21.10.1976
Sameinað þing: 7. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í B-deild Alþingistíðinda. (124)

5. mál, Vestfjarðaskip

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Það er siður að allir Vestfjþm. tali ef einn byrjar, þar sem tvo skortir, þá er ekki um annað að ræða en að bæta úr með að tala tvisvar.

Ég fagna því sérstaklega sem fram kom hjá hæstv. samgrh. hér áðan. Ræða hans lýsti fullum vilja og ríkulegum skilningi á vöruflutningavandkvæðum vestfirðinga. Og ég fagna því sérstaklega að hann skuli hafa beitt sér fyrir því að taka upp viðræður við Skipaútgerð ríkisins um úrlausnir í þessum málum, og þá ekki hvað síst að það skuli.fyrir hans tilverknað vera hafnar umr. um það að breyta ákvörðuninni um sölu Herjólfs gamla., væntanlega í því skyni að leysa til bráðabirgða það vandamál sem rætt er um í þessari þáltill. sem hér um ræðir og á sama veg eins og þar er um rætt.

Það er í sjálfu sér mikil framför ef tekst að tryggja vikulegar samgöngur á sjó við Vestfirði. En ég vil sérstaklega benda á það einnig í sambandi við það sem hv. 2. þm. Vestf. sagði hér áðan, að till. þessi lýtur ekki aðeins að því að tryggja reglulegar samgöngur á sjó við Vestfirði, heldur einnig að því að skipuleggja flutningana innan svæðisins, þannig að jafnhliða undirbúningi Vestfjarðarskips eða öflugri flutninga til Vestfjarða er nú eiga sér stað verði leitað samninga við þá aðila, sem annast flutninga innan svæðisins, ýmist á landi eða á sjó, um samstarf í þessum flutningamálum, þannig að neytendur á Vestfjörðum, almenningur og atvinnufyrirtæki, geti fengið vörur sínar fljótt, örugglega og án mikils tilkostnaðar.

Ég vil leggja sérstaka áherslu á þetta atriði, að till. er raunar tvíþætt og því nægir ekki að Alþ. samþykki einungis viljayfirlýsingu um tíðari sjóferðir til Vestfjarða, heldur þarf að mínu mati einnig að ráðast að því verki, sem rætt er um í seinni lið till., þ.e.a.s. að skipuleggja flutningana innanhéraðs í samvinnu við þá sem eiga að annast flutningana frá aðalþjónustumiðstöð landsins til Vestfjarða.

Ég vil vekja athygli á því í sambandi við t.d. þá landflutninga, sem þar um ræðir, frá uppskipunarhöfn og út til neytenda, að þá sýna kannanir að slíkir flutningar um skamman veg sýna besta rekstrarafkomu fyrir viðkomandi flutningatæki. Þau skila miklu betri rekstrarafkomu, vörubifreiðar t.d., í stuttum flutningum heldur en löngum flutningum, og segir það sig raunar sjálft hvers vegna. Ef slíkt samstarf tækist milli t.d. Skipaútgerðarinnar, sem ræki þetta Vestfjarðarskip, og þeirra aðila, sem annast flutninga innan svæðisins, þá er búið að tryggja þessum aðilum verkefni yfir vetrartímann sem þeir hafa ekki nú, — verkefni sem ástæða er til þess að ætla að mundu geta auðveldað eigendum þessara landflutningabifreiða og flóabáta að annast sín verkefni og láta fyrirtæki sín standa undir sér og renta sig.

Ég veit ekki hvort menn almennt gera sér grein fyrir því hvað það kostar aukalega fyrir fólk, sem býr utan Reykjavíkur, að fá til sín vörur. Bara sem eitt litið dæmi, að heildsölufyrirtæki í Reykjavík, sem sendir smásala sína vöru, við skulum segja sem svo að heildsölufyrirtæki þurfi að senda smásala uppi í Breiðholti einhverja vörusendingu, þá sendir heildsölufyrirtækið smásalanum þá vörusendingu honum að kostnaðarlausu. En ef þetta sama heildsölufyrirtæki þarf að senda smásala úti á landi vörusendingu og þarf að flytja vöruna t.d. á milli húsa frá sínum lager og yfir í afgreiðslu Skipaútgerðar ríkisins, þá tekur viðkomandi heildverslun sendingarkostnað af þessari vörusendingu sem neytandinn úti á landi þarf að borga. Þó að viðkomandi heildsölufyrirtæki þurfi að flytja vöruna miklu lengri leið innanbæjar, þá gerir heildsölufyrirtækið þetta neytendum og smásala að kostnaðarlausu. En jafnvel þó að fyrirtækið þurfi aðeins að flytja sömu vörusendingu á milli húsa, ef hún á að fara til einhvers neytanda eða smásala utan Reykjavíkursvæðisins, þá tekur viðkomandi heildsölufyrirtæki fulla þóknun fyrir.

Hv. 3. þm. Vestf., hv. þm. Þorv. Garðar, ræddi talsvert um það, hvers vegna væri nauðsyn á sérstöku Vestfjarðaskipi, og komu raunar fleiri að því. Því er fljótt til að svara að í þessari þáltill. er reiknað með því að flutningar a.m.k. til stærstu uppskipunarhafna þurfi, svo að vel sé, að vera helst tvisvar í viku. Það væri mikil framför ef hægt yrði að tryggja vikulega flutninga, en ég tel að það muni ekki líða langur tími áður en það kemur í ljós að það þurfi í raun og veru að annast þessa flutninga tvisvar í viku, þannig að skipið hafi viðkomu a.m.k. í stærstu útflutningshöfnum tvisvar í viku. Það gefur auga leið að svo tíðir flutningar útheimta sérstakt skip, hvort sem það heitir Vestfjarðaskip eða er notað fyrst og fremst til flutninga á Vestfjörðum.

Í annan stað vil ég minna á það, að nú um nokkuð langt skeið hefur verið talið nauðsynlegt og er talið nauðsynlegt enn að hafa sérstakt skip í flutningum á milli lands og Eyja. Engu að síður eru nú í Vestmannaeyjum búsettir um það bil helmingi færri íbúar heldur en á Vestfjarðasvæðinu öllu. Vestmannaeyjar annars vegar og Vestfirðir hins vegar eru sambærilegir landshlutar, a.m.k. hvað varðar 7–8 mánuði ársins, því að þá eru Vestfirðir nánast eins og eyja sem aðskilin er frá meginlandinu, því að um engar samgöngur á landi er að ræða milli helstu þjónustumiðstöðvarinnar hér í Reykjavík og Vestfjarðasvæðisins. Ef talið er eðlilegt, eins og hv. Alþ. hefur raunar fallist á, að þjónusta Vestmanneyinga með sérstöku skipi, þá hlýtur enn ríkari ástæða að vera til þess að vöruflutningamál vestfirðinga, sem eru helmingi fleiri, séu leyst með svipuðum hætti. Hvort skipið heitir Vestfjarðaskip eða er Vestfjarðaskip skiptir ekki máli í þessu sambandi.

Þá ræddi hv. þm. Þorvaldur Garðar einnig um það, að það væri e.t.v. ekki eðlilegt að Skipaútgerð ríkisins ætti þetta skip. Ég er sammála hv. þm. Steingrími Hermannssyni og raunar fleirum, sem hér hafa talað, að það er eðlilegast að Skipaútgerð ríkisins eigi þetta skip og reki, m.a. til þess að sú aðstaða, sem Skipaútgerðin hefur komið sér upp og mun koma sér upp í Reykjavík, verði tiltæk. Það er að vísu rétt hjá hv. þm. Þorvaldi Garðari, að í samþykkt fjórðungsþings vestfirðinga nú í haust var um það rætt, að ef sú leið bæri ekki árangur, þá væri ekki um annað að ræða fyrir vestfirðinga en athuga sjálfir útgerð á skipi. En ég lít á þá lausn sem þrautaráð sem eigi ekki að grípa til nema þessi leið, sem hér er um rætt, beri ekki árangur. Einnig vil ég sérstaklega taka fram, að í till. er rætt um útgerð sérstaks Vestfjarðaskips á vegum Skipaútgerðar ríkisins, og í tillgr. sjálfri er einnig rætt um það, að við undirbúninginn að útgerð þessa skips verði haft samráð við heimamenn, ekki aðeins þá sem flytja á landi og sjó vörur innan fjórðungsins, heldur einnig sveitarstjórnir og stærstu verslunar- og þjónustufyrirtæki. Það getur vel verið að niðurstaðan af þeirri athugun yrði sú, að mönnum þætti rétt að heimamenn ættu einhvern hlut að rekstri þessa skips eða gerðu einhverja samninga við Skipaútgerð ríkisins um hvernig þeim rekstri skyldi hagað, þannig að í þessari till. er einmitt ekki verið að loka þeirri leið sem hv. þm. Þorvaldur Garðar minntist á, og að því leyti er þessi till. ólík þeim frv. sem hv. þm. Karvel Pálmason ræddi um að flutt hefðu verið sama efnis á þingum hér áður. Þá var alveg ákveðið hvernig rekstri þessa skips ætti að vera háttað, og þar var ekkert um það fjallað að reyna að skipuleggja vöruflutningana til Vestfjarðakjördæmis og innan kjördæmisins í nokkru samhengi. Þetta er nýtt við þessa þáltill., sem ekki var áður að finna í þeim frv. sem flutt hafa verið, og ég tel að þetta nýja atriði skipti verulega miklu máli fyrir vestfirðinga, bæði atvinnufyrirtæki á Vestfjörðum og neytendur á Vestfjörðum, hvað varðar öruggan og tíðan flutning á vörum og hvað varðar verð sem neytendur og atvinnufyrirtæki þurfa að greiða fyrir þá flutninga.

Af því, sem ég hef hér sagt, ætti það að vera ljóst, að ég tel ekki nægilegt, ef Alþ. vill verða við þessum eindregnu beiðnum vestfirðinga sjálfra, sem lýsa sér í þessari þáltill., og verða við óskum okkar Vestfjarðaþm., sem við höfum allir, sem til máls höfum tekið, tekið undir, að þetta verði leyst með sem næst þessum hætti sem gerð er till. um, — ég tel því ekki nægilegt að till. yrði afgreidd á þá lund að henni yrði t.d. breytt þannig að skora á ríkisstj. að tryggja vikulegar ferðir til Vestfjarða á sjó með vörur, þar sem þá mundi missast úr till. annað mikilvægasta atriði hennar, sem er samræmingin á flutningum til Vestfjarða og vöruflutningum innan Vestfirðingafjórðungs. Ef hægt er að halda báðum þessum atriðum áfram í þáltill., þá er mér það meinalaust þó að henni sé eitthvað breytt eða orðalagi hliðrað til. Og í sjálfu sér skiptir það ekki máli að mínu viti hvort skipið, sem um er að ræða, heitir Vestfjarðaskip eða er Vestfjarðaskip. Takmarkinu er hægt að ná hvort heldur sem er.