25.01.1977
Sameinað þing: 41. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1629 í B-deild Alþingistíðinda. (1313)

9. mál, bann við að opinberir stafsmenn veiti umtalsverðum gjöfum viðtöku

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Aðeins örfá orð um þessa till. sem hér liggur fyrir um lagasetningu eða afdráttarlausari lagaákvæði en nú gilda er banni opinberum starfsmönnum að veita viðtöku umtalsverðum gjöfum umfram það sem starfsréttindi kveða á um.

Ég get tekið undir sumt af því sem kom fram í orðum síðasta ræðumanns, hv. 5. þm. Vesturl., ég held að við náum ekki bestum árangri í almennu heilbrigðu siðgæði í landi voru með því að setja lög um það. Siðgæðisgrundvöllur okkar þjóðar hlýtur að byggjast á öðru. Það liggur í uppeldi okkar inni á heimilunum, í skólunum, í kirkjum landsins og á öðrum vettvangi en lagasetningarvettvanginum.

Hitt vil ég þó segja, að jafnvel þó að þessi þáltill. yrði nú ekki samþ., þá tel ég gott að hún kemur fram. Hún gæti ýtt við okkur í þessum málum og fengið okkur til þess að hugleiða, eins og við vitum raunar öli, að í okkar þjóðfélagi viðgengst spilling á ýmsum sviðum. Ég vil engan veginn fullyrða að þar séu embættismenn veikastir á svellinu. En það er nú einu sinni svo, að til opinberra starfsmanna og annarra manna í æðstu trúnaðarstöðum, að þm. meðtöldum, hljótum við að gera miklar kröfur, og það er alls engin sárabót að segja að við séum kannske allir breyskir og allir brotlegir, eins og kom fram í ræðu hæstv. dómsmrh. í gær. Séum við það allir að meira eða minna leyti, þá er kannske því meiri ástæða til að athuga sinn gang.

Ég get því fallist á fyrri málsgr. þáltill. sem gengur út á það að þeir aðilar, sem nú starfa að endurskoðun á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, geri sérstaklega till. um ný og afdráttarlausari fyrirmæli en nú er að finna í lögum, er banni opinberum starfsmönnum að veita viðtöku umtalsverðum gjöfum, endurgjaldslausri þjónustu, sérstökum fríðindum eða óvenjulegri fyrirgreiðslu umfram starfsréttindi, er meta má til peningaverðs, frá opinberum aðilum, einstaklingum eða fyrirtækjum. Ég held að það væri fyllilega eðlilegt að þeir menn, sem vinna að þessari endurskoðun, íhuguðu sérstaklega þessa hlið málsins.

Hins vegar felli ég mig ekki við þá hugmynd að settur yrði sérstakur lagabálkur til þess að fyrirskipa þjóðinni að haga sér eins og siðaðir menn. Þetta þurfum við að fá með öðrum hætti en þeim sem lagasetning mundi gera, og ég held að slík vinnubrögð á Alþ. og lög um þetta efni mundu engan veginn ná þeim árangri sem að er stefnt. Við þurfum að ná þessu markmiði, bættu siðgæði, eftir öðrum leiðum. Það er áreiðanlegt að þeir verðbólgutímar, sem við höfum lifað á, með braski og ábatavonum alls staðar eftir lítt eðlilegum leiðum, að ekki sé meira sagt, hafa síður en svo stuðlað að bættu siðgæði íslensku þjóðarinnar. Þvert á móti, verðbólgan hefur orðið að þjóðfélagsmeini sem við þurfum að huga að sérstaklega, en ég hef ekki trú á að lagasetning ein mundi þar bæta um.

Ég held að þessi till. sé allrar athugunar verð, þó að ég sé ekki henni samþykk að öllu leyti, en get tekið undir að það er gagnlegt að fá hana til umfjöllunar og ætti að geta orðið til bóta.