26.01.1977
Neðri deild: 42. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1670 í B-deild Alþingistíðinda. (1335)

146. mál, tékkar

Gylfi Þ. Gíslason:

Hæstv. forseti. Ég er öldungis sammála hæstv. dómsmrh. um að alveg sé ástæðulaust að láta umr. um þetta litla frv., sem allir, sem tekið hafa til máls, eru fyllilega sammála um, verða til þess að hér fari fram allsherjarumr. um dómsmálin í heild. Mér til mikillar ánægju sagði hæstv. ráðh. að hann væri fús að efna til slíkra umr. hér á hinu háa Alþ. Við þm. Alþfl. fögnum því mjög, að hann skuli hafa látið sér þessi orð um munn fara, og tökum með mikilli ánægju þátt í þeirri umr.

En ég get ekki stillt mig um í örfáum orðum að benda á útúrsnúning í síðustu ræðu hæstv. ráðh. sem mér finnst honum satt að segja, manni í hans stöðu og honum sem slíkum, engan veginn vera samboðinn. Hann talaði um að margoft hafi verið rætt um að Klúbbnum hafi verið lokað, og hann segir: Klúbbnum var aldrei lokað. Það sem gerðist, var að tekið var fyrir vínveitingaleyfi í Klúbbnum. — Auðvitað hefur engum manni dottið í hug, þegar talað hefur verið um lokun Klúbbsins, að útidyrahurðunum þar hafi verið læst af lögreglunni eða einhverjum öðrum aðila. Það hefur engum dottið í hug. Það sem menn hafa átt við með lokun Klúbbsins, það sem þeir eiga við með lokun vínveitingahúss, er að tekið sé fyrir vínveitingar í húsinu. Þetta hlýtur hæstv. ráðh. að skilja ef hann skilur mælt mál, sem ég veit hann gerir. Þess vegna kalla ég þetta útúrsnúning sem honum er alls ekki sæmandi. (Dómsmrh.: Ég tel nú aðrar veitingar í húsunum meira virði en vínveitingar.) Já, það geri ég líka. En hitt er annað mál, að það eru ekki allir eins og við hæstv. dómsmrh. í þeim efnum. Það eru sumir sem eru meira hneigðir fyrir vínveitingar heldur en við tveir. Engu að síður er þetta staðreynd, að lokun vínveitingahúss þýðir afnám vínveitinga í húsinu í munni almennings, í mæltu máli. Lögreglustjóri hafði látið loka húsinu í þessum skilningi, hann hafði látið taka fyrir vínveitingar í húsinu.

En hæstv. ráðh. leyfði þar aftur vínveitingar, þ. e. a. s. í mæltu máli opnaði húsið aftur. Þetta eru ómótmælanlegar staðreyndir og ekki meira um þetta mál.

Hv. þm. Þórarinn Þórarinsson, 4. þm. Reykv., ræddi nokkuð um afskipti Alþfl. af dómsmálum á liðnum árum. Ég skal ekki svara því rækilega. Það var alveg rétt sem hann sagði, jafnsögufróður maður og hann er, að Alþfl. var fyrstur flokka hér á landi til þess að benda á nauðsyn þess að vernda rétt lítilmagnans með dómskerfinu. Þann áhuga hafði Alþfl. fyrstur flokka hér á landi, og þann áhuga hefur Alþfl. enn

En þjóðfélagið í dag er öðruvísi en það var þegar Alþfl. hóf störf sín. Það, sem nú er mergur málsins varðandi dómskerfið, er að vernda almenning gegn svikahröppum og misindismönnum, og það hefur ríkisvaldinu því miður ekki tekist. Það er það sem Alþfl. er núna að benda á. Hann er að benda á nauðsyn þess að vernda almenning á Íslandi gegn svikahröppum og misindismönnum því að þar hefur ríkisvaldið brugðist.

Að því er þau ummæli hv. þm. Þórarins Þórarinssonar snertir, að við í viðreisnarstjórninni, Alþfl.-ráðh., höfum beitt okkur gegn einhverjum till. Bjarna Benediktssonar og Jóhanns Hafsteins um bætur í dómsmálunum, vil ég taka fram að þetta eru einhverjar Gróusögur, þarna hefur hún Gróa á Leiti komist að Þórarni Þórarinssyni. (Gripið fram í: Alls staðar er hún.) Já, alls staðar er hún, blessuð. Mér er óhætt að segja það að hafi einhver sagt þetta við Þórarin Þórarinsson, hv. þm., þá getur það ekki verið önnur en Gróa á Leiti, því að þetta á ekki við hin minnstu rök að styðjast. Hitt er rétt, að Bjarni Benediktsson og Jóhann Hafstein höfðu í sinni dómsmálaráðherratíð uppi ýmsar hugmyndir sem kostuðu fé, og þá var það fjárlagaafgreiðslan sem gerði það að verkum, almenn meðferð fjárlaga, í ríkisstj., í fjmrn. og á Alþ., sem gerði það að verkum að þær hugmyndir náðu ekki fram að ganga. Þær höfðu alltaf stuðning okkar samráðh. Bjarna Benediktssonar og Jóhanns Hafsteins í Alþfl.

Að síðustu svo örfá orð varðandi pyttinn sem hv. þm. Þórarinn Þórarinsson sagði sjálfan sig hafa dottið í, en ég hef aldrei dottið i, þ. e. a. s. að fullyrða að það hafi átt sér stað að næturlagi flutningar úr Áfengisversluninni í veitingahúsið Klúbbinn. Ég hef aldrei sagt þetta, hvorki sagt þetta né skrifað. Það hafa aðrir gert, m. a. hv. þm. Þórarinn Þórarinsson, og það er gott að hann játar að það geta líka hent hann ýmis mistök, hvort sem það er Gróu á Leiti að kenna eða einhverri annarri manneskju, karlkyns eða kvenkyns.

Engu að síður er það staðreynd, eins og hv. dómsmrh. játaði að sjálfsögðu í ræðu sinni, sannleikselskandi maður eins og hann er, að það áttu sér stað flutningar úr Áfengisversluninni í veitingahúsið Klúbbinn að degi til með aðstoð tveggja starfsmanna Áfengisverslunar ríkisins. Það var þess vegna sem ég greip fram í fyrir hæstv. dómsmrh. og spurði: Er það í verkahring starfsmanna Áfengisverslunar ríkisins að aðstoða innkaupastjóra vínveitingahúsa við flutning á áfengi — ómerktu áfengi — úr Áfengisversluninni í veitingahús? Ég spyr aftur, ég ætlast ekki til svars núna, sbr. niðurlagsorð mín hér á eftir, en ég vek athygli á því, að menn hugleiði hvort það geti talist í verkahring starfsmanna opinberra stofnana eins og Áfengisverslunarinnar að aðstoða innkaupamenn vínveitingahúsa við flutning á áfengi með þeim hætti sem þarna átti sér stað úr ríkisversluninni í veitingahúsið.

Vegna þess að þetta mál hefur borið hér á góma og hæstv. ráðh. sagði að það hefði verið sett í rannsókn tveggja valinkunnra manna, þá vil ég leyfa mér að ljúka máli mínu með því að beina þeirri ósk til hæstv. fjmrh., — ég sé að hann er ekki í sæti sínu, en hann er í húsinu, ég sá honum bregða fyrir hér áðan, og það eru hátalarar um allt húsið svo ég vona að hann heyri það sem ég hef að segja, — ég ber hér með fram þá ósk til hæstv. fjmrh. að hann birti opinberlega skýrslu þessara tveggja valinkunnu manna um þetta mál, rannsókn þeirra á málinu og niðurstöður hennar. Sú skýrsla hefur ekki til þessa verið opinbert plagg. En þessar umr. og aðrar, sem fram hafa farið, gefa tilefni til að hún verði opinbert plagg. Ég endurtek það og lýk þar með máli mínu: Ég óska þess að hæstv. fjmrh. birti opinberlega skýrslu þessara tveggja manna um rannsókn þeirra á þessu máli.