27.01.1977
Sameinað þing: 42. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1698 í B-deild Alþingistíðinda. (1353)

48. mál, litasjónvarp

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er nú nokkuð langt umliðið síðan þetta mál var hér á dagskrá síðast, svo að líklega er ég búinn að gleyma megninu af því sem ég vildi þá sagt hafa. En ég vil þó aðeins víkja hér að örfáum atriðum.

Sjónvarpsmálin hafa verið mjög til umræðu að undanförnu m. a. sú þáltill., sem hér er nú til umr., hefur orðið tilefni til mikilla umr. Út af fyrir sig er gott að efna til umr. um mál af þessu tagi sem öðrum. En ástæðan fyrir því, að ég vildi segja hér örfá orð, er kannske fyrst og fremst skýrsla sem dreift var hér til hv. þm. í desembermánuði og gerir nokkra grein fyrir þessum málum.

Það hefur komið fram í þessum umr. að mjög er misjafnt mat manna á því hvort hefði átt að leyfa innflutning á litasjónvarpstækjum og hvort ætti að stefna að því ákveðið nú og taka þá ákvörðun að setja í það fjármuni að búa svo að sjónvarpinu að það geti farið að senda út í litum. Ég skal ekki sérstaklega ræða þetta hér. Ég vil þó aðeins benda á að ég hef verið og er þeirrar skoðunar og hef gert grein fyrir því hér, að það hefði fremur átt að stefna að því að koma sjónvarpssendingum til allra landsmanna sem hægt er að koma sjónvarpi til. Þegar ég tala um landsmenn, þá á ég að sjálfsögðu einnig við sjómenn því að ég flokka þá til landsmanna. Ég er þeirrar skoðunar að það hefði fyrst og fremst átt að stefna að því að koma sjónvarpssendingum til allra landsmanna, áður en tekin er ákvörðun um að setja svo mikið af fjármagni í að koma litsjónvarpsútsendingum á tiltölulega afmarkað svæði, þá fyrst og fremst auðvitað hér í Reykjavíkurhringnum eins og alltaf er.

Ég flutti hér fyrir nokkuð löngu frv. um að hefja nú þegar framkvæmdir við uppsetningu á endurvarpsstöð fyrir sjónvarp út á miðin. Þarna er um tiltölulega litla framkvæmd að ræða, líka peningalega séð. Það mundi kosta rúmar 20 millj. eða svo að koma því upp þannig að hægt væri að senda sjónvarpsmynd út á miðin fyrir milli 400 og 500 skipshafnir sem mjög oft eru að staðaldri á því svæði sem þetta hefði náð til. Þetta frv. hefur nú legið í n., og mér virðist að það séu engar líkur á því að nein afgreiðsla eigi að fást á því. Ég tel a. m. k. að þetta frv. hafi ekki verið það stórt í sniðum eða það margslungið að viðkomandi n. hefði ekki getað komið því frá sér á styttri tíma en liðinn er síðan það fór til hennar. En nóg um það.

Í þeirri skýrslu, sem hér hefur verið dreift meðal þm., er gert ráð fyrir því að sjónvarpssendingar á fiskimiðin skuli mæta algerum afgangi, þær skuli koma síðast til. Þar með er verið að setja íslenska sjómenn aftast í keðju manna sem eiga fá notið sjónvarps. Því er hér slegið föstu að það skuli síðast ráðist í það, það skuli byrjað með 50 millj. kr. á árinu 1979. Menn sjá að sjálfsögðu í hendi sér hvað verður gert fyrir 50 millj. kr. árið 1979 af ástandið heldur áfram að vera það sem það hefur verið hér í sambandi víð verðlagsmálin og verðbólguna.

Ég vil lýsa mjög mikilli andúð minni á því að menn skuli setja upp þessa röðun á framkvæmdum að því er varðar sjónvarpssendingar á fiskimiðin. Ég er hræddur um að það mundi heyrast hljóð úr horni ef 500–600 manna byggð ætti að vera fráskrifuð því að geta tekið við sjónvarpssendingum allt til 1982–1983 líklega, ef horft er á þetta með bjartsýni, miðað við þessar till. hér. Þá er ég hræddur um að það mundi heyrast hljóð úr horni úr þeirri byggð. En hér er um að ræða að afskrifa mörg hundruð sjómanna á þessu hafsvæði, þessum fiskimiðum, sem væri hægt að koma sjónvarpssendingum til fyrir tiltölulega lítið fjármagn á nútímamælikvarði. Ég hefði því talið að það væri meiri ástæða til þess að snúa sér að þessu verkefni m. a., að hrinda í framkvæmd svo augljósu réttlætismáli sem hér er um að ræða að því er varðar sjómennina. Ég hefði því gjarnan viljað spyrja þá ágætu hv. þm., sem standa að þessum till., hver sé í raun og veru ástæðan fyrir því að þeir með sínum till. setja sjónvarpssendingar út á fiskimiðin langsíðast í framkvæmdaröð af því sem þarf að gera. Ég sé að einn þeirra þremenninga, hv. þm. Steingrímur Hermannsson, er hér í salnum, og ég vil mjög gjarna óska eftir því að fá fram hver rök þeirra nm. eru fyrir því að setja þessar framkvæmdir, sjónvarpssendingar út á fiskimiðin, aftast í röðina. Það má vel vera að það séu einhver rök sem þeir hafa metið gild í þeim efnum. Fyrir mitt leyti vil ég mjög draga í efa að nokkur finnanleg rök séu fyrir því, að ekki hafi verið hægt að fara í þá framkvæmd sem farið er fram á í frv. mínu um sjónvarpsendurvarpsstöð á Barða, — að nokkur rök séu til fyrir því, tæknileg né annars eðlis. að ekki sé hægt nú þegar að fara í þá framkvæmd, því að það er einmitt byggt á upplýsingum frá Landssímanum sem kannaði þessi mál á sínum tíma fyrir Ríkisútvarpið. Það frv. er byggt á upplýsingum frá þeim aðila sem kannaði málið og hafði með það að gera. Kannske eru rök þessara hv. þm. þau hin sömu og komu fram í að mér finnst nokkuð frægu sjónvarpsviðtali við hæstv. menntmrh. ekki alls fyrir löngu, þar sem hann sagði eitthvað á þá leið, að hann ætti bágt með að hugsa sér sjómenn sitjandi um borð í skipi horfandi á sjónvarp, hann ætti bágt með að hugsa sér slíkt fyrirbrigði. Kannske eru það rökin fyrir því að síðastir skuli sjómenn á Íslandi fá notið þessa nýtískulega og nútímaþjóðfélagslega tækis sem sjónvarpið vissulega er.

Ég skal ekki, herra forseti, ræða þetta frekar hér. En ég vil ítrekað biðja um rökin af hálfu hv. þm., sem voru í þessari n., fyrir þessari röðun framkvæmda. Ég vil einnig koma því hér á framfæri, að mér er farið að leiðast eftir því að hv. fjh.- og viðskn. skili frá sér áliti um það frv. sem ég flutti um hluta af þessu máli hér á þingi á s. l. hausti.