27.01.1977
Sameinað þing: 42. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1704 í B-deild Alþingistíðinda. (1356)

48. mál, litasjónvarp

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Það var aðeins til að segja nokkur orð í tilefni af ræðu hv. 5. þm. Vestf. sem ég kvaddi mér hér hljóðs aftur.

Ég held að það sé enginn vafi á því að þm. eru allir um það sammála að ef tök eru á því fjárhagslega, þá sé alveg sjálfsagt að sjómönnum verði gert kleift að horfa á sjónvarp ekkert síður en þeim sem í landi eru. En ég held að sú þróun sé að verða í þessum málum að það muni verða hægt að gera sjómönnum kleift að horfa á sjónvarpsefni, bæði innlent og erlent, nema þá fréttir í íslenska sjónvarpinu. Það er alveg vitað og liggur ljóst fyrir, að sú þróun er að verða og er komin nokkurn veginn á lokastig, að sjónvarpsefni mun innan mjög skamms tíma, jafnvel síðari hluta þessa árs eða á næsta ári, fást keypt á segulböndum eða kasettum, og tæki til innanhússendingar fyrir segulbönd eru ekki það dýr að ekki muni vera með tímanum mjög vel viðráðanlegt að kaupa þau a. m. k. til handa skipum.

Ég hef af vissum ástæðum kynnt mér þessi mál nokkuð og mér er tjáð að það sé aðeins um tímaspursmál að ræða þangað til það verði orðið að veruleika að menn geti farið í verslanir og keypt kasettur fyrir sjónvarpssendingar, nákvæmlega eins og nú er farið í verslanir og keyptar kasettur ef menn vilja hlýða á músik eða annað sem nú er bægt að fá keypt í verslunum. Ég hygg að þessi þróun sé það ör, eftir þeim upplýsingum sem ég hef fengið að það líði ekki mörg ár þangað til það fari eins með sjónvarpið og farið hefur með útvarpið, að menn geti hlýtt á það efni og horft á það efni sem þeir óska eftir. Þá kemur auðvitað að því að þeir, sem eru um borð í skipunum, geta notað sér þessa aðstöðu, nema varðandi íslenskar fréttir. Við vitum að það er tilgangslaust að vera að senda mönnum kasettur með íslenskum fréttum sem kannske eru nokkurra daga gamlar. En allt efni annað í íslenska sjónvarpinu er hægt að taka upp á slíkar kasettur, og það er þegar í dag gert í mörgum tilfellum. Það eru þó nokkuð margir útgerðarmenn sem hafa fengið sér tæki til að taka upp þætti og annað efni úr íslenska sjónvarpinu sem þeim finnst þess virði að senda til skipa sinna. Þeir hafa gert þetta, og það er notað um borð í fiskiskipaflotanum.

Allt hlýtur þetta mál í heild að verða til skoðunar hjá stjórnvöldum, hvaða leið er eðlilegust. En framþróunin er það ör, að ég hygg að það að tala um svarthvítar útsendingar sé tími sem þegar er — ja, ekki kannske alveg liðinn, en er alveg að líða undir lok, og að sjónvarpsefnis almennt verði hægt að afla sér með því að fara inn í verslun og kaupa það sjónvarpsefni sem menn óska eftir. Mér er tjáð að þá verði ekki lengur um leigu á sjónvarpsefni að ræða, heldur muni þeir, sem framleiða sjónvarpssegulböndin, kaupa réttinn til framleiðslu og menn séu alveg óháðir því að þurfa að leigja þetta efni, heldur geti þeir hreinlega keypt það og notað það á þann hátt sem þeim sýnist og á þann hátt sem nú er almennt gert með segulbönd ef um hljómlist eða annað er að ræða.

Ég hygg að það megi leysa aðstöðu sjómanna á mjög verulegan hátt eftir þessari leið. En auðvitað verða alltaf vandkvæði á því að hægt verði að senda út beinar fréttir úr íslenska sjónvarpinu, nema þá að leggja í þann kostnað sem hér var nefndur og í dag er talinn vera samkv. áætlun 1430 millj., sem er vissulega há upphæð. En þegar tök eru á því að veita þessa þjónustu einnig til skipa á miðunum í kringum landið, þá er sjálfsagt að að því verði stefnt.