21.12.1976
Neðri deild: 40. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1584 í B-deild Alþingistíðinda. (1268)

136. mál, almannatryggingar

Lúðvík Jósepsson:

Forseti. Ég hef sagt það áður í sambandi við þetta frv. að það hefði verið miklu betra að láta frv. bíða eða a. m. k. breyta því þannig að þarna hefði aðeins verið um gjaldtökuna að ræða til þess að halda við þeirri tekjuöflun sem ákveðin var hér fyrir ári til sjúkratrygginganna. En mér sýnist alveg augljóst að eins og þetta frv. liggur fyrir verður ekki hægt að framkvæma það til þess að ná þeim tilgangi sem er verið að lýsa yfir.

Það er alveg ljóst að afleiðingin af þessari lagasetningu verður sú, að viss sjúkrasamlög sleppa að verulegu leyti við að greiða sjúkrahúskostnað vegna meðlima sinna, þ. e. a, s. þau sjúkrasamlög sem hafa þá aðstöðu að þau senda aðallega sjúklinga sína á þau sjúkrahús þar sem ekki á að taka gjald fyrir sjúklingana samkv. frv. Það verða því nokkur sjúkrasamlög sem þurfa ekki að greiða sjúkrahúskostnað nema að litlu leyti borið saman við það sem áður var. Þetta er alveg ljóst samkv. frv. Önnur sjúkrasamlög í landinu munu hins vegar greiða mjög svipað og þau hafa gert áður af sjúkrahúskostnaði. Hins vegar er gert ráð fyrir í frv. að síðar meir verði þetta jafnað og þau verði ekki látin gjalda þess sem greiða á þennan hátt meira miðað við ákveðna viðmiðun, þá megi endurgreiða þeim. En eftir stendur hitt, að það er ekkert að finna í þessu frv. um að hægt sé að skylda þau sjúkrasamlög, sem senda sjúklinga sína á ríkisspítalana, til þess að greiða neinn kostnað af þeim sjúklingum á sjúkrahúsunum.

Það er vitanlega alveg tómt mál að tala um að það skuli sett reglugerð um þetta, þegar lagagr. sjálf segir að það sé tryggð ókeypis vist á þessum sjúkrahúsum. Það þýðir ekkert að setja reglugerð sem er í algerri andstöðu við það sem segir í sjálfum lögunum. Því er alveg sýnilegt að fara mun þannig að sjúkrasamlög í námunda við ríkisspítalana, þ. e. a. s. hér í Reykjavík, Garðabæ, Seltjarnarnesi og víðar, sem senda sjúklinga sína að mjög verulegu leyti á ríkisspítalana, þessi sjúkrasamlög þurfa ekki að greiða kostnað af sínum sjúklingum á þessum sjúkrahúsum samkv. þessu frv. eins og það liggur fyrir. Og menn reka sig á það, þegar til framkvæmdanna kemur, að ríkissjóður verður að koma til og greiða þessa jöfnun til hinna sem hafa ofgreitt, en það er hins vegar ekki ætlunin. Það er ekki hægt að fá peningana til þess frá þeim sjúkrasamlögum sem lögum samkv. þurfa ekki að greiða fyrir sjúklinga á ríkisspítölunum.

Hér er því, ef staðið verður að framkvæmd þessara laga á þann hátt sem frv. segir til um, verið að skapa misrétti. Það er verið að létta stórkostlega á sjúkrasamlögum hér á vissu svæði, og það er meira að segja verið að efna hér til hættulegs ástands í sambandi við sendingu sjúklinga á milli landshluta til þess að reyna að komast í það að þurfa ekki að borga hluta af sjúkrahúskostnaði þeirra.

Það er alveg sýnilegt að heilbr.- og trn. Ed., sem var að reyna að glíma við þennan vanda og setti saman nýtt orðalag á 4. gr., hefur alls ekki gert sér grein fyrir því í hverju þetta vandamál liggur. Hún var með till. um að það skuli gerðar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir að viss sjúkrasamlög ofgreiði, það má endurgreiða þeim. En hún sér ekki aðalvandann í málinu sem liggur í því að viss sjúkrasamlög þurfa ekki samkv. lögum að greiða sjúkrahúskostnað af meðlimum sínum.

En það er auðvitað eins og stundum áður, það þýðir lítið að vera að tala um þetta. Ég veit að margir hv. þm. vita að frv. er botnlaust og vitlaust, það fær ekki staðist. En tíminn er tapaður og menn segja: Við verðum bara að samþykkja vitleysurnar jafnt sem annað, það verður að hafa það. — Eigi þetta ekki að lenda í algeru öngþveiti, þá verður vitanlega komið hér aftur með þetta mál í febr. eða mars, því að þó að menn leyfi sér nú ýmislegt í sambandi við lagaskýringar, þá þýðir vitanlega ekkert að ætla að gefa út reglugerð sem segir að ákveðin sjúkrasamlög skuli greiða fyrir meðlimi sína á ríkisspítölunum, þegar grein í lögunum segir að þar sé víst þessara sjúklinga ókeypis.

Ég skal ekki hafa þetta lengra. Ég sem sagt vil taka það fram að afstaða mín til þessa máls er sú, að ég er á móti frv., ég greiði atkv. gegn því, bæði vegna gjaldtökunnar, þó að hún sé gerð eilítið betri í meðförum en áður var, en fyrst og fremst vegna þess að málið fær ekki staðist. Það er ekki einu sinni hægt að ná þeim tilgangi, sem er þó yfirlýstur tilgangur hæstv. ráðh., með frv. í þeim búningi sem það er.

Um gjaldið vil ég svo segja það, að menn kannast við það að á síðasta þingi var hlaupið til og lagt á þetta sjúkragjald sem hefur mælst illa fyrir, og nú er hlaupið til að breyta því á mjög furðulegan hátt, því að nú á að vísu að leggja gjaldið á, sveitarfélögin eiga í rauninni að sjá um það að leggja gjaldið á, ríkið á að innheimta gjaldið, starfsmenn ríkisins, innheimtumenn ríkisins eiga að innheimta gjaldið, en þó á gjaldið að fara í ríkissjóð. Hér er komið upp alveg nýtt skipulag, þ. e. a, s. að innheimtumenn ríkisins innheimta gjald sem Alþ. hefur ákveðið að leggja á vegna ríkisþjónustunnar, en gjaldið má ekki renna í ríkissjóð. Það er ekki gert ráð fyrir því í fjárl. Það á að halda því öllu hér utan við. Þetta er alveg ný aðferð og verður kannske notuð í framtíðinni af fleiri aðilum til þess að reyna að lækka fjárlög, að leggja á ýmis gjöld með þessum hætti, að segja að starfsmenn ríkisins innheimti þetta, en það megi bara ekki koma í ríkissjóðinn, það verði að fara einhvern hring þar í kring. Allt er þetta alveg furðulegt út af fyrir sig og væri auðvitað sæmst að láta þetta mál liggja, því að það er ekkert sem kallar á að drífa þetta í gegn.