27.01.1977
Sameinað þing: 42. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1707 í B-deild Alþingistíðinda. (1358)

48. mál, litasjónvarp

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég verð að gera stutta aths. Ég held að hv. þm. Karvel Pálmason þurfi að lesa pínulítið betur eða pínulítið lengra. Hann ætti að fletta blaðinu og lesa einnig á bls. 9 (KP: Ég las það allt.) Þar er getið um aðra ástæðu. Þar er skýrt tekið fram að auk þess, segir nokkurn veginn, lögðu tæknimenn Pósts og síma áherslu á að þeir þyrftu að skoða þessi mál betur. Og erum við ekki búnir að fá nóg af Kröfluævintýrum í þessu landi. Hér er auðvitað ekki um upphæð að ræða sem er neitt borið saman við það, en eigum við ekki að undirbúa okkar framkvæmdir dálítið betur? Tæknimennirnir telja sig þurfa að fá tvö sumur til að skoða þessi mál betur. Það getur vel verið að þeir gætu tekið Barðann einan og skoðað hann í sumar og mælt hann og komið svo þar með stöð á árinu 1978. En þeir telja sig þurfa að skoða þessi sjónvarpsmál á miðin miklu betur, og mér finnst ekki hægt að neita þeim um það.

Það er vitanlega hægt að þenja út brjóstkassann og segja: Takið þið mark á svona mönnum? Það eru 5 tæknimenn hjá Pósti og síma sem hafa með þessi mál að gera. Þeir þurfa að annast allar mælingar, þeir þurfa að annast allar pantanir á tækjum og stöðvum í þessu sambandi, þeir þurfa að hafa eftirlit með uppsetningu og þeir hafa ekki til þess nema bara hásumarið, a. m. k. ekki ef þeir eru komnir upp á háfjöll. Og erum við hér hlynntir því að stórfjölga þessum opinberum starfsmönnum? Er það kannske? Ég hélt að menn hefðu staðið hér upp hver eftir annan og mælt gegn útþenslu í ríkisbákninu o. s. frv.

Við verðum að vera niðri á jörðinni þegar við tölum um þessa hluti. Við gerum ráð fyrir 8–10 stöðvum fyrir fleiri en 8 notendur. Því hefur ekki verið svarað, hvort menn vildu fresta þá einhverju af því. Ég er sannfærður um það eftir ítarlega fundi með þessum mönnum að þeir geta ekki sinnt því að koma upp þeim stöðvum öllum og um það bil 10 stöðvum fyrir færri en 8 notendur og einnig hafið framkvæmdir við sjónvarp á miðin. Við verðum að fresta einhverju af þessu. Eða vilja menn kannske fresta að endurbyggja stöðina við Blönduós sem er að hrynja? Hún var keypt notuð til landsins eldgömul og er ekki hægt að fá eitt einasta varastykki í hana. Vilja menn fresta því? Það er eitt af stærstu verkefnunum. Menn verða þá að velja og hafna. Við stöndum frammi fyrir þeim takmörkunum sem þarna um að ræða.

Mér dettur í hug það sem sagt var hér áðan af hv. þm., í fyrri ræðu hans, að litaútsendingar næðu ekki til sjómanna. Það er alrangt. Litaútsetning, sem hefst hér í Reykjavík, nær til allra sem hafa litatæki. (KP: Ég sagði það ekki.) Ég bið afsökunar, ég skildi það svo að slíkt væri aðeins fyrir lítið svæði. En vitanlega nær hún til allra. Önnur framkvæmd, sem ég skal viðurkenna að ég hélt að væri kannske ekki þörf, er örbylgjukerfið. En þegar við fórum að kynnast því betur tæknilega, þá sáum við að það er ákaflega góð og þörf framkvæmd, mjög þörf fyrir alla landsbyggðina. Hún stórbreytir móttöku alls staðar þar sem kerfið nær til.

Ég stend sem sagt upp til að leggja áherslu á að þetta mál var vandlega skoðað og fátt meira umrætt en þetta. En við þrír, sem sátum í þessari n., sannfærðumst um að þarna yrði að velja og hafna. Það var ekki um annað að ræða.

Ég vil taka undir það, sem hér hefur komið fram, að í okkar huga allra var það frumverkefnið að koma sjónvarpi til allra landsmanna, bæði á landi og á sjó. Annað tengist þarna inn í. Það er ekki hægt að leyfa innflutning á litasjónvarpstækjum og setja þau háu verði og með hærri afnotagjöldum án þess að hefja einhverja útsendingu í lit. Þetta hlýtur að haldast í hendur.

Ég vil út af fyrir sig fagna þeim framkvæmdum sem þegar hafa verið leyfðar. Þó hefði ég gjarnan viljað að hæstv. menntmrh. væri hér, því að ég vil gera þá aths. að ég sakna þess að ekki skuli þegar hafa verið settar í gang framkvæmdir t. d. við þessar stöðvar til notenda sem ná ekki sjónvarpi í dag. Þetta er að mínu mati alvarlegt, því að afgreiðslutími á svona stöðvum er um 6 mánuðir og það er ekki farið að panta þær. Ef þetta verður ekki gert mjög fljótt, þá getur sumarið í sumar algerlega farið forgörðum að þessu leyti, að fjölga þeim stöðvum sem gert er ráð fyrir í þeirri áætlun sem við gerðum. Þetta er að mínu mati mjög alvarlegt mál.