21.12.1976
Neðri deild: 37. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1561 í B-deild Alþingistíðinda. (1215)

133. mál, lántaka vegna opinberra framkvæmda á árinu 1977

Frsm. meiri hl. (Tómas Árnason) :

Virðulegi forseti. Fjh.- og viðskn. hefur fjallað um frv. til. l. um heimild til erlendrar lántöku vegna opinberra framkvæmda á árinu 1977. N. varð ekki á eitt sátt í málinu. Meiri hl., stuðningsmenn ríkisstj., skilar nál. á þskj. 263 og leggur til að frv. verði samþykkt. Gylfi Þ. Gíslason, hv. 9. þm. Reykv., og Lúðvík Jósepsson, hv. 2. þm. Austurl., skila sérálitum á þskj. 269 og 261.

Það kemur fram í nál. þeirra hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar og Gylfa Þ. Gíslasonar að þeir telja eðlilegt að sérstakar umr. fari fram síðar á Alþ., að loknu jólaleyfi, um lánsfjáráætlunina og um skuldamál ríkissjóðs erlendis og innanlands. Um þetta var nokkuð rætt í n. og nm. voru sammála um að það væri eðlilegt að ítarleg umr. um þetta mál færi síðar fram, þar sem ekki er tækifæri til þess að gera það nú. Þess vegna tel ég eðlilegt að þegar sú skýrsla, sem hæstv. fjmrh. boðaði að flutt yrði um ríkisfjármálin 1976, verður flutt, en hann boðaði það við 3. umr. um fjárl., þá fari einnig fram umr. um lánsfjáráætlunina og einnig um skuldamál ríkissjóðs og lántökur, bæði innanlands og utan.

Frv. þetta fjallar í fyrsta lagi samkv. 1. gr. þess um það að fjmrh. sé heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að taka erlent lán á árinu 1977 að jafnvirði allt að 9 milljarða 732 millj. kr.

Í 2. gr. frv. er nánari grein gerð fyrir því til hvers þessum fjármunum skuli varið, og segir þar að verja skuli 6 milljörðum 870 millj. kr. í samræmi við ákvæði fjárl. fyrir árið 1977, þ. e. a. s. til framkvæmda, en auk þess sé fjmrh. heimilt að endurlána Framkvæmdasjóði Íslands allt að 2 milljörðum 862 millj. kr. á næsta ári. Í n. var útbýtt fjáröflunar- og útlánaáætlun Framkvæmdasjóðs fyrir árið 1977, en hún var samþ. í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins fyrir nokkrum dögum og send ríkisstj. til staðfestingar og lánsfjáráætlunin byggist á þeirri samþykkt varðandi fjárfestingarlánasjóðina, fjáröflun til þeirra og útlánagetu á næsta ári.

Síðan er í 3. gr. frv. gert ráð fyrir því að ríkissjóði sé heimilt að ábyrgjast allt að 700 millj. kr. lán eða jafngildi þeirrar fjárhæðar í erlendum gjaldeyri vegna orkuframkvæmda á vegum sveitarfélaga á næsta ári. Hér er fyrst og fremst um að ræða ábyrgð á láni til hitaveitu á Akureyri.

Að lokum er svo gert ráð fyrir því í 4. gr. að fjmrh. sé heimilt að ákveða með reglugerð að innlend skuldabréfalán allt að 100 millj. kr., er sveitarfélög bjóða út vegna mikils háttar hitaveituframkvæmda á árinu 1977, skuli hljóta sömu meðferð og ríkisskuldabréf samkv. 1. gr. laga nr. 7 frá 1974, um skattalega meðferð veðbréfa o. fl. Hér er um að ræða hliðstætt ákvæði og lögfest var á síðasta ári varðandi heimild til að ábyrgjast skuldabréfalán á vegum sveitarfélaga vegna hitaveituframkvæmda.

Ríkisstj. hefur lagt fram sína lánsfjáráætlun eða skýrslu ríkisstj. um lánsfjáráætlun 1917 og hæstv. fjmrh. hefur gert grein fyrir því máli. Þar er m. a. fjallað um erlendar lántökur. Það er sérstakur kafli í skýrslunni sem fjallar um erlendar lántökur, það mun vera VII. kafli skýrslunnar, og þar er gerð nánari grein fyrir því hvernig þessum málum er í einstökum atriðum fyrir komið. Sé ég ekki ástæðu til að endurtaka það sem hæstv. fjmrh. rakti áðan sérstaklega varðandi þetta atriði.

Það væri e. t. v. ástæða til þess, án þess að ég vilji lengja mál mitt hér nema örlítið, að geta þess hvernig þróunin hefur orðið um erlendar langtímaskuldir ríkisins.

Í árslok 1974 námu erlendar langtímaskuldir 41 milljarði 442 millj. kr. Í árslok 1975 námu þessar skuldir 73 milljörðum 27 millj. kr. Og í árslok 1976 er talið að þær muni verða 95 milljarðar 500 millj. kr. Samkv. þeim áætlunum, sem fyrir liggja, og þeirri stefnu, sem mörkuð er í lánsfjáráætlun og með samþykkt fjárl. fyrir árið 1977, er áætlað að erlendar langtímaskuldir muni nema í árslok 1977 105 milljörðum 760 millj. kr.

Ef gerð er tilraun til að gera sér grein fyrir því hver þróunin er í þessum málum, þá kemur í ljós, ef miðað er við sambærilegan grundvöll, að aukning erlendra langtímaskulda frá árslokum 1974 til ársloka 1975 nemur um 25.2%. Samsvarandi aukning frá áralokum 1975 til ársloka 1976 mun vera um 15%, og ætla má að aukningin á erlendum langtímaskuldum frá árslokum 1976 til ársloka 1977 muni nema 10.7%, þannig að hér miðar í rétta átt.

Að sjálfsögðu eru skuldir ríkisins miklar, um það þarf ekki að deila. Það má kannske deila um það í einstökum atriðum hvort eigi að auka þær vegna sérstaklega arðbærra framkvæmda eða ekki. En menn reyna stundum að gera sér grein fyrir því, hvar menn standa í sambandi við greiðslubyrði af erlendum langtímalánum, með því að reikna greiðslubyrðina í prósentum af útflutningsverðmætum, þ. e. a. s. greiðslur vaxta og afborgana af erlendum langtímalánum eru reiknaðar í prósentum af útflutningstekjum þjóðarinnar. Ef það er gert, þá kemur í ljós að árið 1975 var greiðslubyrðin 14.2%, árið 1976 er líklegt að hún verði 15% og árið 1977, ef áætlanir nokkurn veginn standast, þá verði hún svipuð prósenta eða um 15%.

Eins og ég tók fram í upphafi er hér um að ræða yfirgripsmikið mál, sem síðar verður rætt. Um það eru raunar allir sammála að rétt sé og nauðsynlegt að gera það síðar. Því sé ég ekki ástæðu til að lengja mál mitt, herra forseti, meira að þessu sinni.