21.10.1976
Sameinað þing: 7. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í B-deild Alþingistíðinda. (119)

5. mál, Vestfjarðaskip

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Einn af kostum lífsins er sá, að hver kynslóð skilur alltaf eftir verkefni handa þeirri næstu. Og svo er einnig þegar ráðherraskipti verða, þá verða verkefni eftir handa þeim sem á eftir koma. Eitt sinn mun Alþfl. hafa átt ráðherra samgöngumála, og þá lá þetta eftir svo að nú er hægt að þessu að vinna. Út í þetta ætla ég nú ekki að fara, því mitt mat er það, að þrátt fyrir það, þó að mikið sé ógert í samgöngumálum hér á landi, hafi mikið verið gert og merkilega mikið verið gert af svo fámennri þjóð í svo strjálbýlu landi eins og okkar er.

Á s.l. hausti sýndu vestfirðingar mér þann sóma að þeir buðu mér á sitt fjórðungsþing, þar sem þeir ræddu samgöngumál sín sem aðalmálið. Þar gerði ég grein fyrir því sem ég best vissi á þeim stöðum þar sem ég þekkti til og heyrði álit þeirra og hafði mikið gagn af því að vera á þessu þingi því umr. voru þar fróðlegar og gagnlegar og fóru fram með skikkanlegum hætti.

Eitt af því, sem ég skýrði þá frá, var að í vændum væru nú skipti á forstjóra Skipaútgerðar ríkisins. Verða þau skipti nú um næstu mánaðamót. Nú er það ekki þannig að ég sé að halda því fram að sá forstjóri, sem þá hættir störfum, hafi sinnt illa sínu verki, nema síður sé, því hann hefur margt gott unnið eins og kunnugt er. En eins og fyrr verða verkefni handa þeim sem við tekur, og sá, sem það gerir, Guðmundur Einarsson, hefur unnið að því um langt áraskeið að kynna sér og vinna að áætlunum um samgöngumálin, bæði hjá Efnahagsstofnuninni og eins hjá Framkvæmdastofnuninni, og er því mjög kunnugur og er búinn að setja sig vel inn í þessi mál. Hann hefur svo notað síðustu vikur, sem hann hefur haft nokkuð frjálsar, til þess að vinna betur að þessu, til þess að vera undir þetta betur búinn þegar hann kemur til starfa í stofnuninni.

Það hefur komið fram í okkar samtali, að það, sem beri að leggja höfuðáhersluna á í sambandi við Skipaútgerð ríkisins, séu samgöngurnar við Vestfirði og Austfirði, það þurfi að endurskoða hvort hringferðirnar eigi rétt á sér, og meðan ekki séu fleiri skip í eigu Skipaútgerðar ríkisins heldur en nú sé, þá þurfi að leggja áherslu á hitt. Það er okkar skoðun sameiginlega að vikulegar ferðir til þessara staða á veturna a.m.k. þurfi nauðsynlega að koma til.

Ég er hv. flm. þáltill. á þskj. 5 sammála um það, að vöruflutningar til Vestfjarða muni fyrst um sinn fara fram á sjó, það sé langhyggilegast og á veturna sé þetta alveg bráðnauðsynlegt, því að það sé svo seinvirkt að bíða landflutninga og dýrt að taka flugflutningana, þess vegna þurfi að vinna algjörlega að þessu. Til þess að gera þetta framkvæmanlegt með góðu móti þarf að athuga með fleiri skip og ákvörðun um sölu Herjólfs er nú mjög til athugunar, hvort af því verður og hvernig hægt væri að hagnýta hann í þessu sambandi. Hann er að vísu ekki undir það búinn því hann er of mikið ætlaður fyrir farþegaflutninga, en ég hef ekki trú á farþegaflutningum á sjóleiðinni yfirleitt nú orðið, enda er okkar vegakerfi og flugfloti byggt upp til þess að taka þann þátt að sér. Hins vegar eigum við meira að fara inn á vöruflutningana á sjóleiðum heldur en við höfum gert. Nú er verið að vinna að því hér í Reykjavíkurhöfn að bæta aðstöðu fyrir Skipaútgerð ríkisins, en hún hefur verið afskaplega erfið, eins og kunnugt er, og raunverulega ekki hægt að taka þar á móti vörum nema beint í skip. Til þess að þetta geti verið í lagi þarf að breyta því þannig að það sé hægt að flytja vörur á öðrum tíma en þegar skipin eru reiðubúin til að taka við þeim, og þetta er eitt af því sem er í áætlun í sambandi við þær hugsanlegu breytingar sem á rekstri Skipaútgerðarinnar yrðu gerðar.

Ég ætla ekki að þreyta menn með langri orðræðu hér að þessu sinni. Ég sé ekki ástæðu til þess. Ég gerði grein fyrir stefnu ríkisstj. á fjórðungsþinginu í haust fyrir vestan og vil endurtaka það, að ég tel að brýna nauðsyn beri til að koma þessum málum þannig fyrir að vikulegar ferðir geti verið til Vestfjarða frá Reykjavík á sjó á veturna a.m.k., og það þurfi að bæta aðstöðu hér og úti á landi til þess að gera samgöngurnar sjóleiðina betri og hentugri heldur en þær eru nú. Jafnframt yrði leitað eftir því með breyttu skipulagi að gera þær einnig hagkvæmari en þær eru og hafa verið nú síðustu árin. Þetta tel ég að verði höfuðverkefni Skipaútgerðar ríkisins nú á næstu mánuðum eða þeim tíma sem þarf til þess að breyta þessu í gott horf, en fyrst og fremst verði stefnumörkunin í þessa átt. Það tel ég að sé nokkurn veginn ráðið og að því verði unnið. Þetta vildi ég segja í tilefni af þáltill.