20.12.1976
Sameinað þing: 36. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1541 í B-deild Alþingistíðinda. (1184)

1. mál, fjárlög 1977

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Ég er meðflm. að einni brtt. við frv. til fjárl. fyrir árið 1977. Það er með till. á þskj. 236 og um er að ræða till. frá Eðvarð Sigurðssyni, mér, Gylfa Þ. Gíslasyni og Karvel Pálmasyni um það, að inn í fjárl. verði tekin upphæð, 2 millj. kr., vegna Listasafns Alþýðusambands Íslands sem stofnkostnaður. Ég get ekki látið hjá líða að fjalla nokkuð um þessa brtt. vegna þess að þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir okkar flm. hefur hún ekki fengið skilning hjá fjvn. á milli umr.

Það hefði verið vel við hæfi að hv. Alþ. hefði samþykkt þessa till. á því ári sem Alþýðusamband Íslands verður 60 ára. En það vill svo til að Alþýðusambandið varð 60 ára í upphafi þessa árs. Það, sem um er að ræða m. a. í tillöguflutningi okkar, er að gefa Alþingi eða alþm. kost á því að sýna einhvern vott þess að það hefur ekki farið fram hjá Alþingi að þessi merku samtök áttu þetta afmæli. Þess vegna var það hugsun okkar að Alþ. samþykkti að leggja 2 millj. kr. sem stofnfjárframlag í það merka listasafn sem hér um ræðir. Hér er um lítinn hlut heildarkostnaðar að ræða, eins og hv. þm. Eðvarð Sigurðsson gat um í ræðu sinni. Þetta er mjög lítill hluti heildarkostnaðar. Verkalýðshreyfingin mun sjálf leggja fram tugi milljóna til að reisa þetta safn og tryggja að sú góða gjöf, sem heiðursmaðurinn Ragnar Jónsson gaf á sínum tíma, þessi dýrmætu listaverk fengju viðunandi stað. Hér var raunverulega um það að ræða að við vildum vekja athygli Alþingis á þessu máli og gefa því kost á að verða aðili að stofnun Listasafns alþýðu á 60 ára afmæli Alþýðusambandsins.

En það vill svo til að það er önnur hlið á þessu máli, sem hefur e. t. v. farið fram hjá mörgum þm. og er kannske skiljanlegt, vegna þess að í skýrslu ríkisstj. um lánsfjáráætlun 1977 kemur fram að hv. Alþ. og ríkisstj. á nokkurt erindi til verkalýðshreyfingarinnar á næsta ári sem og á yfirstandandi ári. Það erindi er ólíkt þeirri stærð sem við erum að tala um, 2 millj. til Listasafnsins, því erindi Alþ. til verkalýðshreyfingarinnar hljóðar upp á nokkra milljarða. Það er því ekki von að menn megi vera að því að taka eftir svona smámunum eins og að leggja fram 2 millj. til Listasafns alþýðu, fjölmennustu samtaka launafólks í landinu. Staðreyndin er nefnilega sú, að menn verða að meta það dálitið eftir stöðunni hvað um er að ræða. Og þó að ASÍ þurfi ekki á því að halda raunverulega að beðið sé um 2 millj. hér á Alþ., þá hefði það nú kannske verið skynsamlegt og einhvers virði fyrir hv. Alþingi og ríkisstj. að verða við þessari till. okkar, því að við lestur lánsfjáráætlunar fyrir 1977 kemur í ljós að við öll og þeir, sem bera ábyrgð á stjórn landsins, mæna vonaraugum til sjóða verkalýðshreyfingarinnar um fjármögnun samkv. lánsfjáráætlun 1977, og án þess að það verði orðið við þeirri bón get ég ekki séð hvernig á að framkvæma þessa lánsfjáráætlun. Með leyfi forseta ætla ég að lesa hér upp úr þessari skýrslu á bls. 8 þann kafla sem lýtur að þessu smámáli sem við eigum erindi með til verkalýðshreyfingarinnar. Þar segir svo orðrétt:

„Lífeyrissjóðirnir eru orðnir mest og örast vaxandi fjármagnsuppspretta í landinu. Á næsta ári er spáð að á þeirra vegum muni falla til ráðstöfunarfé að fjárhæð 10500 millj. kr. sést glöggt af því hversu geysiþýðingarmikið er að þessum sparnaði verði við haldið og hann komi til sem gagnlegastra nota. Af þessari fjárhæð er aðeins áætlað að 30% komi til nota á vegum fjárfestingarlánasjóða, eða 3150 millj. kr. Á yfirstandandi ári vantar nokkuð upp á að svo hátt hlutfall hafi komið til þeirra nota. Er ljóst að vel verður að halda á málum svo að áætlaðri fjárhæð verði að fullu til skila haldið.“

Það skyldi þó ekki vera að það væri líka gott að halda vel á málum gagnvart þeim sem menn ætla að semja við? Ég vil þess vegna segja það, að það veldur mér miklum vonbrigðum hversu litlar undirtektir till. okkar hefur fengið, því að flm. tveir alla vega, Eðvarð Sigurðsson og ég, við höfum ekki verið að þreyta Alþ. með neinum óþarfatill. Okkur finnst að þessari till. okkar hafi verið sýnt tómlæti og skilningsleysi sem er til skaða. Það verður að krefjast þess að Alþ. virði till. og leggi sanngjarnt mat á till. einstakra þm. svo að ekki sé talað um annað meira.