20.12.1976
Sameinað þing: 36. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1542 í B-deild Alþingistíðinda. (1185)

1. mál, fjárlög 1977

Frsm. samvn. samgm. (Friðjón Þórðarson) :

Herra forseti. Ég gat þess áðan í ræðu minni að tveir hv. þm. í samvn. samgm. hefðu undirritað nál. með fyrirvara. Þeir hafa nú báðir gert grein fyrir máli sínu, hv. 5. þm. Vestf. og 9. landsk. þm., og er síður en svo nokkuð við það að at!tuga. En þó verð ég að leiðrétta örfá ummæli sem komu fram hjá hv. 9. landsk. þm., frú Sigurlaugu Bjarnadóttur, af því að þau fá ekki staðist ljós sannleikans, ef svo má segja.

Hún hélt því fram, þessi hv. þm., að óraunsæi og hugsunarleysi hefði ráðið ákvörðun samvn. samgm. um viss atriði er Vestfirði snerta, og sagði um það nokkrar fréttir af fundi n. Ég benti á það á þeim fundi að þegar búið væri að halda allt að 30 ræður, sumar ágætar, aðrar nokkuð góðar, þá væri kominn tími til að fara að skera úr málum og láta þá atkv. ráða ef ekki næðist fullt samkomulag. Þetta var gert á þeim fundi. Til marks um það, að Vestfirðir hafa að mínum dómi ekki orðið út undan, gat ég þess og get þess enn nú, að tveir styrkir nýir, sem teknir voru upp og samþykktir, fyrir utan hinn stóra styrk til Herjólfs, voru einmitt styrkir til tveggja snjóbifreiða á Vestfjörðum, um Sandsheiði og mjólkurflutninga úr Önundarfirði.

Hv. þm. heldur því líka fram að liðurinn mjólkurflutningar úr Dýrafirði hafi gleymst, ekki síst í fyrra, og þá hafi hann ekkert hækkað að krónutölu. Ég gat þess í frumræðu minni að nokkrir styrkir hefðu fyrir ári verið látnir haldast óbreyttir að krónutölu, því miður. Þeir eru allir hækkaðir núna. Ég hafði hér með mér nál. frá því í fyrra og nokkurt yfirlit frá fyrri árum, og það sýnir sig að mjólkurflutningastyrkurinn úr Dýrafirði er ekki eini styrkurinn sem staðið hefur óbreyttur að krónutölu, heldur má sömu sögu segja um 19 styrki aðra. Og ég sé ekki annað en þessi fjárveiting hafi verið mjög eðlileg á liðnum árum. Þessi liður er 100 þús. á fjárl. 1973, 100 þús. á fjári. 1974, 200 þús. á fjárl. 1975 og 1976, en fer nú upp í 250 þús., ef samþykktur verður eins og við höfum gert grein fyrir. Það er um þetta atriði að segja.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð mörg, en vildi þó taka þetta fram til að leiðrétta þennan misskilning og raunar þetta ranghermi og stuðla að því að allir hv. alþm. gætu lítið í blöð sín á sínum borðum og séð hvort verr hefur verið farið með blessaða vestfirðingana heldur en aðra landsmenn. Ég ætlaði ekki að fara að gera smágoluþyt á fundi samgn. að sérstöku umræðuefni hér í þingsölum og geri það ekki að öðru leyti en þessu. En ég verð þó að taka fram að mér þykir þetta nú heldur leitt undir lokin, vegna þess að ég hef alla tíð litið mjög upp til vestfirðinga og haft á þeim óbifanlegt traust, allt frá því að þeir dugðu Þórði kakala allra manna best á Sturlungaöld.