25.01.1977
Sameinað þing: 40. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1620 í B-deild Alþingistíðinda. (1301)

92. mál, útgáfa lagasafns í lausblaðabroti

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hafa leiðrétt misminni mitt. Það er ákaflega ánægjulegt þegar maður uppgötvar að maður hefur þó einhvern tíma áður verið skynsamari heldur en maður hélt að maður hefði verið. Ég hef trúlega séð þá ýmsa annmarka á þessari útgáfu og bent á það, þó að mér hefði nú verið horfin úr minni málsmeðferðin. En það skiptir ekki máli. Þessi till. var samþ. hér, og það hefur, eins og ég gerði grein fyrir, verið reynt að vinna að því að framkvæma hana með athugun bæði á því, hvernig þessu væri annars staðar fyrir komið og hvort það væri ekki hægt að finna leiðir sem hefðu sama tilgang, en kostuðu minna.

Ég hygg að það sé hægt að fullyrða að útgáfa slík sem þessi yrði nokkuð kostnaðarsöm og allra helst ef ætti jafnframt að gefa út lagasafnið í því formi sem það hefur verið gefið út hingað til. Ég vil benda á það, að ég álít að útgáfa svona lausblaðalagasafns leysi alls ekki til fullnustu þann vanda sem hv. fyrirspyrjandi hefur í huga, vegna þess að það er sagt í þál. að áskrifendur lagasafnsins gætu framvegis fengið ný lög og lagabreytingar, sem felldar hafa verið inn í viðkomandi lög, sérprentaðar á lausum blöðum. Ég vil minna hv. þm. á það, eins og hann veit mætavel, að það heyrir í raun og veru til algerrar undantekningar að breyt. á lögum séu felldar inn í viðkomandi lagatexta. Til þess þarf sérstaka heimild í lögunum, svo að það sé formlega gert, og þarf að athuga vel um slíka endurútgáfu og eru lögin þá endurútgefin af forseta Íslands. Eftir sem áður mundu þá með þeim lögum t. d., sem á hverju þingi er verið að gera margar lagabreytingar á, verða mörg laus blöð þar sem hver einstök lagabreyting væri á hverju blaði fyrir sig. Mér skilst af málflutningi hv. þm. — og það finnst mér skynsamlegt — að það sé ekki meiningin hjá honum, heldur að þeir, sem nota lagasafn, fái texta laganna með breytingunum felldum inn í hann. Þá fyrst verður að þessu verulegt hagræði. Og það er t. d. það atriði sem Þór Vilhjálmsson bendir á í grein sinni sem ég nefndi áðan, að það væri e. t. v. hægt að hverfa frá þessari formlegu endurútgáfu laga, en taka upp í Stjórnartíðindi aðeins hin gömlu lög með sínu gamla númeri og fella inn í þau þar þær breytingar sem á þeim hafa verið gerðar.

Ég undirstrika það aðeins, að það eru hugsanlegar fleiri leiðir þarna til úrbóta og þær verður að kanna. Það má kannske ásaka mig eða ráðuneytið fyrir að hafa ekki verið nægilega skjót til aðgerða í þessu. En ég tel það þá til afsökunar, að nýtt lagasafn kom út einmitt í ársbyrjun 1974, svo það er ekki mjög langur tími liðinn síðan. Og það er engan veginn — það get ég fullvissað hv. þm. um — meiningin að hundsa þessa þáltill., það er alveg fráleitt. Honum er auðvitað í lófa lagið að hafa samband við þá starfsmenn í ráðuneytinu, sem hafa hugað sérstaklega að þessum málum, og kynna sér nánar hvernig þessu hefur verið háttað þar.