafnvel sjaldnar til vestfirskra hafna eru allsendis ófullnægjandi og þá ekki síst á vetrum þegar þetta er eina vöruflutningaleiðin sem vestfirðingar hafa á að kjósa. Þjónusta Skipaútgerðarinnar við þá, sem vörur flytja með skipum félagsins, þarf einnig að batna mjög verulega frá því sem nú er. Þjónusta vöruflutningabifreiða umfram þá sem Skipaútgerð ríkisins veitir er einna helst sú, að með vöruflutningabifreiðum fær flytjandinn vöruna heim í hlað, en verður hins vegar að sækja hana sjálfur á afgreiðslu Skipaútgerðarinnar. Og í annan stað er almennt álitið að meðferðin á vörunni sé mun betri hjá landflutningafyrirtækjum en útgerðinni. Hvort þetta er auðvitað hægt að bæta hjá Skipaútgerð ríkisins og þarf að bæta ef sú stefna í vöruflutningamálum, sem að framan var rakin, á að bera árangur.

Í fyrsta lagi þarf til að koma sérstakt skip, Vestfjarðaskip, sem annast vöruflutninga á sjó milli Reykjavíkur og Vestfjarða og a.m.k. á vetrum flutninga milli samgöngusvæða vestra. Þetta skip þarf að koma á a.m.k. helstu lykilhafnir á Vestfjörðum ekki sjaldnar en tvisvar í viku og vera sérstaklega byggt t,il gámaflutninga til hraðrar lestunar og losunar og til þess að vel geti farið um flutninginn.

Í annan stað er svo að sjálfsögðu nauðsynlegt í samræmi við þá stefnu í samgöngumálum Vestfjarða, sem ég var að enda við að lýsa, að útgerðin hafi fasta samninga við flutningafyrirtæki þau, eigendur vöruflutningabifreiða og flóabáta, sem eiga að flytja vöruna áfram til neytenda eða fyrirtækja innan hvers samgöngusvæðis, svo að flutningar að og frá uppskipunarhöfnum gangi fljótt og örugglega. Einmitt þess vegna er beinlínis ráð fyrir því gert í þáltill. að við undirbúning útgerðar sérstaks Vestfjarðaskips verði haft samráð við aðila, er annast flutninga á sjó og landi á Vestfjörðum, og jafnvel enn aðra, svo sem eins og stærstu verslunar- og þjónustufyrirtæki vestfirðinga, auk sveitarstjórna.

Till. sú, sem hér er flutt, er ekki nýtt mál á Alþ. Slíkar till. eða henni líkar hafa áður verið fluttar, en ekki náð til framkvæmda. Nú hefur það hins vegar gerst, eins og ég rakti áðan, að mörkuð hefur verið ákveðin stefna í samgöngumálum vestfirðinga, þ.e.a.s. um forgangsröð vegaframkvæmda sem ætlunin er að vinna eftir á næstu árum, og algjör forsenda fyrir því, að sú stefna geti skilað árangri, er að sjósamgöngur við Vestfirði verði leystar með sérstöku Vestfjarðaskipi. Verði það ekki gert verður framkvæmd þeirrar samgöngustefnu, sem mörkuð hefur verið fyrir Vestfirði, hvorki heil né hálf, því það er lítil bót í því að efla vegagerð og tryggja varanlegt heils árs samband innan ákveðinna samgöngusvæða með vöruflutninga fyrir augum ef ekki berast vörur, sem flytja á, reglulega til þeirra hafna sem eiga að vera uppskipunarhafnir fyrir þessi samgöngusvæði.

Ég geri mér að sjálfsögðu fulla grein fyrir því, að það getur tekið talsverðan tíma að fá til landsins skip sem sérstaklega hentar til þeirra verkefna sem að framan hefur verið lýst. Á hinn bóginn er nauðsynlegt að reynt verði hið fyrsta að ráða bót á vöruflutningavandkvæðum vestfirðinga þó til bráðabirgða sé. Því er þeirri hugmynd varpað fram í till. að athugað verði hvort ekki sé hægt að fá skip, þó ekki sé það sérstaklega byggt til þessara flutninga, sem gæti komið mjög fljótlega í gagnið. Er í því sambandi bent á möguleika á að fá leiguskip eða nota skip, Herjólf gamla, sem nú er ónotað og á söluskrá, en í eigu Skipaútgerðar ríkisins. Þótt það skip sé lítið og á ýmsan hátt ekki hentugt til þeirra verkefna sem hér um ræðir, er það þó tiltölulega nýlegt skip sem reynst hefur vel á erfiðri siglingaleið, og e.t.v. mætti án mjög verulegs kostnaðar breyta því þannig að það gæti hentað til bráðabirgða sem Vestfjarðaskip. A.m.k. yrði það stór framför frá því sem verið hefur ef gamli Herjólfur yrði tekinn til bráðabirgða í fastar áætlunarferðir milli Reykjavíkur og Vestfjarða í stað þess að liggja bundinn við bryggju í Reykjavík engum til gagns.

Ég ræddi þetta mál á s.l. vetri við þáv. forstjóra Skipaútgerðar ríkisins. Sú viðræða bar ekki árangur, enda hafði hann þá meiri hug á því, eins og ég sagði áðan, að láta byggja á vegum útgerðarinnar eitt eða helst tvö farþegaflutningaskip til þess að flytja farþega hringinn í kringum landið, fremur en leggja áherslu á úrbætur í vöruflutningamálum, eins og hér er gert. Það skiptir kannske ekki meginmáli hvaða skip valið er. Meginatriðið er það, að stofnanir ríkisvaldsins og ríkisvaldið sjálft samhæfi aðgerðir sínar eftir að ákveðin stefna hefur verið mörkuð, að hægri höndin viti hvað sú vinstri er að gera. Það er til lítilla bóta að áætlanir séu gerðar um röðun framkvæmda í samgöngumálum vestfirðina. Vegagerð ríkisins vinni með fullum stuðningi heimamanna og væntanlega Alþ. að því að bæta samgöngur innan samgöngusvæða á Vestfjörðum beinlínis í því skyni að auðvelda dreifingu vöru innsvæðis til og frá útskipunarhöfn, ef svo gleymist eða er vanrækt að gera ráð fyrir örum og traustum sjóflutningum að og frá þessum höfnum. Útgerð sérstaks Vestfjarðaskips er algjör forsenda þess að það markmið náist sem opinberar stofnanir og vestfirðingar sjálfir hafa sammælst um, og nauðsynlegt er að undirbúningur slíkrar útgerðar verði nú þegar hafinn, eins og þáltill. þessi gerir ráð fyrir.

Við þetta má svo að lokum bæta því, að það, sem gerir það raunar enn mikilvægara að þetta ráð sé tekið nú, er það, að eins og ég sagði hér áðan er þetta í fyrsta skipti, a.m.k. sem ég veit til, sem ákveðin stefna hefur verið mörkuð í sambandi við flutninga á vörum innan Vestfirðingafjórðungs, og sú stefna er þess eðlis að ef ekki verða gerðar þær úrbætur í vöruflutningum á sjó til Vestfjarða sem hér um ræðir, þá nær hún ekki tilgangi sínum.

Herra forseti. Ég geri það svo að till. minni að umr. sé frestað og þáltill. vísað til hv. allshn.