31.01.1977
Efri deild: 39. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1719 í B-deild Alþingistíðinda. (1363)

142. mál, meðferð einkamála í héraði

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Þetta frv. til l. um breyt. á l. um meðferð einkamála í héraði er fylgifrv. með frv. til lögréttulaga sem ég mælti fyrir áðan. Þetta frv. hefur réttarfarsnefnd samið og er það lagt hér fram óbreytt í þeirri mynd sem n. gekk frá því.

Nokkrar veigamiklar breyt. eru gerðar á lögum um meðferð einkamáli í héraði. Heildarlögin um meðferð einkamála í héraði voru sett á árinu 1936 og frá þeim tíma hafa ekki veigamiklar breyt. orðið á þeirri löggjöf.

Í frv. þessu er gert ráð fyrir að sáttanefndir verði lagðar niður, en öll sáttastörf verði falin dómurum. Sú hefur orðið raunin að störf sáttanefnda hafa ekki borið þann árangur sem í upphafi mun hafa verið til ætlast þegar einkamálalögin voru sett. Tiltölulega fá mál hljóta nú afgreiðslu hjá sáttanefndum. Svipað mun vera uppi á teningnum í Danmörku, en sé litið til Noregs verður niðurstaðan önnur. Þar gegna sáttanefndirnar veigamiklu hlutverki, enda hlýtur meiri hluti smámála afgreiðslu hjá sáttanefndum þar, er mér sagt. Að ljúka máli með sáttagerð er oft heppilegur endir á þrætu og ódýr lausn fyrir málsaðila. Ég er hér ekki beinlínis að mæla með því að halda í ákvæðin um sáttanefndir, en vil þó benda á þetta til umhugsunar. Margir munu vera þeirrar skoðunar að ákvæðin um sáttanefndir séu orðin algerlega úrelt, og lögmenn gera mikið að því að semja um það að ganga fram hjá sáttanefnd og er þá leitað sátta hjá dómstólum. En ég vil benda hv. þm., ef þeir vilja athuga þetta nánar, á aths. við 1. gr. á bls. 5 þar sem er skýrt frá því hvað dómsmálaskýrslur, sem teknar eru saman af Hagstofunni, segja um þetta efni. Þó að það séu að vísu ekki hlutfallslega mörg mál skv. því sem fá afgreiðslu hjá sáttamönnum, er það þó skv. þeim skýrslum, sem þarna liggja fyrir, ekki alveg úr sögunni að mál séu útkljáð hjá sáttanefnd og fyrir sáttamönnum. Þetta yfirlit, sem þarna er frá sagt, tekur aðeins til mjög skamms tíma, tekur til dómsmálaskýrslna árin 1969–1971, þannig að það væri út af fyrir sig fróðlegt að það væri rannsakað betur og yfir lengra tímabil hver árangur hefur orðið af sáttameðferð. Hins vegar má segja það, að sáttameðferð hjá sáttanefnd, þegar málið gengur hvort sem er áfram til dómstóla, verður til þess að lengja málsmeðferðina.

Ein meginbreytingin, sem frv. þetta felur í sér og leitt gæti til hraðari málsmeðferðar, er að gert er ráð fyrir að taka upp svonefndan aðalflutning einkamála, eins og ég benti á áðan, en í því felst að ætlast er til að munnlegar skýrslur séu að mestu teknar í einu og sama þinghaldinu eftir að grundvöllur hefur verið lagður að málinu með öflun sýnilegra sönnunargagna. Fyrst er stefnan sjálf og greinargerðir aðila og svo aðrar skriflegar skýrslur eða önnur sýnileg sönnunargögn sem þar er um að ræða, og jafnframt er gert ráð fyrir að í framhaldi af því fari fram munnlegur málflutningur. Í nágrannalöndum þekkjast svipaðar reglur, svo sem í Svíþjóð. Með réttri framkvæmd ætti þetta að leiða til hraðari meðferðar dómsmála og betri nýtingar á vinnutíma dómara.

Annað veigamikið atriði, sem ætti að leiða til hraðari meðferðar, er að finna í 11. gr. frv. og kom reyndar líka fram í því sem ég sagði áðan um lögréttufrv. Gert er ráð fyrir því í þessu frv. að úrskurðir og dómar verði styttir verulega frá því sem nú tíðkast. Í 11. gr. segir um úrskurðina, að það sé gert ráð fyrir að felld verði úr lögum skylda til að láta forsendur fylgja úrskurðinum. Og í 13. gr., eftir að tekið hefur verið fram hvaða atriði þurfi áhjákvæmilega að taka fram í dómi, segir, með leyfi forseta: „Dómar skulu vera stuttir og glöggir. Þegar þeir eru samdir skal hafa í huga að aðilar geti með aðstoð umboðsmanna sinna séð hvaða rök liggja til niðurstöðu dómara, en í dómi skal ekki rekja atvik, málsástæður eða lagarök sem aðilum má vera kunnugt um.“ En eins og dómar eru samdir nú, eins og menn þekkja, þá er þetta tekið upp í dómana þannig að dómarnir verða æðilangir. Þetta ætti að spara dómara verulegan tíma. Benda má á fleiri atriði sem gætu sparað dómara tíma, eins og þetta sem ég nefndi áðan, að það er ekki gert ráð fyrir að forsendur fylgi úrskurði.

Ýmis fleiri nýmæli eru í þessu frv. sem horfa til bóta að mínu mati. Má þar m. a. minna á að gert er ráð fyrir að sérdómstólar verði lagðir niður, svo sem sjó- og verslunardómur, merkjadómur í Reykjavík og á Akureyri og aðrir fasteignadómar. Oft hafa komið fram kröfur um hraðari málsmeðferð í ákveðnum málaflokkum, og hefur þá lausnin oftast verið sú að krafa hefur komið um að settir væru á fót sérstakir dómstólar um þessi efni. En þó liggja í sumum tilfellum sérstakar ástæður til grundvallar því að settir hafa verið á fót sérstakir dómstólar, svo sem að sérkunnáttu þurfi til að dæma ákveðin mál eða málaflokka. En þessi þróun um eiginlega fjölgun sérdómstóla er ekki heppileg. Oftast má fá þá sérkunnáttu, sem ætti að vera í sambandi við slík mál, með því að nota þá heimild sem er fyrir hendi til þess að kveðja til sérfróða meðdómsmenn.

Þótt þetta frv. sé flutt sem fylgifrv. með frv. til lögréttulaga, þá er ekki útilokað að unnt sé að lögfesta það að einhverju leyti eða í meginatriðum, jafnvel þó að frv. til lögréttulaga hljóti ekki afgreiðslu. Þetta frv. hefur ekki í för með sér út af fyrir sig sérstök fjárútlát, og það getur verið að mönnum sýndist hagræði að því að lögleiða það,jafnvel þó að þeir væru ekki alveg tilbúnir til þess að afgreiða eða lögfesta lögréttufrv. með sama hraða, enda er þar náttúrlega um stærra mál að ræða og miklu veigameiri breytingu.

Sjálfsagt verður það svo, að þegar menn fara að fjalla um lögréttufrv. vakna ýmsar spurningar hjá mönnum, og vafalaust geta orðið skiptar skoðanir um ýmis atriði, þó ekki væri nema aðeins um heitið sem ég reyndi að minnast á síðast. Lögrétta er að vísu fornt nafn á dómstóli, og má vel vera að mönnum þyki það þjált og tamt þegar þeir fara að venjast því. En auðvitað eru til fleiri nöfn í fornum lögum sem ýmsir gætu e. t. v. látið sér til hugar koma að eins eðlilegt væri að taka upp, eins og t. d. lögþingisréttur eða alþingisdómur sunnan og vestan, lögþingsdómur norðan og austan. Það eru hinir fornu lögmannadómar, dómar sem lögmenn nefndu menn í á Alþ. Líka væri hægt að láta sér detta í hug fjórðungsdóma sunnan og vestan eða fjórðungsdóma norðan og austan. Og þannig er það nú, að ég hygg, með ýmis atriði í lögréttufrv., að þegar menn fara að velta því nánar fyrir sér, þá getur svo farið að það komi upp í huga þeirra ýmsar spurningar og álitaefni.

Ég óska eftir því, herra forseti, að þessu frv., sem er sem sagt flutt sem fylgifiskur með frv. til lögréttulaga, verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. allshn.