31.01.1977
Efri deild: 39. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1727 í B-deild Alþingistíðinda. (1371)

145. mál, framlag Íslands til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Í frv. því, sem hér liggur fyrir, felst heimild fyrir ríkisstj. til þess að auka kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og framlag Íslands til Alþjóðabankans. Er um að ræða almennar hækkanir aðildarlandanna í samræmi við nýjar ákvarðanir um hækkun stofnfjár þessara stofnana. Hækkanir stofnfjár hafa farið fram áður, síðast samkv. l. nr. 28 frá 28. apríl 1970. Ísland hefur verið aðili að sjóðnum og bankanum frá stofnun þeirra 1945 og hefur notið ýmiss konar hagræðis af aðildinni. Víðtæk endurskoðun á stofnskrá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur átt sér stað undanfarið, og mun sérstakt frv. um staðfestingu Íslands á þeim breytingum verða lagt fyrir Alþ. á næstunni. Að öðru leyti vísa ég til aths. við frv. og legg til að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og til hv. fjh.- og viðskn.