25.01.1977
Sameinað þing: 40. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1618 í B-deild Alþingistíðinda. (1299)

92. mál, útgáfa lagasafns í lausblaðabroti

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Þegar þál. var samþ. 30. mars 1973 um útgáfu lagasafns í lausblaðaformi var langt komið undirbúningi að útgáfu lagasafns 1973, sem kom út snemma árs 1974 með lögum til vors 1973. Dómsmrn. gerði eftir samþykkt þál. gangskör að athugun á fyrirmyndum um lausblaðaform á lagasöfnum. Var sú athugun gerð með aðstoð utanrrn. Kom í ljós að á Norðurlöndum er þetta form á útgáfu almenns lagasafns ekki notað, og raunar fengust mjög litlar upplýsingar um þetta útgáfuform sem að gagni mættu verða, að því er talið er. Eina dæmið, sem fengist hafa upplýsingar um, er frá Vestur-Þýskalandi, en þess er að gæta að í því eru ekki birtar neinar staðbundnar réttarreglur.

Þau óþægindi, sem af því stafa, er frá útgáfu lagasafns líður, eru öllum ljós sem þurfa að nota lagasafn að staðaldri. Dómsmrn. hefur því undirbúið úrlausnarleið sem það telur vert að reyna í framkvæmd áður en frekar verður að gert.

Ég vona að nú fljótlega verði prentað endurskoðað efnisyfirlit Lagasafnsins með tilvísun í lagaefni til ársloka 1976 bæði í Lagasafninu og í Stjórnartíðindum eftir útgáfu þess. Mun þetta mjög létta notkun Stjórnartíðinda með Lagasafninu. Í framhaldi af þessu verður jafnframt kannað hvort enn frekari úrbætur séu tiltækar með sæmilega viðráðanlegum hætti kostnaðarlega þegar lengra líður frá útgáfu lagasafnsins.

Hafa verður í huga að lausblaðaform á lagasafni hefur ýmsar skuggahliðar fyrir notkun hins almenna borgara, m. a. er samfelldu blaðsíðutali kastað fyrir róða. Á hinn bóginn sýnist lítt æskilegt af kostnaðarástæðum að gefa út samhliða tvenns konar lagasöfn. Hins vegar hefur dómsmrn. fullan hug á að standa að aukinni samræmingu á prentun og útgáfu á lagaefni A-deildar Alþingistíðinda, Stjórnartíðinda og Lagasafns. Í framhaldi af því er rétt að haft verði í huga lausblaðaform, eftir því sem kostur er.

Það má segja að það skorti vissulega á um framkvæmd þeirrar þál. sem hér var gerð einróma, eins og hv. fyrrispyrjandi gerði grein fyrir. En það kemur stundum fyrir að hv. þm. samþ. þáltill. án þess að hafa e. t. v. alveg grandskoðað hvernig þeim verði komið í framkvæmd, og það hefur, eins og ég hef gert grein fyrir með þessari grg. frá dómsmrn., sýnt sig að það eru erfiðleikar og nokkur kostnaður við það að taka upp þetta form, lausblaðaform á lagasafninu, sem þekkist ekki heldur, eftir þeim upplýsingum sem aflað hefur verið af dómsmrn., nema á þeim stað sem ég drap á áðan.

Ég get nefnt í þessu sambandi að í nýlega útkomnu Tímariti lögfræðinga bendir Þór Vilhjálmsson hæstaréttardómari á ýmis atriði einmitt í sambandi við lagaútgáfu, og er sjálfsagt að taka þau atriði, sem hann bendir þar á, til skoðunar. E. t. v. gætu þau að einhverju leyti leyst þann vanda sem mönnum er nú l.jóst að er hér fyrir hendi þegar líður nokkur tími á milli útgáfu lagasafns. En eins og menn geta kynnt sér, þá er útgáfa lagasafns allkostnaðarsamt fyrirtæki.

Ég get ekki á þessu stigi gefið frekari upplýsingar um þetta, en endurtek að það verður gerð nokkur úrbót sem gæti orðið til nokkurrar úrlausnar og verður áfram hugað að því að finna leiðir í þessum efnum, en þáltill. hefur ekki reynst unnt að framkvæma eftir bókstafnum enn þá.