24.01.1977
Sameinað þing: 39. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1611 í B-deild Alþingistíðinda. (1292)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég tók eftir því áðan í ræðu hæstv. forsrh., að lengi vel framan af ræðu hans virtist mér svo sem það væri það eina, sem hugsanlega stæði í vegi fyrir því að hann notaði þingrofsvald sitt, að hann teldi sig ekki vita nægjanlega mikið um hvað Alþfl. vildi í ákveðnum málum. Þetta breyttist að vísu þegar lengra leið. Í lok ræðunnar fullyrti hæstv. ráðh. að hann mundi ekki að svo komnu máli a. m. k. nota þetta vald sitt. Hitt ætti hæstv. ráðh. ekki að þurfa að fara í grafgötur með, hvaða hugmyndir Alþfl. hefur t. d. í þeim þremur málum, sem nefnd voru hér í upphafi: dómsmálum, Kröflu og launa- og kjaramálum.

Það kom fram á Alþ. þegar í hittiðfyrra, var ítrekað aftur í fyrra og enn aftur í umr. um Kröflumálið í vetur, að Alþfl. er þeirrar skoðunar að taka eigi og taka hafi átt viðvaranir okkar fremstu jarðvísindamanna alvarlega og slá á frest frekari framkvæmdum við Kröflu þangað til séð yrði í fyrsta lagi, hvort árangur mundi nást af gufuleit þar, og í öðru lagi, hver markaðsskilyrði fyrir þessa orku væru. Í staðinn ætti að verja þeim fjármunum, sem ella færu til Kröfluvirkjunar, til þess að hraða gerð byggðalínunnar svokölluðu norður, til þess að leysa með þeim hætti úr vanda norðlendinga í raforkumálum. Þessi stefna Alþfl. hefur legið fyrir á þriðja ár. Hæstv. forsrh. ætti að þekkja hana eins vel og allir aðrir þm. a. m. k. Og manni virðist að það sé að koma í ljós, að þessi skoðun, sem við héldum á loft í Alþfl. fyrst fyrir tveimur og hálfu ári, hún sé að dæmast rétt af reynslunni.

Í öðru lagi spurði hæstv. forsrh. hver væri stefna Alþfl. í dómsmálunum. Það hefur einnig legið fyrir að við höfum stutt þau frv. sem hæstv. dómsmrh. hefur flutt og hafa verið samin af svokallaðri réttarfarsnefnd, og ekki aðeins samin að tilhlutan hennar, heldur einnig byggð á ályktunum sem t. d. félög lögmanna og héraðsdómenda hafa látið frá sér fara. Ég man t. d. ekki betur en það séu samtök héraðsdómara sjálfra sem áttu frumhugmyndina að því frv. sem nú hefur verið lagt fram um að sérstök dómnefnd verði skipuð þegar á að ráða í stöður héraðsdómara. Ég held að það sé örugglega rétt hjá mér, að það var félag héraðsdómenda sjálfra sem krafðist að þetta yrði gert. Sú krafa var framsett í valdatíð hæstv. dómsmrh., og mér er ekki kunnugt um að fyrr hafi þetta félag eða annað svipað talið sig til þess knúið að setja slíka ályktun fram. Þessu til viðbótar höfum við alþfl.- menn lagt fram hér á Alþ. — gerðum það í upphafi þings í haust — till. sem hæstv. ráðh. minntist á í ræðu sinni áðan, þess efnis, að Nd. Alþ. kjósi úr sínum hópi nefnd þm. til þess að taka dómsmálin og framkvæmd dómsmála til rannsóknar og athugunar í því skyni, að þingið sjálft gæti átt frumkvæði að úrbótum í þessum málum, og einnig í því skyni að svara margframkomnum ábendingum og áskorunum almennings í landinu um að Alþ. haldi einmitt þann veg á þessu máli. Einnig í þessum málaflokki liggur því hreinlega fyrir hvað Alþfl. vill.

Að vísu væri freistandi í tilefni af orðum hæstv. dómsmrh. áðan að ræða nokkuð ítarlegar um dómsmálin en hefur verið gert til þessa. Ég ætla samt ekki að gera það, einfaldlega vegna þess að þessi þáttur málanna er aðeins einn þátturinn af mörgum sem gera það að verkum að þingflokkur Alþfl. hefur komist að þeirri niðurstöðu, að rétt sé nú að Alþ. endurnýi umboð sitt frá kjósendum. E. t. v. gefst áður en langur tími líður tækifæri til þess að taka dómsmálin sérstaklega fyrir og mun ég sannarlega ekki skorast undan því að gera það, m. a. í ljósi þeirra upplýsinga sem komu frá hæstv. dómsmrh. og ég tel að séu að miklu leyti á mjög alvarlegum misskilningi byggðar.

Ég ætla þó ekki að láta hjá líða að nefna í þessu sambandi að það er auðvitað rétt hjá hæstv. ráðh. að þm. verða að ganga erinda sinna kjósenda. En það eru þeir sjálfir, þm., sem verða að velja og hafna í þessu sambandi. Það er engin nauðsyn sem hvetur þá til þess að taka að sér hvaða mál sem er eða ganga erinda hvers sem er. Og því miður held ég að það sé staðreynd, að þessi fyrirgreiðslupólitík, sem þannig er kölluð, — og á ég þar ekki aðeins og síður en svo eingöngu við fyrirgreiðslupólitík stjórnmálamanna eða þm., ekkert síður svokallaða fyrirgreiðslupólitík annarra valdaaðila í þjóðfélaginu, — að hún sé því miður oft undirrót þess að ýmislegt getur gerst sem ekki ætti að gerast, vegna þess að þeir aðilar t. d., sem uppvísir verða að hvers konar fjársvikum og prettum, hafa oftar en ekki getað stundað þá iðju aðeins vegna þess að þeir hafa notið fyrirgreiðslu manna í valdastöðum, og þar á ég síður en svo eingöngu við pólitíkusa. Þeir hafa notið fyrirgreiðslu slíkra manna sem hefur gert þeim fært að stunda þessa iðju.

Í kaupstað einum úti á landi var fyrir nokkrum árum þannig farið að þar voru tveir flokkar nokkurn veginn jafnsterkir sem börðust um völdin. Aðrir flokkar áttu þar ekki upp á pallborðið hjá kjósendum. Síðan gerist það, að á þennan stað kemur nýr maður sem ráðinn er sem forsvarsmaður bankaútibús. Það líður ekki á löngu áður en þessi nýi bankastjóri verður mjög umsvifamikill í pólitík á vegum annars flokksins, sem hafði ekki átt upp á pallborðið hjá kjósendum á þessum stað nokkuð lengi. Síðan var gengið til kosninga og þessi bankastjóri boðinn fram. Íflokki hans var óvenjulega heiðvirður og elskulegur maður sem tók þátt í því með öðrum að spá hver úrslitin mundu verða í þessum kosningum. Menn spáðu þessum flokki, sem bankastjórinn gekk fram fyrir skjöldu fyrir, svipuðu atkvæðamagni og hann hafði haft að undanförnu, 80–100 atkv., og trúðu því lítt þegar þessi vandaði og heiðvirði ágætismaður, sem nú er nýlega látinn, sagði: „Ja, nú fær flokkur minn a. m. k. 300 atkv.“. „Það getur ekki verið,“ sögðu menn við þennan heiðvirða, gamla og góða mann. „Jú, jú,“ svaraði hann. „Flokkurinn á þetta 70, 80, 90 atkv. og bankinn á hitt.“ Og það reyndist vera rétt. Orð þessa gamla, vísa og fróma manns gengu eftir. Þetta sýnir okkur talsvert, hvað fyrirgreiðslan og fyrirgreiðslupólitíkin á ríkan þátt ekki aðeins í stjórnmálalífi okkar íslendinga, heldur á miklu fleiri sviðum. (Gripið fram í: Er þetta ekki Gróusaga?) Þetta er engin Gróusaga, hæstv. ráðh. Þetta er saga sem sjálfsagt nokkuð margir alþm., sem hér eru staddir inni, geta staðfest að rétt er. En látum það liggja milli hluta.

Ég sagði hér áðan og skal ljúka máli mínu með því, að við þm. Alþfl. lögðum fram hér í haust till. til þál., lögðum hana fram í Nd. Alþ., þess efnis, að Alþ. kysi sérstaka n. þm. til að rannsaka gang og framkvæmd dómsmála. Þessari till. var vísað til allshn. Nd. til athugunar. Vegna þess, hve mikið allshn. Nd. hefur haft að gera við að kynna sér ýmis þau mál sem hæstv. dómsmrh. hefur lagt fram og horfa mjög til bóta og hafa nú verið afgreidd, hefur n. ekki enn komist til þess að taka þessa till. til umfjöllunar. Ég hef hins vegar haft samband við formann n. og óskað þess mjög eindregið, m. a. í ljósi síðustu viðburða, að n. hraði afgreiðslu sinni á þessari till. Formaður n. hefur tekið því vel og heitið mér því, að haldinn verði fundur í allshn. Nd. á allra næstu dögum til þess að taka þetta mál fyrir.

Ég vil ljúka þessum orðum mínum með því að minna á að hæstv. dómsmrh. komst þannig að orði í ræðu sinni áðan, að væntanlega muni þessi mál, þ. e. a. s. dómsmálin, skýrast þegar rannsóknarnefnd þessi tekur til starfa. Hæstv. ráðh. sagði: þegar, en ekki ef. Ég vil mega vænta að þessi orð hans megi skoðast þannig að a. m. k. hæstv. ráðh. sé ekki andvígur því að þessi rannsóknarnefnd verði skipuð, og ég vona að flokksbræður hans í n. verði sama sinnis.