27.01.1977
Sameinað þing: 42. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1700 í B-deild Alþingistíðinda. (1354)

48. mál, litasjónvarp

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst tjá mig sammála því, sem kom fram hjá hv. 3. þm. Suðurl., þegar hann sagði að ekki yrði staðið gegn þróun litasjónvarps. Þetta er rétt. Ég held að það hafi hvergi nokkurs staðar tekist í heiminum að standa gegn slíkri tækniþróun. Það hefði kannske verið hægt í 2–3–4 ár. En við ráðum ekki þessari tækniþróun, og það kemur óðum að því að við fáum ekki svarthvít tæki, þótt við setjum okkur að hafa þau hér til frambúðar, og ekki heldur þau tæki sem þarf til útsendingar, enda hefur reynslan þegar sýnt að þetta leiðir til spillingar, þetta leiðir til smygls. Er ekki gámasmyglið á litasjónvarpstækjunum gott dæmi um það? Ég vil því segja það strax í upphafi, að ég er algerlega andsnúinn slíkum takmörkunum á innflutningi þó að ég geti fallist á að slíkt bann getur verið nauðsynlegt um mjög skamman tíma af einhverjum sérstökum ástæðum. En að mínu mati var sannarlega kominn tími til að létta því banni sem var, og ég fagna því að svo hafi verið gert.

Hins vegar verð ég að segja það um till. til þál., að ég get ekki fylgt henni alveg eins og hún er, því að þar er dreginn út einn þáttur í mikilli framkvæmdaþörf sjónvarpsins sem ég held að þurfi að skoða alla í einu. Þetta er einn þátturinn, en þeir eru fjölmargir aðrir. Ég tel mig tala af nokkurri þekkingu um þessi mál, því að eins og kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni sat ég í n. sem falið var það verkefni að athuga framkvæmdaáætlun sjónvarps og skýrslu þeirrar n. var dreift meðal hv. þm. í byrjun des. s. l. Við nefndum hana: Sjónvarp til allra landsmanna. Við tókum okkur þar fyrir hendur í mjög góðu samstarfi við tæknimenn, sem að þessum málum vinna, að skoða þessi mál í heild sinni og tókum þar m. a. inn þá áætlun sem hér er rætt um á sviði sjónvarps. Við kerum ráð fyrir í þessari skýrslu að taka þegar á fyrsta ári inn það sem ég vil raunar kalla mikilvægustu þættina sem mundu auka útsendingarmöguleika í lit mjög mikið, — ég man nú ekki alveg töluna, ég held að það sé eitthvað meira en helmingur sem senda mætti út með þeim fyrstu tveimur áföngum sem gert er ráð fyrir. Hins vegar er það rétt, að við lögðum til að frestað yrði mjög kostnaðarsömum framkvæmdum, eins og t. d. að byggja nýjan sjónvarpssal vegna litaútsendingar, sem var áætlað að kostaði ef ég man rétt, eitthvað í kringum 200 millj. kr. Við nánari umr. kom í ljós að það mætti kalla það nokkurn „lúxus“ að gera það, ef ég má nota það orð, en mætti notast við töluvert minna og væri hægt að ná litaútsendingu á innlendu efni á miklu kostnaðarminni máta. Annars ætla ég ekki að fara út í það í smáatriðum, en vildi hafa þennan inngang áður en ég svara nokkrum atriðum sem komu fram hjá hv. 5. þm. Vestf.

Hv. 5. þm. Vestf. gæti raunar lesið skýringarnar á bls. 8 og 9 í þessari skýrslu sem við sendum frá okkur. En hins vegar get ég einnig lesið það fyrir hv. þm. ef hann má vera að því að hlusta. Ég sé að hann er dálítið upptekinn eins og stendur. — Ég var að segja að hv. þm. hefði getað lesið skýringar okkar á bls. 8 og 9, en með leyfi forseta skal ég lesa það sem þar stendur:

„Mikið hefur verið rætt um sjónvarp fyrir fiskimiðin. Það eru mjög kostnaðarsamar framkvæmdir. N. hafði í huga að byrjað yrði á slíkum verkefnum strax í upphafi framkvæmdaáætlunar.“ — Ég skýt því hér inn að við gerðum eftir okkar fyrstu fundi framkvæmdaáætlun og þar voru þessar framkvæmdir settar í upphafi, byrjað á þeim. — „En við nánari athugun sá hún sér ekki fært að gera ráð fyrir fyrstu stöðvum fyrr en árið 1979. Því veldur fyrst og fremst tvennt: Samkv. áætluninni er gert ráð fyrir því, að á árinu 1977 verði settar upp 8–9 stöðvar fyrir fleiri en 8 notendur og líklega 10–12 stöðvar fyrir færri en 8 notendur, auk þess sem ný stöð yrði reist á Blönduósi og önnur mikil vinna framkvæmd við endurnýjun bráðabirgðastöðva. Með þessu má gera ráð fyrir því, að þegar sé of mikið álag orðið á tæknimenn Pósts og síma sem sjá um undirbúning og framkvæmd slíkra verkefna. Álagið yrði svipað árið 1978, nokkru færri stærri stöðvar, en stórum fleiri minni.“

Af þessari ástæðu einni var talið útilokað að framkvæma meira í uppsetningu stöðva en gert er ráð fyrir í áætluninni. Við stóðum þess vegna frammi fyrir því samkv. mjög ákveðnum bréflegum tilmælum Pósts og síma, sem við höfum í okkar fórum, að það yrði að draga verulega úr öðrum framkvæmdum en þessum ef taka ætti fiskimiðin þarna inn fyrr. Við stóðum þess vegna frammi fyrir því að fresta enn um sinn að koma sjónvarpi til allra á landi ef byrja ætti á hinu. Og ég vil gjarnan heyra það frá hv. þm., hvort hann hefði talið það rétt. Þetta er náttúrlega matsatriði. En auk þess kom svo til viðbótar það sem segir hér á eftir:

„Auk þess telja tæknimenn Pósts og síma nauðsynlegt að undirbúa töluvert betur en gert hefur verið sjónvarpssendingar á miðin, m. a. með frekari mælingum og athugunum á staðsetningu, raflínulögnum o. fl. og athugunum á því, hvernig slíkar stöðvar verða best tengdar þeim örbylgjuleiðum sem nú er unnið að.“

Í þessu sambandi var m. a. rætt um stöð þá, sem hv. þm. nefndi hér áðan, og það var í því sambandi sem þeir upplýstu, að þeir þyrftu að skoða betur hvernig þetta yrði framkvæmt á þann máta að koma mætti að sem mestu gagni. Það má ekki rasa þarna um ráð fram frekar en í öðrum dýrum framkvæmdum. Og ég vil taka það fram að sú framkvæmd, sem þar um ræðir, er á verðlagi í nóv. 1976 töluvert hærri en hv. þm. nefndi. Hitt er eldri áætlun.

Það voru því mjög ákveðin tilmæli að fá tvö sumur til að skoða þessi mál betur, gera frekari mælingar og athuga hvernig það kæmi að sem bestu liði. Við töldum okkur ekki fært að ganga gegn þessu, auk þess sem ég sagði áðan, að þá yrði að draga úr öðrum framkvæmdum. Til viðbótar get ég nefnt það, sem kom ekki til nánari athugunar, en var bent á, að það væri e. t. v. unnt að leysa þessi mál sjómanna með myndsegulböndum, taka það upp. Frá þessu hefur reyndar verið skýrt í einhverju dagblaði nýlega. Það hefur þann kostinn umfram útsendingu að þá njóta sjómenn þess að sjálfsögðu allt út að 200 sjómílum t. d., sem sendingar af landi mundu ekki ná til. En vitanlega hefur þetta einnig sína annmarka. Þá fá þeir t. d. ekki fréttir og beinar útsendingar í sjónvarpi, svo að þetta er vitanlega ekki algild lausn, en þyrfti kannske að athuga betur.

Til viðbótar því, sem ég hef nú sagt og hef reynt að skýra meginástæðurnar fyrir því að þetta dróst, þ. e. a. s. framkvæmdageta og tækniástæður, þá hefur ráðið hér einnig að það var reynt að stilla framkvæmdum þannig að fjárþörf umfram tekjur fyrstu árin, sem er mikil eins og kemur fram í tekjuáætlun, yrði ekki óviðráðanleg. Það var skoðað hvort gera mætti ráð fyrir lánsmöguleikum í þessu sambandi, og er talið að það sé fært. En takmarka verður það við einhverjar eðlilegar upphæðir. Þetta tengist einnig að sjálfsögðu innflutningi litasjónvarpstækja. Af þeim eru tolltekjur stórum meiri. Það fylgir einnig hér með áætlun um skiptingu á slíkum tekjum, þannig að ef innflutningur litasjónvarpstækja yrði bannaður, þá er langt frá því að þær tekjur fengjust sem nauðsynlegar eru til að ráðast í svona framkvæmdir.

Ég vil ekki lengja þessar umr. um of, þó að frá mörgu mætti skýra sem fram kom í störfum n., athyglisverðum hlutum, en fyrst og fremst leggja áherslu á það, að það var alls ekki af einhverri vonsku í garð sjómanna sem þetta var dregið, eins og helst mátti skilja á hv. þm. Ég tek undir það með honum að þeir eru sannarlega íslendingar og ekki verri en aðrir. Þetta var sem sagt eitt af þeim atriðum sem mest var um rætt og athugað hvort ekki væri ástæða til að flýta, en að vel athuguðu máli töldum við ekki fært að flýta því meir en þarna er gert.