26.01.1977
Efri deild: 38. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1645 í B-deild Alþingistíðinda. (1323)

134. mál, almannatryggingar

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt til staðfestingar á brbl., sem gefin voru út 6. ágúst, um breyt. á l. nr. 95 frá 31. des. 1975, um breyt. á l. um almannatryggingar. Þau lög voru gefin út til þess að leiðrétta í framkvæmd hvernig háttað var álagningu útsvars og innheimtu 1% álags á gjaldstofn útsvara, sem sveitarfélög lögðu á samkvæmt þessum lögum á s. l. ári og sáu um innheimtu á. Þegar til kom voru þessi gjöld lögð á þá sem höfðu lágar tekjur og heitið var, þegar frv. var lagt hér fram, og kom fram í umr. um frv. að ættu að vera fríir af þessu gjaldi. Hins vegar hefur komið í ljós, að þrátt fyrir þessi brbl. hafa ekki allir þeir sloppið sem til var ætlast, svo að hér þarf að gera enn þá bragarbót á og kannske taka upp svipað orðalag og gert var í lögunum sem afgreidd voru nú fyrir jólin, á þann veg að þeir, sem greiddu ekki útsvar eða ekki var lagt á útsvar, væru undanþegnir þessu gjaldi. Það var aldrei ætlun stjórnvalda eða Alþ. að þetta gjald kæmi niður á þessum aðilum. Þó að undanskildir hafi verið sennilega um 90% af þessum aðilum með þessum brbl., þá hefur hitt komið í ljós, sem ég mun gera ráðstöfun til að ræða við n. sem fær þetta frv. til meðferðar.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til heilbr.- og trn.