27.01.1977
Sameinað þing: 42. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1705 í B-deild Alþingistíðinda. (1357)

48. mál, litasjónvarp

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Er mönnum nokkuð farið að leiðast? Ég skal vera mjög stuttorður. Það eru aðeins örfá orð út af því sem fram kom hjá hv. þm. Steingrími Hermannssyni og hv. þm. Sigurlaugu Bjarnadóttur.

Það er misskilningur hjá 2. þm. Vestf., Steingrími Hermannssyni, að ég hafi ekki lesið þetta sem hann las upp hér af bls. 8 og 9 í skýrslunni. Það var ekki það sem ég var að spyrja um. Þar kemur engin röksemd fram gegn því að hægt sé að fara í þetta, önnur en sú að það verði mikið álag á tæknimenn Pósts og síma. Það er fyrir þeirri röksemdafærslu sem þessir hv. þm., sem n. skipuðu, hafa fallið. Þeir hafa fallið fyrir þeim mikla þrýstingi frá póst- og símamálastjórninni á þá leið, að það yrði svo mikið álag á tæknimönnum Pósts og síma að það væri gersamlega útilokað að gera þetta varðandi sjónvarpssendingar út á fiskimiðin. Það er sú eina röksemd sem mér sýnist vera haldbær gegn því að sjónvarpssendingum sé beint út á fiskimiðin. Nóg um það. Ég kem kannske frekar að því með örfáum orðum síðar hvort ástæða er til að taka fullkomlega trúanlegan þennan þrýsting frá póst- og símamálastjórninni um þetta mikla álag.

Hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir taldi að það væri mikil einsýni í mér í þessu máli, vegna þess að ég vildi fá mastur á Barða. Hvar vill þessi hv. þm. fá mastur til þess að beina út á miðin úti fyrir Vestfjörðum, eða er hún með einhver önnur mið sérstaklega í huga? Þetta er ekki bara fyrir vestfirðinga sem hér er um að ræða. Vestfjarðarmið sækja sjómenn og skip frá svo til öllum landfjórðungum, þannig að það er ekki einungis um Vestfjarðarsjómenn að ræða. (Gripið fram í.) Já, en hvar er þá einsýnin?

Hvað á hv. þm. við með einsýni í þessum efnum? Ég skil það ekki.

Þá kom fram hjá hv. þm. Sigurlaugu Bjarnadóttur að tæknimenn hjá Pósti og síma eða tæknimenn hjá Ríkisútvarpi líklega frekar könnuðust ekki við 20 millj. Það má vel vera að þeir kannist ekki við það. Það má vel vera að mér hafi orðið fótaskortur á svellinu í þeim efnum að reikna ekki nógu ríflega með verðbólguþenslunni hjá hæstv. ríkisstj. frá því að þessir sömu menn gerðu sína áætlun árið 1972 og töldu þá þessa framkvæmd kosta 4.5 millj. Ég hef í höndunum plögg frá þessum aðilum um að einmitt þessi framkvæmd á Barða, sem þeir töldu þá eðlilegasta, mundi kosta 4.5 millj. Og ef það er eini þröskuldurinn að þessi upphæð var ekki nógu há, þ. e. a. s. það er ekki nóg að setja í þetta 20 millj., þá er ég til reiðu að hækka upphæðina þannig að málið nái fram að ganga þess vegna. Ef það er eini þröskuldurinn í veginum fyrir því að hægt sé að taka þetta mál til afgreiðslu og þá jákvæðrar afgreiðslu, þá er ég reiðubúinn til að hækka þá upphæð. En ég bara margfaldaði ríflega fjórum sinnum þá upphæð sem var 1972. En ég skal viðurkenna að mér hefur líklega orðið á að reikna ekki nógu ríflega með þeim gjörðum sem hæstv. núv. ríkisstj. hefur staðið að varðandi verðhækkanir á þessu tímabili.

En þetta er þeirra eigin hugmynd, tæknimanna hjá Landssímanum, og ef þeir kannast ekki við sitt eigið fóstur, þá veit ég ekki hvað á að gera við þá. Þetta er þeirra eigið fóstur. Það er hægt að sýna fram á með plöggum frá þeim. Ef það er af hv. þm. Sigurlaugu Bjarnadóttur haft rétt eftir þessum hinum sömu tæknimönnum hjá Landssímanum, að Barðinn sé alls ekki inni í myndinni núna varðandi það að beina sjónvarpssendingunum út á Vestfjarðamið, það sem þeir lögðu til fyrir 4 árum, þá þykir mér það undarlegt, — ef þetta er rétt haft eftir, sem ég vil ekki draga í efa fyrr en þá annað kemur í ljós. (SigurlB: Þm. hefur ekki heyrt rétt.) Ég skrifaði það orðrétt, skrifaði það meira að segja orðrétt, og geri ég það ekki oft. En ef þetta er rétt haft eftir þessum mönnum, þá vil ég a. m. k. segja: Það er engin ástæða til þess að falla fyrir þeirri röksemdafærslu hjá yfirstjórn Pósts og síma að þeir verði svo önnum kafnir og álagið svo mikið á þessum tæknimönnum að það sé ekki hægt að fara í neinar framkvæmdir fyrir sjómenn á þessu sviði á þessu tímabili. Þeir segja þá sitt á hvað eftir því hver talar við þá ef þetta er rétt. Þeir kannast þá ekki við sínar eigin gerðir frá fyrri tíð, þessir menn, þannig að ég tel fulla ástæðu til þess að vefengja þetta, ef þetta er rétt haft eftir, og draga í efa það, sem þessir menn segja, og geri það þangað til annað kemur í ljós.

Þá kom fram hjá hv. þm. Sigurlaugu Bjarnadóttur að þeir teldu jafnvel hugsanlegt að gera þetta í áföngum. Það er það sem ég var að leggja til, að gera það í áföngum, þannig að ekki ætti það að vera þröskuldur í veginum: einar 20–30 millj. af þessum 1430 þá, skiljum 1400 eftir. Það er lítill áfangi, þannig að það ætti ekki að koma í veg fyrir það.

Þá var komið inn á það, að það ætti að stækka stöðina í Óshólavita. Það var farið fram á það, ef ég man rétt, árið 1972 eða 1973 að bæta þar um, þannig að væri hægt að horfa á sjónvarpsútsendingu um borð í fiskibátunum undir Grænuhlíð. Þá átti þetta að kosta 300–400 þús. kr. Þá var talið miklu skynsamlegra og það mundi þjóna fleirum einmitt að setja stöð á Barða. Þá var það talið skynsamlegra, sjálfsagt til þess að koma í veg fyrir að þetta yrði gert í Óshólunum, því að mér sýnist allt benda til þess að menn segi sitt á hvað til að koma í veg fyrir að nokkuð verði gert.

Það er tiltölulega lítill áfangi þó að sjómönnum væri nú veitt sú aðstaða að geta horft á sjónvarpsútsendingar undir Grænuhlíð, ef við höldum okkur við það, á þeim tíma sem þeir liggja í vari. Ég veit að hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir veit hversu margir þeir dagar eru orðnir á ári sem t. d. togararnir frá Vestfjörðum og annars staðar að liggja í vari nú orðið. Ef það er það eina, sem þessir hv. þm. telja að nú sé hægt að gera fyrir þessa sjómenn, 500–600 talsins að staðaldri úti á Vestfjarðamiðum, að leyfa þeim að horfa á sjónvarp einungis þá tiltölulega fáu klukkutíma á ári hverju sem þeir liggja í vari undir Grænuhlíð, þá er ekki mikið sem á að rétta frá sér, ef það er það eina sem á að gera.

Nei, mér virðist, að hér sé nákvæmlega sama og alltaf er. Það er komið í veg fyrir að það sé unnið að tiltölulega skynsamlegum framkvæmdum, tiltölulega litlum fjármunum varið í tiltekin verkefni. Það er komið í veg fyrir það með því að segja alltaf: Það er ekki hægt að gera þetta, við verðum að taka allt saman í einu. Og það er til þess að drepa hvert einasta framkvæmdamál, a. m. k. þegar verið er að tala um framkvæmdir af þessu tagi, sem eru upp á 1400–1500 millj. kr. Þetta er vísvitandi valin leið til þess að drepa allar framkvæmdir, og það ætti síst að sitja á hv. þm. stjórnarliðsins á Vestfjörðum að taka þátt í þeirri herför sem þarna er hafin gegn því að setja upp sjónvarpsaðstöðu fyrir vestfirska og ég vil segja íslenska sjómenn almennt úti fyrir Vestfjörðum. Þeir ættu ekki að taka þátt í þeirri herför sem hér er hafin til þess að koma í veg fyrir það. Með því, eins og þeir hafa hér gert, að taka undir þennan málflutning eru þeir að taka þátt í henni, kannske óafvitandi. En nú ættu augu þeirra að fara að opnast.