21.12.1976
Neðri deild: 40. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1586 í B-deild Alþingistíðinda. (1269)

136. mál, almannatryggingar

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Hæstv. forseti. Það eru aðeins örfá orð út af þessari síðustu ræðu. Ég vil aðeins henda á það og vekja á því athygli, að það eru ekki sjúkrasamlögin, sem ráða inntöku á ríkisspítalana, heldur er það auðvitað undir stjórn lækna á hvern hátt fólk er tekið þar inn, og vitaskuld er lögð á það höfuðáhersla á ríkisspítölunum, sérstaklega á þeim sjúkrahúsum, að taka fyrst og fremst inn fólk sem þarf að koma til rannsóknar eða þarf aðgerða við, en ekki langlegusjúklinga. Þetta er óbreytt sú stefna sem hefur verið og mun vafalaust verða.

En varðandi skýringar hv. þm. á því, að það sé ekki hægt að færa hér á milli, þá segir greinilega í 4. gr„ eins og var gengið frá henni í Ed., að Tryggingastofnun ríkisins áætlar útgjöld sjúkrasamlaga þeirra vegna og greiðir ársfjórðungslega inn á reikning þeirra samlaga, er fyrir útgjöldum verða af völdum þessa frv., jafnháa upphæð og hinni áætluðu útgjaldaaukningu nemur. Síðan á að setja með reglugerð nánari ákvæði um tilfærslu þessara fjármuna. Ég held að með þessu móti sé ekki verið að ívilna neinum ákveðnum sjúkrasamlögum, og ég held að það sé ekki rétt að vera neitt að fullyrða um að ákveðin sjúkrasamlög njóti hér einhvers sérstaks hagnaðar, hvorki í Reykjavík né nágrannasamlög Reykjavíkur.

Framkvæmd þessara laga mun sjást. En það er eins með þessi lög og öll önnur, að ýmislegt má út á þau setja og það má líka ýmislegt spá um það, hvernig þau muni reynast. Hér er verið að fara inn á nokkuð aðrar brautir en gert hefur verið, og reynslan verður svo að skera úr um hvort hér er farið inn á nýja braut og til hins betra í þessum efnum eða ekki, og þá verður það endurskoðað að nýju.

Ég tel að það sé ekki nokkur leið að þetta frv. verði látið bíða eða daga uppi því að Alþ. er búið að afgreiða fjárlög. Með þeirri fjárlagaafgreiðslu er mörkuð sú stefna að færa ríkissjúkrahúsin í A-hluta fjárl. og því verður að gera þá breytingu, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, til samræmis við þá ákvörðun.