25.01.1977
Sameinað þing: 41. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1626 í B-deild Alþingistíðinda. (1307)

9. mál, bann við að opinberir stafsmenn veiti umtalsverðum gjöfum viðtöku

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég fagna nú umr. um þetta mál og verð þó að viðurkenna að ég er ekki alveg viss um að nauðsyn sé ákaflega brýn. En hv. 1. flm. hefur mjög næma réttlætiskennd, eins og við höfum orðið varir við, og þá kann að vera að það sé einhver ástæða til þess að óttast jafnvel óeðlilega góðvildarsköpun og er sjálfsagt að stemma stigu við því.

Ég er sjaldan á sama máli og þessi hv. þm., og þess vegna var ég tilbúinn, strax þegar ég sá þetta plagg á borðinu mínu í haust, að taka rækilega undir með hv. þm. Þetta er 9. mál þingsins og ég hef þess vegna beðið lengi með öndina í hálsinum að fá tækifæri til að lýsa stuðningi mínum við málið. Milli kálfs og hilda, eins og við segjum í sveitinni, þ. e. a. s. frá því að hv. þm. lagði málið fram og þangað til það kom til umr., hefur liðið nokkur tími og m. a. þurfti hann að hverfa af þingi. Hann fór vestur um haf til Bandaríkjanna á NATO-fund.

Ég er raunar sammála ungum krötum ýmsum um fleira en þessa till. Ég er sammála þeim m. a. um að hér eigum við ekki að hafa her á friðartímum. Og ég tel alveg víst að við hv. þm. Sighvatur Björgvinsson getum átt góða samstöðu um að koma hernum burt, þrátt fyrir þetta ferðalag vestur. Vafalaust hefur þetta ekki verið nein boðsferð til þess að kaupa góðvild, eins og flm. orðaði það, því að ég dreg ekki í efa að hv. þm. hafi greitt fyrir sig sjálfur, bæði ferðir og uppihald, og honum sé kannske enn þá ljósari eftir ferðina heldur en áður nauðsyn þess að láta herinn fara.