25.01.1977
Sameinað þing: 41. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1642 í B-deild Alþingistíðinda. (1320)

40. mál, lagning bundins slitlags á þjóðvegi

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég neyðist til þess að koma einu sinni enn upp í ræðustólinn og ræða um þetta mál vegna ummæla sem féllu í ræðu hv. 1. flm.

Ég ætla að byrja á því þar sem hann vitnaði til ísingarhættu á fjallvegum. Það er síður en svo að ég fordæmi bundið slitlag vegna ísingarhættu. En það, sem ég var að reyna að segja í nóv., var það, að ég lít svo á að sums staðar séu kaflar af vegakerfinu sem séu svo varasamir að það sé óskynsamlegt að leggja á þá bundið slitlag, vegna þess að þar skapast of mikil slysahætta, þannig að þó að þetta yrði greiðfærara á sumrin, þá yrði það þeim mun hættulegra að vetrinum. Bundið slitlag kostar öðruvísi og meiri snjómokstur. Þar má ekki láta snjóinn þiðna á veginum. Það verður að moka honum burt. Af þessu öllu saman skapast veruleg vandkvæði.

Hv. flm. gat þess áðan að hér vestur á fjörðum væru 3 km með bundnu slitlagi. Það er sorgleg saga að á þessum 3 km fyrir vestan hafa orðið stórslys, nú seinast milli jóla og nýárs — hörmulegt slys. Ég held að ég fari rétt með að það hafi orðið þarna 5 dauðaslys eftir að þetta bundna slitlag kom. Það hefur enginn vegarkafli á Vestfjörðum, svo að mér sé kunnugt um komist neitt í líkingu við þetta um slysatíðni, sem betur fer. Að sjálfsögðu væri mögulegt að gera þarna einhverja grjótvörn og handrið sem gerði veginn þannig að menn misstu ekki bifreiðar sínar út af honum. En þá safnaði það líka snjó og þannig eru ýmis vandkvæði á þessu. Þetta verður allt að meta í hverju tilfelli, hvar sé skynsamlegt að setja bundið slitlag á vegina og hvar það sé ekki skynsamlegt.

Bundið slitlag hefur náttúrlegg í för með sér miklu meiri ökuhraða og það skapar greiðari samgöngur. Stundum er vinningur að ökuhraða og greiðum samgöngum. En ef það verður til þess að menn verða fyrir slysum, þá er það náttúrlega tímasparnaður sem borgar sig ekki. Og það er ákaflega mikill misskilningur hjá hv. flm., að ég sé alfarið á móti bundnu slitlagi, það er síður en svo. Ég vil endilega að bundið slitlag sé lagt þar sem umferð er mjög mikil, það mikil að viðhald veganna er mjög miklum erfiðleikum bundið, þar sem t. d. ofaníburður er torfenginn og með öðrum hætti ekki hægt að halda vegunum sæmilega færum. Við leggjum bara áherslu hvor á sinn hlutinn. Hann leggur áhersluna fyrst og fremst á þetta bundna slitlag, ég legg fyrst og fremst áhersluna á að byggja vegina upp úr snjónum og aurnum, þannig að maður komist um landið, jafnvel þó að fara verði eitthvað hægar, jafnvel þó að menn verði að hristast eitthvað meira en á þessum hringvegi. Og það búa ekki allir landsmenn við hringveginn. Við notum hann allir og njótum allir nokkurs góðs af honum, en það eru fleiri vegir en hringvegurinn, og það finnst mér hv. flm. ekki hafa nógu íjóst í minni þegar hann er að tala hér í ræðustólnum. Hann er forgöngumaður í olíumalarfyrirtæki, veit sjálfsagt mest af okkur öllum um olíumöl og hún er honum helst til hugstæð, finnst mér.

Hv. þm. talar um lántökur í útlöndum. Ég vil nú biðja hann enn og aftur, vegna þess hvaða stöðu hann hefur hér í þinginu, hann er nú einn aðalfjármálaspesíalisti okkar, formaður í fjh.- og viðskn. Nd., að sýna nú aðgát og varúð. Ég er ekki að deila á hann. Ég er með bænaskrá, eins og þeir sögðu í gær, um að bann sýni nú aðgát og meiri varúð við þessa skuldasöfnun. Við megum til, held ég, að gá að okkur, að jafnvel þó að góða hluti megi gera fyrir þetta lánsfé — hluti sem kannske sé hægt að reikna út að borgi sig, þá verðum við að sýna nokkurt hóf, og það er fjárfrekt verkefni sem þessi till. leggur áherslu á — mjög fjárfrekt verkefni. Ég er ekki að telja að það geti ekki komið til greina að taka erlend lán eða innlend til nauðsynlegra verka. En það getur verið hentugra að fresta þeim um stund heldur en að hleypa sér í of miklar skuldir.

Hann fór allt í einu að tala hér um allt aðra till., síðasti ræðumaður, hv. þm. Ólafur G. Einarsson, hann fór að tala um litasjónvarp og afstöðu mína í litasjónvarpsmáli. Það má vel vera að þetta, að ég skuli ekki vera sérstakur áhugamaður um litasjónvarp, sé íhaldssemi. En það mætti eins segja að það væri vinstrimennska að ætla þegnunum sem jafnastan rétt. Ég vil minna hv. þm. á að það eru 400 sveitabæir sem eftir er að skapa skilyrði til þess að njóta útsendinga sjónvarps og þar að auki mestöll fiskimiðin í kringum landið. Og ég held a. m. k. að það sé eðlilegra verkefni og heppilegra allra hluta vegna að leggja fyrst og fremst áherslu á að koma þessum sveitabæjum í sjónvarpssamband, þeim þeirra sem er tæknilega sæmilega kleift, heldur en að leggja alla áherslu á litasjónvarp sem einkum yrði notað hjá þeim sem næga hafa peningana.

Ég er ekki sammála hv. flm., — jafnvel þó að mér þyki við báðir hér prýðilegir í ræðustól, — ég er ekki sammála honum um að þetta séu einhverjar sérstakar snilldarumr. sem hér hafa farið fram um þessa till. Þær eru gagnlegar að því leyti kannske, að hv. flm. kemst á betri skoðun, en þó er ég vondaufur um það. Ég held að við ættum að fara að hætta þessum umr. og senda till. í n. og lofa henni bara að deyja þar.