25.01.1977
Sameinað þing: 41. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1628 í B-deild Alþingistíðinda. (1312)

9. mál, bann við að opinberir stafsmenn veiti umtalsverðum gjöfum viðtöku

Jónas Árnason:

Herra forseti. Þessi till. er þess eðlis, að ég get ekki séð að við getum verið yfirleitt á móti því að hún verði samþykkt. En án þess að ég ætli að fara að halda hér langt erindi, þá satt að segja gefur hún tilefni til hugleiðinga — viðtækra hugleiðinga um siðferðisástand þessarar þjóðar. Það, sem hér er lagt til af þm. Alþfl., sem að sjálfsögðu eru alltaf fremstir í flokki þegar þarf að passa upp á siðferðið í þessu landi, það er að sett sé í lög rétt einu sinni að menn hagi sér eins og heiðarlegir menn.

Þjóðfélagið er orðið þannig að dómi Alþfl.- þm., og ég hygg að þeir hafi að vissu leyti rétt fyrir sér í því, að það sé nauðsynlegt að setja í lög að menn gerist ekki sekir um ómerkilegasta siðleysi. Eins og ég sagði áðan, er þetta ekki að ástæðulausu fram komið, og ástæðan er þessi: Við lifum í þjóðfélagi sem er meira og minna spillt. Að undanförnu hefur það verið plagsiður þessarar þjóðar að tala um spillingu tiltekins hóps manna, 60 manna sem kosnir hafa verið til að sitja í þessu húsi. Þjóðin hefur eflaust margar réttmætar ástæður til dóma sinna um alþm., en mér hefur virst sumt af þessu — og þá tek ég tillit til þess úr hvaða áttum gagnrýnin hefur komið, — sumt af þessu hafa verið viðleitni til þess að draga athygli frá spillingu sem viðgengst í þjóðfélaginu sjálfu. Við erum sjálfsagt ekki barnanna bestir, alþm., en ég held við séum ekki barnanna verstir. Ég held satt að segja að spilling í þessu þjóðfélagi sé víða miklu, miklu meiri en í þeim hópi sem hér situr.

Kannske hefur það verið það, sem helst hefur á vantað af okkar hálfu, að við töluðum af hreinskilni við þjóðina og segðum eins og satt er, að spilling í þessu þjóðfélagi viðgengst í öllum stéttum. Ég persónulega álít og veit reyndar fyrir víst að hún er þeim mun meiri þar sem tækifærin eru meiri til að komast í spillingu, nota sér ýmiss konar aðstöðu. Hún er hlutfallslega minni, tel ég, meðal alþýðu manna. Þó að ég sé alþýðusinni og telji mig geta margt gott sagt um íslenska alþýðu, þá get ég því miður ekki sagt að hún sé óspillt. Ég tel vera miklu þýðingarmeira að gera sér grein fyrir þessu heldur en að setja í lög að menn skuli ekki vera spilltir, vegna þess að menn eru óskaplega spilltir í þessu þjóðfélagi þrátt fyrir öll lög.

Ég vil svo í leiðinni með allri vinsemd í garð vina okkar í Alþfl. benda þeim á, að það hendir suma menn að ganga svo hart fram í fordæmingu, oft á tíðum einhliða fordæmingu, að það liggur við stundum að maður kalli hana hræsni.