31.01.1977
Efri deild: 39. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1726 í B-deild Alþingistíðinda. (1369)

150. mál, fávitastofnanir

Sjútvrh, (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég get tekið undir margt af því sem hv. þm. sagði almennt um þessi mál. Og það er nokkurn veginn sama hvort þáltill., sem hann gat um, verður samþ. eða ekki. Ef hún verður ekki samþ. eða nær ekki fram að ganga, þá hef ég mikinn hug á því að þessi lög öll verði endurskoðuð með það fyrir augum að þeirri endurskoðun verði lokið næsta haust eða snemma næsta vetrar. Þarna hafa orðið það miklar breytingar á ekki lengra árabili, eins og hann gat réttilega um, að það er brýn nauðsyn orðin á því að breyta hér mörgu En ég vildi ekki ganga fram hjá vilja skólastjórnarinnar og almennum vilja þess fólks, sem að þessum málum vinnur, að fá þessa breytingu hvað snertir Þroskaþálfaskólann.

Varðandi það atriði, sem þm. minntist á, hvað reglugerðarákvæði eru víðtæk og embættismenn fá þar víðtækt vald í hendur, þá veit ég ekki hvort þar er mikill munur á. Þegar verið er að fjalla um lagafrv. er það mjög víðtæk árátta flestra þm. að þeir vilja helst ekki hafa nokkra skoðun á viðkomandi frv. fyrr en þeir eru búnir að heyra álit sérfræðinga, svo að það má kannske varla á milli sjá hvort þeir ráða meiru við lagasmíðina sjálfa eða reglugerðarsmiði En þetta er matsatriði hverju sinni. Oft eru ráð sérfræðinga góð, stundum eru þau minna virði, og ég held að það sé rétt að þm. almennt reyni að hafa í sem flestum tilfellum sínar skoðanir og sína þekkingu og sitt brjóstvit í afstöðu til mála.

En varðandi inntökuskilyrðin, þá er ég ræðumanni alveg sammála um að það á ekki að setja alfarið skilyrði um að viðkomandi umsækjendur hafi tiltekin próf, og ég mun ekki stuðla að því að útiloka eða setja í annan flokk fólk með gagnfræðapróf sem hefur unnið á þessum hælum, sýnt natni og skyldurækni í störfum fyrir þessa sjúklinga, að það eigi að kosta það að það komist ekki í þennan skóla til þess að halda þessum störfum sínum áfram. Það er gagnlegt fyrir menn, sem fara með þessi mál, að kynnast viðhorfum þessa fólks. Ég hitti í heimsókn minni um daginn tvær ungar stúlkur sem vinna við gæslu á Kópavogshælinu og höfðu sótt um inntöku í Þroskaþjálfaskólann og fengið synjun. Þær höfðu ekki stúdentspróf og þær þurftu að bíða. Maður sá að þessar stúlkur höfðu áhuga á starfi sínu og höfðu jafnframt ánægju af því að sinna þessu fólki, og þess vegna megum við ekki, hvorki í lögum né reglugerðum, útiloka jafnvel bestu starfskraftana fyrir það eitt að þeir hafa ekki ákveðið próf. Og kannske er þetta fólk helst á því að gera þetta starf að ævistarfi. Annað fer í það um stuttan tíma og heldur svo áfram námi og fer í eitthvað annað. Þarna verðum við að gæta þess að útiloka ekki þessa aðila. Ég er að því leyti til algerlega sammála hv. þm. hvað þetta snertir, og ég skal hafa það í huga við útgáfu og breytingu á reglugerðum.