26.01.1977
Neðri deild: 42. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1649 í B-deild Alþingistíðinda. (1328)

146. mál, tékkar

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. þær upplýsingar sem hann hefur veitt þingheimi um það, hvernig svonefnt tékkamál eða ávísanamál er nú statt. Það kom fram hjá hæstv. ráðh. alveg réttilega, að umboðsdómarinn í ávísanamálinu skýrði fjölmiðlum frá málaleitun sinni til ríkissaksóknara um að takmarka nokkuð verkefni sitt sem umboðsdómara. Ég held að engum hafi getað hvarflað í hug né heldur hafi hvarflað í hug að það hafi vakað fyrri hinum ágæta umboðsdómara, svo að ég noti orð hæstv. dómsmrh., að takmarka rannsóknina þannig að hætta væri á því að einhver sekur aðili slyppi. Ég er hæstv. ráðh. algjörlega sammála um að málsmeðferðin má með engu móti verða þannig, að hægt verði eftir á að segja að einhverjum aðila hafi verið hlíft eða einhver sekur aðili hafi sloppið við nauðsynlega og sjálfsagða rannsókn. Hitt tel ég vera alveg óumdeilanlegt og alveg óyggjandi, að fyrir hinum ágæta umboðsdómara, svo að ég noti enn orð hæstv. dómsmrh., hafi vakað að málið þyrfti ekki að dragast á langinn úr hófi fram og verða eitt af eilífðarmálunum fyrir íslenskum dómstólum.

Það, sem ég átti við með því að taka mér í munn orð eins og þau, að ríkissaksóknari hafi orðið sér til vanvirðu í þessu máli, er auðvitað það, að ekki þarf einu sinni löglærðan mann til þess að átta sig á því að ríkissaksóknari misskildi bréf umboðsdómarans alveg augljóslega. Ég endurtek: það þarf engan dómara, ekki einu sinni lögfræðing, það þarf ekki annað en heilbrigða skynsemi til þess að sjá að svar ríkissaksóknara við bréfi umboðsdómarans var út í hött — var hreinlega út í hött. Auðvitað er það ástæðan til þess að umboðsdómarinn svaraði aftur, og fyrri misskilningur ríkissaksóknara veldur því auðvitað hve lengi hann er nú að hugsa sig um. Það eru liðnar vikur síðan hann fékk seinna bréf umboðsdómarans, og enn hefur hann ekki svarað. Það er varla hægt að fá gleggri sönnun fyrir því, að fyrra bréfið var á misskilningi byggt, heldur en einmitt þessa staðreynd, enda endurtek ég: það þarf engan lögfróðan mann til að átta sig á því að fyrra bréfið var út í hött.

Ég tel rétt, fyrst á annað borð er farið að ræða um þetta, að víkja örfáum orðum, — það skal vera mjög stutt, hæstv. forseti, — að því sem ég tel hafa hlotið að liggja að baki beiðni umboðsdómarans um að ríkissaksóknari takmarkaði verksvið hans. Ég endurtek, að engum, sem til þekkir, mun hafa dottið í hug, — enda mundi hæstv. dómsmrh. ekki hafa nefnt umræddan umboðsdómara „ágætan umboðsdómara“ ef honum dytti sjálfum í hug að það hefði vakað fyrir honum að takmarka rannsókn málsins í því skyni að hugsanlega yrði sekum manni hlíft. Hitt hefur auðvitað vakað fyrir honum, eins og ég sagði áðan, að gera ekki þetta flókna og stóra ávísanamál eitt af eilífðarmálunum, sem ég vil kalla, í íslensku réttarfari. Það er nóg orðið af slíkum hneykslismálum. Í því sambandi vil ég aðeins nefna eitt mál, — ég gæti nefnt mörg, — og það er skattamál Sigurbjarnar Eiríkssonar.

Ég man ekki nákvæmlega hvað mörg ár eru liðin síðan dómur féll um það, að Sigurbjörn Eiríksson skuldaði ríkinu tugi millj. í ógreidda skatta, og hann hefur verið sekur fundinn um bókhaldsfals og aðra óreiðu. Mörg ár eru liðin síðan. Því var slegið föstu að Sigurbjörn Eiríksson skuldaði ríkissjóði 25–30 millj. kr., ef ég man rétt. Síðan hefur verðbólga magnast svo á Íslandi að þessar 25–30 millj. fara hvað úr hverju að verða smápeningar vegna dráttarins sem þetta mál hefur orðið fyrir í réttarkerfinu. Og enn fæst ekki botn í þetta skattamál Sigurbjarnar Eiríkssonar. Enn heldur hann á þessu ári áfram að græða á verðbólgunni. Gamla skuldin til ríkissjóðs vegna beinna lögbrota er orðin minni og minni með hverju árinu sem líður á undanförnum árum og verður nú minni og minni með hverjum mánuðinum sem líður. Það er m. ö. o. og hefur verið sérstakt hagsmunamál þessa dæmda aðila að málið dragist á langinn.

Það er auðvitað þessi reynsla, — slík dæmi getum við nefnt mörg fleiri, — sem valdið hefur því, að umboðsdómari óskar ekki að eitthvað álíka gerist í hinu stórfellda ávísanamáli. Það er slíkt sem ekki er hægt að þola, og það er slíkt sem veldur því að mjög hefur dregið úr trausti almennings í landinu á dómskerfinu, því miður, segi ég, því að fátt er nauðsynlegra réttarríki, fátt er nauðsynlegra lýðræðisríki en einmitt að hægt sé að bera fyllsta traust til dómsmála. En það traust veikist þegar slíkt gerist eins og dómurinn í skattsvikamáli Sigurbjarnar Eiríkssonar, að dómfelldur aðili græði ár frá ári á því að halda málinu gangandi fyrir dómstólum. Auðvitað gerir enginn maður ráð fyrir öðru í réttarríki eins og Íslandi en að Sigurbjörn Eiríksson verði að endingu að greiða þann skatt sem hann hefur svíkið út úr ríkinu. Auðvitað kemur einhvern tíma að því, að hann greiði hann. En þróun mála hefur verið þannig, að þegar hann loksins greiðir hann, þá greiðir hann smábrot af því sem hann tók frá ríkinu, og slíkt má ekki endurtaka sig í ávísanamálunum.