25.01.1977
Sameinað þing: 40. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1617 í B-deild Alþingistíðinda. (1298)

92. mál, útgáfa lagasafns í lausblaðabroti

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Á þskj. 103 hef ég lagt fram fsp. til dómsmrh. um útgáfu lagasafns í lausblaðabroti. Eins og augljóst má vera er hér ekki um stórpólitískt mál að ræða. Þetta er fyrst og fremst vandamál tæknilegs eðlis, en þó vissulega vandamál sem snertir æðimarga, þá sem fást við löggjöf og lögfræði hvers konar, alþm., lögmenn. dómara og embættismenn, og auðvitað ekki síður allan almenning sem verður að eiga greiðan aðgang að upplýsingum um hvað eru lög á hverjum tíma.

Það er segin saga að lagasafn er orðið úrelt þegar það er gefið út. Þannig var það þegar lagasafnið kom út 1974, að þá voru þar lög fram á mitt ár, en vantaði alveg seinasta árið. Síðan líða venjulega mörg ár, og þeim mun lengri tími sem líður, þeim mun óljósara verður í mörgum tilvikum hvað eru lög, nema menn haldi því mjög vel til haga, sem hér er samþ., og færi það jafnóðum inn í lagasafn sitt með viðeigandi tilvitnunum. Af þessu hafa hlotist alvarleg mistök, eins og stundum hefur verið bent á, ekki síst við dómstóla landsins, og er það að sjálfsögðu algjörlega óviðunandi.

Af þessari ástæðu flutti ég á þingi 1973 till. til þál. um að ríkisstj. væri falið að láta nú þegar undirbúa útgáfu lagasafns sem yrði í lausblaðabroti og bundið með þeim hætti, að áskrifendur lagasafnsins gætu framvegis fengið ný lög og lagabreytingar, sem felldar hafa verið inn í viðkomandi lög, sérprentaðar á lausum blöðum, svo að stöðugt verði fyrir hendi fullkomið handhægt lagasafn fyrir lærða sem leika. Það er skemmst af að segja að þessi till. fékk mjög góðar undirtektir á sínum tíma og hún hlaut eindreginn stuðning bæði Dómarafélagsins og Lögfræðingafélagsins. Hún hlaut einnig einróma stuðning allshn. Sþ. og var samþ. hér í Sþ. á fundi 30. mars 1973. Síðan eru senn liðin 4 ár og er því ekki óeðlilegt að spurt sé hvað líði framkvæmd þessarar samþykktar.