27.01.1977
Sameinað þing: 42. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1695 í B-deild Alþingistíðinda. (1350)

60. mál, uppbygging þjóðvega í snjóahéruðum

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Það kom fram í máli hv. þm. Tómasar Árnasonar hér áðan, sem rétt er, að á undanförnum árum hefur e. t. v. verið minna svigrúm en áður til að bæta ofan á þann tekjustofn sem hefur aðallega staðið undir vegaframkvæmdum hér á landi. Það er ekki það sem ég átti við áðan þegar ég talaði um hina auknu áherslu sem lögð hefði verið á hraðbrautirnar, heldur hlutföllin sem hafa verið að breytast ískyggilega mikið núna á allra síðustu árum. Við þetta minnkandi svigrúm, sem hv. þm. gat réttilega um, hefur einmitt stefnan verið tekin í æ ríkari mæli á hraðbrautirnar. Á tveimur árum ríflega hefur verið varið til þeirra stórhækkaðri prósentu, 30% mun það hafa verið eða eitthvað í nánd við það á árinu 1974, miðað við aftur yfir 50% af öllu vegafénu 1976, nýbyggingarfé, sem fór í þessar framkvæmdir. Það voru þessi hlutföll einmitt, miðað við þetta litla svigrúm, sem hafa verið ógnvekjandi fyrir okkur úti á landsbyggðinni, og þau hlutföll hafa raskað þessari mynd enn þá meira auðvitað vegna þess að til vegaframkvæmda hefur verið í rauninni skammtað fé.

Aðeins út af því sem hefur komið hér fram hjá tveimur hv. þm. varðandi lagagreinina sem kom inn í vegalögin núna um að stefnt skuli að því að leggja bundið slitlag o. s. frv., þá er rétt að taka það fram, að þetta er í raun og veru gamla hraðbrautaskilgreiningin sem er komin þarna inn i. Þegar hraðbrautirnar falla brott sem slíkar úr vegaflokkunum, þá var lögð á það mikil áhersla af hálfu samgrh. að þessari skilgreiningu yrði haldið áfram með þessum óbeina hætti. Því var hins vegar margyfirlýst við okkur í vegalaganefnd af trúnaðarmönnum hæstv. ráðh. í þeirri n., að það væri síður en svo að hraðbrautirnar innan stofnveganna ættu nokkurn sérstakan forgang að hafa þrátt fyrir þetta ákvæði, þetta væri í raun og veru bara framhald af því ákvæði sem áður hafði verið í vegalögunum, hraðbrautaskilgreiningin væri þarna bara útfærð á svolítið annan hátt. Við þetta var ég vitanlega ekki sáttur, þó að ég féllist á þetta til samkomulags og einmitt til samkomulags um þá niðurstöðu sem þarna fékkst og ég fullyrði að hafi verið býsna góð fyrir okkur á landbyggðinni, miðað við það sem áform voru uppi um á tímabili. Ég veit að þeim hv. þm., sem hafa vikið að þessu máli hér sérstaklega, er mætavel kunnugt um að áform voru uppi einmitt um að setja hreinlega í vegalögin bein ákvæði um forgang þessara brauta umfram það sem var áður. Ég tel að sá forgangur hafi ekki verið settur inn í vegalögin nú og hér sé aðeins um þá gömlu skilgreiningu að ræða sem er haldið þarna áfram og auðvitað er miður að skuli vera þarna. En á því var enginn möguleiki að fá því breytt í þessari nefnd, en margyfirlýst af trúnaðarmönnum hæstv. ráðh. Það er óhætt að flytja það hér, — þó að hann hafi gleymt því — viljandi eða óviljandi — í sinni framsöguræðu fyrir jólin, þá er óhætt að fylgja því eftir hér inn í þingsalina, að þetta var hans stefna, margyfirlýst við vegalaganefnd, að í þessu fælist ekkert um það að stofnvegirnir, þar með taldar hraðbrautirnar, ættu að hafa hinn minnsta forgang, það væri síður en svo að nýi þjóðbrautaflokkurinn ætti að vera nokkuð sem félli undir annars flokks vegi.