20.12.1976
Sameinað þing: 36. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1534 í B-deild Alþingistíðinda. (1180)

1. mál, fjárlög 1977

Eðvarð Sigurðason:

Herra forseti. Við 2. umr. fjárl. flutti ég ásamt nokkrum öðrum hv. þm. till. um breytingar sem allar vörðuðu starfsemi verkalýðshreyfingarinnar. Nokkrar af þessum till. voru teknar til baka til 3. umr. í trausti þess að hv. fjvn. sæi sér fært að endurskoða afstöðu til þeirra. En þar hefur lítil breyting orðið á. Þó hefur ein af þessum till., till. um 200 þús. kr. framlag til Sögusafns verkalýðshreyfingarinnar, verið tekin til endurskoðunar þannig að hún er nú komin á þskj. sem var verið að útbýta, till. frá fjvn. um að þessi fjárveiting komi inn í fjárlög.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þá liði sem hér er um að ræða, ég gerði það við 2. umr. málsins, en verð þó að segja að ég tel að hv. Alþ. haldi ekki mjög upp á 60 ára afmæli Alþýðusambands Íslands þegar synjað er um alveg augljósar leiðréttingar, verðlagsleiðréttingar, þ. e. a. s. leiðréttingar til þess að færa liði ofurlítið nær því verðlagi sem er núna, borið saman við það verðlag sem var þegar þeir komu fyrst inn í fjárlög. Hér er um að ræða alveg sérstaklega þann lið sem ætlaður er til byggingar orlofsheimila verkalýðssamtakanna. Hann er óbreyttur 8 millj., og liggur þó fyrir, að mjög miklar framkvæmdir í þessum efnum eru nú fyrir dyrum, og einnig hitt, að sú upphæð, sem þarna er núna, nægir engan veginn fyrir sömu verðmætum og var á síðustu fjárlögum.

Í öðru lagi vildi ég nefna Félagsmálaskóla alþýðu sem í fyrsta sinn var á fjárl. á síðasta ári. Ég vil endurtaka það sem ég þá sagði, að ég tel það hreinlega til vanvirðu fyrir Alþ. að afgreiða þessa stofnun með svo lágu framlagi sem hér er um að ræða. Hér er fólkið í verkalýðshreyfingunni að koma upp skóla til þess að mennta síg, bæði hvað snertir almennar menntagreinar og svo alveg sérstaklega það sem þetta fólk þarf á að halda í starfi sínu í verkalýðshreyfingunni. Ég held að það væri mjög til bóta fyrir alla aðila í þjóðfélaginu að það fólk, sem að þessum málum vinnur í verkalýðsfélögunum, hafi til að bera sem allra mesta þekkingu. Þess vegna verð ég að segja það, að ég tel að þessi fjárveiting hefði sannarlega átt að hækka, ekki síst þegar tekið er tillit til þess að þetta fólk er búið að standa, sjálfsagt í flestum tilvikum frá 16 ára aldri, undir hvað mestu af þeim fjármunum sem fara til menntunarmála í þessu landi. Þegar það sjálft þarf á að halda er ofrausnin sannarlega ekki fyrir hendi.

Í þriðja lagi vil ég svo nefna 300 þús. kr. upphæð sem við gerum till. um að færi til Norræna verkalýðsskólans í Genf. Auðvitað er hér ekki um að ræða stóra upphæð sem veldur miklu, en alþýðusambandið hefur reynt að taka þátt í þessari starfsemi sem rekin er af verkalýðssamböndum allra Norðurlandanna og styrkt af öllum ríkisstj. Norðurlandanna nema Íslandi. Og verð ég að segja það, að það er ekki mjög til sóma fyrir okkur að standa þannig að málum. Hér er um svo litla upphæð að ræða að ég held að fjárl. hefðu ekki farið úr böndunum þess vegna. En það er að mínu viti alveg ófært að íslenska ríkið skuli ekki styðja þennan skóla, eins og öll Norðurlöndin annars gera að undanteknu Íslandi.

Að lokum vil ég svo minna á till. um 2 millj. kr. framlag til Listasafns alþýðu til stofnkostnaðar. Ég þarf ekki að endurtaka hér það sem ég sagði seinast. Hv. þm. allir vita hvað hér er um að ræða. Það er sem sagt gjöf Ragnars Jónssonar til Alþýðusambandsins eða til íslenskra erfiðismanna, eins og hann orðaði það á sínum tíma. Hér er um að ræða mjög dýrmætt safn sem Alþýðusambandið og Listasafnið hafa reynt að reka á þann hátt að þessi listafjársjóður kæmist fyrir sjónir almennings. Það hefur verið farið með þessi listaverk víða um landið og einnig á vinnustaði og reynt að kynna þessi dýrmæti og vekja um leið áhuga almennings á þeim fjársjóðum sem við eigum á þessu sviði. Ég tel að Listasafn alþýðu hafi gert meira af þessu en jafnvel þeir sem það stæði nær að gera. Það var sem sagt lagt til að 2 millj. færu til Listasafns alþýðu.

Ég vil geta þess í leiðinni að nú fyrir þrem dögum tóku nokkur verkalýðsfélög sig saman um að stofna félag til að koma þaki yfir Listasafnið. Alþýðusambandið hefur enga fjármuni til þess, en verkalýðsfélögin ætla að leggja það á sig að reyna að koma þaki yfir Listasafnið, og það verður að sjálfsögðu gert. En alla vega held ég að það hefði verið vel á sínum stað að Alþ. hefði lagt ofurlítið í þennan sjóð til þess að koma þaki yfir Listasafn alþýðu, og ég endurtek það, sem ég sagði síðast, að það er eiginlega frekar gert til þess að Alþingi fengi að vera þarna með, fengi þann heiður að vera með í að koma þaki yfir Listasafn alþýðu og þar með að heiðra einnig þann mann sem gaf þessa stórhöfðinglegu gjöf — eiga þátt í því. En meiri hl. hér á Alþ. virðist ekki vera þess sinnis.