26.01.1977
Neðri deild: 42. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1657 í B-deild Alþingistíðinda. (1331)

146. mál, tékkar

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég held að það hafi gætt nokkurs misskilnings hjá hv. síðasta ræðumanni, hv. þm. Sighvati Björgvinssyni, þegar hann var að ræða um tékkamálin, misnotkun tékka. Ég held að hann hafi ekki veitt nægilega athygli þeim inngangsorðum sem ég mælti hér. Það hefur engum dottið í hug að með þessu eina litla frv. væri komið í veg fyrir misnotkun tékka, heldur tók ég skýrt fram að það væri einn þáttur í því að reyna að koma í veg fyrir þá óreiðu sem ríkt hefur í tékkamálum.

Höfuðatriðið er auðvitað nýjar efnisreglur. Þær hafa verið settar af þeirri samstarfsnefnd sem um þetta hefur fjallað, og þær reglur eru þannig, að þær eru mjög strangar að ýmsu leyti. Það er t. d. ákveðið þar, að það eigi að loka strax reikningi þess sem gefið hefur út innistæðulausan tékka á sinn reikning. Undir skuldbindingu þess eðlis hafa allir bankarnir skrifað. Það á þess vegna alls ekki að geta komið fyrir að það gerist sem hv. þm. var að segja að hefði átt sér stað að undanförnu og ég vil alls ekki leggja neinn dóm á hvort hefur átt sér stað eða ekki. Það eru hans orð sem þar um eru, að menn hafi getað gengið inn, eins og hann gerði grein fyrir, og fengið æ ofan í æ nýjar heimildir til þess að gefa út tékka. Það á sem sagt að vera komið í veg fyrir það eða a. m.k. á að stuðla að því að slíkt geti ekki átt sér stað framvegis vegna þeirra reglna sem nú hafa verið settar um þetta af þeirri n. sem fjallað hefur um þetta. Ég tel þær reglur spor í rétta átt. Ég neita því hins vegar ekki, að ég persónulega hefði viljað fara enn strangar í sakir. Ég persónulega hefði viljað leggja ríkari ábyrgð á hlutaðeigandi viðskiptabanka. Um það náðist ekki samkomulag í þessari n. og var þá sæst á þetta, af því að það var þó talið spor í rétta átt. Ég álít að það, sem hefði átt að koma til þess að loka algerlega fyrir misnotkun í þessu efni, hefði átt að vera það að leggja ábyrgð á viðskiptabanka sem hefur viðskiptamann sem misnotar tékka og gefur út innstæðulausa tékka. Þá hefðu viðskiptabankarnir fyrst farið að sýna verulega varkárni í þessum efnum.

Það er engin ástæða til þess að allir, hver og einn, séu að flagga með tékkahefti. Það er ekki nokkur vafi á því, að notkun tékka hér var komin og er komin í algert óefni. Tékkar eru nauðsynlegir í viðskiptum. En sú notkun þeirra, sem hér hefur átt sér stað að undanförnu, er alveg óviðeigandi. Því miður eru það bankarnir sjálfir sem hafa talsvert hvatt til aukinnar tékkanotkunar að undanförnu, og ríkið gefur út sína tékka, greiðir með tékkum og eins opinberar stofnanir í stað þess að greiða laun út í peningum. Þetta getur verið handhægt og þótt nauðsynlegt í viðskiptum, en það má ekki ganga of langt í þessu efni.

Ég vona að með þessu sé leiðréttur þessi misskilningur sem kom fram hjá hv. þm., að það væri ekkert nema þetta frv. sem um væri að ræða og ætti að koma tékkamálum í betri farveg en verið hefði að undanförnu. Þetta er aðeins einn þáttur. Og það er með þetta eins og refsingar alltaf, að þær koma í sjálfu sér á vissan hátt of seint vegna þess að þær koma ekki til greina fyrr en eftir að brotið hefur verið framið. En þær hafa sín almennu varnaðaráhrif, og einhver áhrif í þá átt ætti samþykkt þessa frv. að hafa.

Þetta er ekki stórt frv. og ekki stórt mál og ekki ástæða til þess að eyða mörgum orðum um það. En ég þyrfti að tala svolítið meira við hv. þm., en hann hefur vikið sér frá.

Þá ætla ég fyrst að segja það, að hann hefur farið húsavillt þegar hann var að ræða um hvernig búið væri að umboðsdómara í einu herbergi Sakadóms. Ég veit ekki betur en að umboðsdómarinn hafi haft til afnota húsnæði í Lögreglustöðinni í Reykjavík. (Gripið fram í.) Já, og ég held að það sé ekkert lítið eða eitt herbergi. Ég vona að umboðsdómarinn kvarti ekkert undan þeirri aðstöðu, sem honum hefur verið veitt, né þeirri aðstoð, sem honum hefur verið látin í té, því það eru rannsóknarlögreglumenn sem hafa unnið með honum að þessu.

Ég tel ekki ástæðu til þess í þessu sambandi að fara að ræða hér um önnur dómsmál þó að það hafi verið gert hér. Það verður þó ekki komist hjá því að leiðrétta að nokkru það sem fram kom hjá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni, sem virtist sérstaklega fróður um það mál sem hann kallar Klúbbmál, miklu fróðari en ég. Hann sagði að það hefði verið kært yfir því að áfengisflutningar hefðu átt sér stað í þetta hús að næturlagi, það hefði verið neitað að rannsaka slíkt, slíkt hefði ekki verið rannsakað. Það var rannsakað. (Gripið fram í.) Og hver varð niðurstaðan? (Gripið fram í.) Ja, hv. þm. fullyrti áðan hver niðurstaðan hefði orðið, að það hefði sem sagt sannast, að mér skildist, að það hefðu átt sér stað flutningar á áfengi í þetta bús að næturlagi. Þetta er, eftir því sem ég best veit, alrangt. Ég hygg að rannsóknin hafi sýnt að það hafi engir flutningar á áfengi átt sér stað að næturlagi. Ég hygg að það hafi komið fram við rannsóknina að það hafi ekki átt sér stað flutningar á áfengi þarna á öðrum tímum en þeim sem Áfengisverslunin afhendir vín til veitingahúsa. (Gripið fram í: Eru starfsmenn verslunarinnar að hjálpa til við þessa flutninga?) Starfsmenn Áfengisverslunarinnar? Ég veit ekki til þess að starfsmenn Áfengisverslunarinnar hafi hjálpað til við þessa flutninga. (Gripið fram í: Það var upplýst.) Það var upplýst, já. Ég held nú að það væri miklu viðkunnanlegra fyrir þessa hv. þm. að setja þessi ummæli sín fram utan Alþ., þannig að hlutaðeigandi starfsmönnum gæfist kostur á því að láta þá reyna á það hvort þeir fari þar með rétt mál. En það er nú svo, að ég hef þá trú á bæði ríkissaksóknara og eins vararíkissaksóknara og öðrum sem þar starfa, að þeir gangi vandlega frá því, áður en ákæra er samin, hvað sannað er og sannað ekki. Og sannleikurinn er sá, að í þessu máli var ekki ákært nema vegna bókhaldsóreiðu og vangreidds söluskatts. Og af hverju? Af því að hitt, ef við viljum kalla það sakargiftir, sem tilteknir menn stóðu að — (Gripið fram í.) Var sagt upp starfsmönnum? (Gripið fram í.) Það er ekkert óeðlilegt við það, þegar sakargiftir eru settar fram, að starfsmönnum sé víkið frá meðan þær eru rannsakaðar. En starfsmennirnir voru teknir aftur, — ekki af mér, það er fjmrn. sem fer með þau mál, — af því væntanlega að þær sakargiftir hafa ekki verið taldar á rökum reistar.

Ég held að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson ætti að kynna sér betur og lesa aftur og kannske í þriðja skipti minnisgrein vararíkissaksóknara, áður en hann fer að vitna í hana með þeim hætti sem hann gerði hér áðan. Ég verð að segja að það er vægast sagt óviðeigandi þar sem hann vildi halda fram að vararíkissaksóknari hefði talið tiltekin atriði sem ekki hefðu verið rannsökuð. (SighB: Hann taldi upp ákveðnar óskir sem mér er ekki kunnugt um að hafi verið farið eftir við rannsókn málsins.) Já, það er áreiðanlegt að þessi hv. þm. þarf að kynna sér þetta mál betur, þó að hann sé orðinn talsverður sérfræðingur í því, þá þarf hann að kynna sér það betur. Og ég hygg að hann hefði gott af því. Það er ákaflega vafasamt að vera hér í sölum Alþ. með órökstudda sleggjudóma eins og hann var með um þetta atriði.

Það var ekki ákært nema út af þessum atriðum. Málið var þó rannsakað mjög ítarlega og gaumgæfilega og frá öllum hliðum, þannig að ég hygg að það þurfi ekki að vera með neinar getsakir í því efni, að þetta mál hafi verið tekið einhverjum öðrum tökum en önnur hliðstæð mál. Niðurstaðan var líka sú, að það var ekki dæmt nema fyrir þetta, bókhaldsóreiðu og vanskil eða vantalinn söluskatt. Ef dómur hefði talið að einhver önnur atriði hefðu átt að koma þarna til greina, þá geri ég ráð fyrir því að sakadómur hefði bent á það.

Að öðru leyti ætla ég ekki að fara að ræða þetta einstaka mál hér, því að mér finnst það ekki eiga við og alls ekki með þeim hætti sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson gerði áðan. Ég held að það væri ákaflega æskilegt að hv. þm. færu varlega í að nafngreina menn og bera þá sökum á Alþ. Það er annað hvað menn geta leyft sér í blöðum. En það er nú einu sinni svo, að hér á að vera mikið málfrelsi, og það er ekki hægt að sækja menn til sákar fyrir það sem þeir ræða hér á þingi, nema tiltekin skilyrði séu fyrir hendi. Og það mikla málfrelsi, sem þm. er veitt, er auðvitað veitt í því trausti að þeir misnoti það ekki til árása á einstaka menn utan þings.

Ég held að þau mál, sem ég taldi upp hér á dögunum, verði ekki kölluð nein eilífðarmál. Ég held að það verði ekki talið að rannsókn eða dómur í neinu þeirra hafi hingað til tekið óeðlilega langan tíma, nema þá í tveimur: hinu svokallaða Jörgensensmáli og Vátryggingafélagsmáli. Ég held að megi segja um hin, að þau hafi verið unnin með alveg eðlilegum hætti.

Hitt er aftur á móti athyglisvert atriði, sem hv. 9. þm. Reykv. vék að, og það er að menn kæmust upp með að draga greiðslur meira en góðu hófi gegndi með því að mál fyrir dómstólum tækju óeðlilega langan tíma. Þetta er gagnrýni sem ég vil heyra og gæti tekið undir. En þetta er gagnrýni sem á frekar við um önnur mái en sakamál. Það er alveg áreiðanlegt. Þess vegna hef ég alltaf lítið svo á, að ef menn vildu í alvöru gagnrýna meðferð dómsmála hér á landi, þá væru það nú e. t. v. önnur svið dómsýslunnar, sem væri meiri ástæða til að gefa gaum að, heldur en meðferð sakamála. Án þess að ég ætli að fara að ræða það hér, þá er það bæði í almennum einkamálum og eins í skiptaréttarmálum, að þar á sér stað meiri dráttur en æskilegt væri. Því valda ýmsar ástæður sjálfsagt. En það er vissulega ástæða til þess að reyna að breyta til í þeim efnum og bæta réttarfarið að því leyti til.

En ég skal nú ekki ræða frekar um dómsmálin almennt eða um þessi sérstöku mál sem hér voru, að ég tel alveg að nauðsynjalausu, dregin inn í umr. um þetta litla frv. sem hér liggur fyrir. Ég held að það sé eðlilegra, ef menn vilja, og til þess er ég tilbúinn hvenær sem er, að taka hér almennt upp umr. um meðferð dómsmála, bæði fyrr og síðar. Ég er dálítið kunnugur t. d. hæstaréttardómum sem hafa verið dæmdir hér á síðustu 30–40 árum. Það mætti fara yfir þá og athuga ýmislegt í því sambandi, hvort það hefur orðið meiri eða minni dráttur nú en áður á málum, hvort það hafi ekki átt sér stað einhver fjársvikamál á þeim tíma o. s. frv., o. s. frv. Ég ætla ekki að fara að leggja mig niður við að rekja það, hverjir hafa verið riðnir við þau á fyrri tímum, það læt ég öðrum eftir. En það er vissulega svo, að ég skal ekki skorast undan því að taka upp almennar umr. um dómsmál, og það er sjálfsagt ágætt að hreinsa til í því efni. En þær umr. eiga ekki heima í sambandi við þetta litla mál. Ég vil svo segja það, að það er ekki á mig að deila fyrir það að söluskattur er ekki innheimtur. Ég hef ekki með innheimtu á honum að gera. Það eru aðrir, eins og ég veit að hv. 9. þm. Reykv. er ljóst.