25.10.1976
Sameinað þing: 8. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í B-deild Alþingistíðinda. (138)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Þið hafið í kvöld hlýtt á þriðju stefnuræðu hæstv. forsrh. Maður skyldi ætla að þegar slíkur maður sem forsrh. sjálfur flytur boðskap sinn til þjóðarinnar sitji landsmenn með hendur í skauti og hlýði með andakt á hvert orð, sem út gengur af munni hæstv. ráðh., bíði þeirra gullkorna sem hrjóta kunna af vörum ráðh., og teyga þau sem þann boðskap sem byggjandi er á. Væri allt með felldu ætti boðskapur forsrh. og ríkisstj. fullvalda og sjálfstæðs lýðræðisríkis að hafa áhrif og vera beðið eitthvað í líkingu við það sem hér hefur verið sagt. En er reyndin sú? Hversu margir ætli þeir séu einstaklingarnir sem í kvöld hafa beðið ræðu forsrh. með álíka hætti og hér var lýst? Ég læt ykkur, hlustendur góðir, um að svara því í huganum hver og einn fyrir sig.

Mér er þann veg farið, að ekkert af því var það í ræðu ráðh. hér í kvöld sem gefur tilefni til sérstakrar umfjöllunar. Hins vegar sýnir reynsla undanfarandi tveggja ára að af nógu er að taka til umfjöllunar af því sem hefur gerst þetta tveggja ára tímabil undir handarjaðri ríkisstj.

Það hefur mikið verið til umr. að undanförnu, hvort við íslendingar byggjum í raun og veru við þingræði hér á landi. Mjög hefur farið vaxandi sú skoðun meðal almennings, og það ekki að ástæðulausu, að Alþ. sé í æ ríkari mæli að verða afgreiðslustofnun ríkisstj. og embættismanna, og þarf engan að undra þótt slík skoðun fái vaxandi byr þegar lítið er til þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað að undanförnu. Í tíð núv. st.jórnarflokka og meiri hl. þeirra hér á Alþ. hefur hvað lengst verið gengið í því að sanna þessa skoðun almennings, og kom það hvað skýrast fram við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1976. Þá kom berlega í ljós hvað þm. virðast ósjálfstæðir og að því er virðist auðsveipir og bljúgir undir ægivaldi flokksagans og þess geigvænlega flokkræðis sem tröllriðið hefur öllu stjórnmálastarfi hér á landi undanfarna áratugi.

Það fer ekki hjá því að sé athuguð áður tilvitnuð afgreiðsla fjárlaga, þá er það eitt gleggsta merkið um að mjög svo vafasamt þingræði er um að ræða í reynd hér á landi. Eða teljið þið, hlustendur góðir, það eðlilegt að fjárlagafrv. ríkisstj. sem einungis ráðh., í þessu tilviki átta talsins, fjalla um og er yfir 50 milljarðar kr., það renni svo til þegjandi og hljóðalaust og nær óbreytt gegnum þinglið stjórnarliðsins hér á Alþ.? Öllum er kunnugt að ríkisstj. hefur 42 þm. að baki sér, og er það þá líklegt að hugir ráðh. 8 hafi runnið svo til gersamlega saman við hina 34 þm. að orðið hefði ein hallelújablessun yfir allt ef sannfæring þm. hefði fengið að ráða? Auðvitað ekki. Hér hafa flokksfjötrarnir verið látnir halda og sannfæringunni og réttlætistilfinningunni varpað fyrir róða. Hér hefur aðeins verið nefnt eitt dæmi — að vísu átakanlegt — um það hversu þingræði hér á landi stendur höllum fæti og að flokksvaldið hikar ekki við að knýja þm. til að fórna sannfæringunni á altari flokksfjötranna þó að þm. hafi undirritað eiðstaf um að láta sannfæringuna eina ráða gerðum sínum hér.

Það væri hægt að nefna miklu fleiri dæmi sem sýna, svo ekki verður um villst, að þingræði er á fallandi fæti hér. Ótal dæmi mætti nefna sem sýna að innan ríkiskerfisins eru ákvarðanir fjárveitingavalds og löggjafarvalds virtar að vettugi og hinar ýmsu stofnanir ríkisins fara sínu fram. Með fjárveitingar, sem fjárveitingavaldið hefur ráðstafað til ákveðinna verkefna, er ráðsmennskast að eigin geðþótta innan kerfisins. Allt þetta sýnir að valdsvið Alþ. fer dvínandi. Ríkisstj. og embættismönnum þykir henta að hafa sem mest frjálsræði um ákvarðanir, og allt of margir þm. virðast því miður láta sér þetta líka og alltaf virðist þeim fjölga hér á Alþ. sem sætta sig við þessi vinnubrögð.

Það er því miður allt of margt sem bendir til þess að sú skoðun almennings, að Alþ. sé í ríkara mæli að verða afgreiðslustofnun ríkisstj. og embættismanna, sé rétt, og þó margir eigi að sjálfsögðu hér sök á, þá hafa núv. stjórnarflokkar lagt fram hvað drýgstan skerfinn. Verði ekki nú þegar spyrnt við fótum, þá má búast við að það verði um seinan. Þetta er nauðsynlegt að þm. í lýðræðis- og þingræðislandi geri sér ljóst.

Fyrir Alþ. liggur nú frv. til fjárlaga fyrir árið 1977, og þó hér gefist ekki tími til að fjalla ítarlega um það, þá er þó rétt að fara um það nokkrum orðum. Frv. hljóðar upp á 84 milljarða kr., fjárlögin fyrir árið 1976 eru upp á 60 milljarða. Hækkun frv. frá fjárlögum yfirstandandi árs er því 24 milljarðar eða yfir 41% hækkun. Samkv. frv. hækkar liðurinn önnur rekstrargjöld um 58.2%, en frv. gerir ráð fyrir að almennar verðhækkanir hafi orðið um 33%. Framkvæmdaframlög hækka um 32% og framkvæmdaframlög til hreinna ríkisframkvæmda hækka aðeins um 18.9% og er þar um gífurlegan samdrátt að ræða. Framkvæmdaframlög til framkvæmda, sem kostaðar eru sameiginlega af ríki og öðrum aðilum, hækka um 36.7% ef frá eru taldar hafnarframkvæmdir við Grundartangaævintýrið. Hækkun framlaga til hafnarmannvirkja og lendingarbóta er 175 millj. kr., úr 675 millj. kr. fjárlaga ársins 1976 í 850 millj. í frv. eða hækka um rösklega 25%. Það vekur athygli að á sama tíma og veita á 850 millj. til allra fiskihafna í landinu utan landshafna, þá á að verja 450 millj. til hafnargerðar við Grundartanga í Hvalfirði. Það er sem svarar rúmum helmingi þeirrar fjárhæðar sem verja á til allra fiskihafna í landinu. Eðlilega verður manni á að bera saman mikilvægi þessara framkvæmda og spyrja sjálfan sig um leið hvort sé nauðsynlegra frá sjónarmiði þjóðarheildarinnar. Hæstv. ríkisstj. hefur svarað. Hún tekur Grundartangaævintýrið fram yfir nauðsyn framkvæmda við fiskihafnir í landinu, og líklega er það í anda þess mikla byggðastefnutals sem stjórnarliðar með hæstv. samgrh. í broddi fylkingar hafa haft á orði, en skort hefur á borði.

Það þarf raunar ekki að fara mörgum orðum um framkvæmd hinnar margumtöluðu byggðastefnu í tíð núv. ríkisstj. Allt það fólk, sem byggir hinar dreifðu byggðir, hefur svo áþreifanlega orðið vart við það hugarfar sem ríkir hjá hæstv. ríkisstj. til þeirra mála. Stefna ríkisstj. að því er varðar uppbyggingu landsbyggðarinnar hefur til þessa verið orðin tóm, og stefnuræða forsrh. í kvöld svo og fjárlagafrv. ríkisstj. sýna ótvírætt að á því skal engin breyting verða. Í fyrstu stefnuræðu forsrh., sem hann flutti haustið 1974, er að finna kafla sem ber yfirskriftina: Byggðastefna. Þar segir forsrh. m.a., með leyfi forseta:

„Þótt við íslendingar séum fáir og búum í viðáttumiklu landi viljum við byggja og nýta landið allt. Efling Byggðasjóðs er nauðsynleg forsenda þess, að stórátak verði unnið í málefnum strjálbýlisins. Í fjárlagafrv. fyrir árið 1975 er gert ráð fyrir að 2% af útgjöldum samkv. því eða samtals 877 millj. kr. renni í Byggðasjóð. Auk þess hefur sjóðurinn svo yfir eigin fé að ráða.“

Og forsrh. heldur áfram: „Miklu varðar að með stóreflingu Byggðasjóðs verði unnt að fjármagna framkvæmdir er sérstaklega bæta samgöngur og stuðla að umbótum í félags-, heilbrigðis-, mennta- og atvinnumálum strjálbýlisins.“

Svo mörg voru þau orð hæstv. forsrh. í fyrstu stefnuræðu haustið 1974. Hvorki í þeirri stefnuræðu, sem flutt var haustið 1975, né þeirri, sem flutt var hér í kvöld, er að finna ítrekun og því síður auðvitað rökstuðning fyrir því að þetta hafi verið gert, því sá rökstuðningur er vandfundinn.

Nú ætla ég ekki frá eigin brjósti að lýsa því sem gerst hefur í þessum málum í tíð núv. ríkisstj., ég hef gert það áður. En ég ætla — með leyfi hæstv. forseta — að vitna í orð ekki ómerkari þm. og flokksbróður forsrh. en hv. 3. þm. Austurl., Sverris Hermannssonar, annars tveggja kommissara Framkvæmdastofnunar ríkisins sem fer með málefni Byggðasjóðs, en hann segir í viðtali við Morgunblaðið sunnudaginn 19. okt. 1975 „að fé Byggðasjóðs væri eins og krækiber í helvíti ef miðað er við einokun Suðvesturlandsins á stórvirkjun og stóriðju“. Og Sverrir bætir því við, „að þessi framkvæmdastefna ríkisstj. sé mesta byggðaröskun af manna völdum sem þekkst hefur hér á landi bæði fyrr og síðar“. Ja, bragð er að þá barnið finnur. Þetta sagði hv. þm. Sverrir Hermannsson fyrir ári eða rétt einu ári eftir að forsrh. flutti boðskapinn um hina stórefldu byggðastefnu. Með þessum afdráttarlausa dómi helsta sérfræðings Sjálfstfl. í byggðamálum er ljóst að allt tal þeirra stjórnarliða um eflingu byggðastefnu er sýndarmennska ein, enda hefur lítið borið á stóryrtum yfirlýsingum þeirra stjórnarliða í þessum efnum eftir hina hressilegu ofanígjöf Sverris. Meira að segja hæstv. forsrh. hefur látið sér þetta að kenningu verða. Og hv. þm. Framsfl., Tómas Árnason, þinn kommissarinn, sem hér talaði áðan, minntist ekki orði á byggðamálin og hefur hann þó oft að undanförnu ekki sparað stóryrðin í þessu sambandi.

Um kjara- og launamál alþýðufólks í tíð núv. ríkisstj. þarf varla að fara mörgum orðum. Svo harkalega brenna afleiðingar stjórnarstefnu ríkisstj. á bökum alþýðufólks að það þarf a.m.k. langan tíma til að yfir það fyrnist. Efnahagsstefna ríkisstj. hefur komið fjölda heimila í landinu á vonarvöl, og yfirvofandi er landflótti vegna þeirrar geigvænlegu kjaraskerðingar sem átt hefur sér stað. Sú leiðrétting, sem fékkst til launafólks með samningunum frá í vetur, er fyrir löngu uppurin og meira en það vegna þeirra hefndaraðgerða sem ríkisstj. hefur beitt í verðlagsmálum. Varla líður sá dagur að ekki séu birtar stórkostlegar verðhækkanir á brýnustu lífsnauðsynjum almennings. Á sama tíma og láglaunafólk í landinu er krafið fórna svo milljörðum skiptir hefur ríkisstj. vissulega séð um sína. Verslunarforkólfar, heildsalar og kaupmennska almennt blómstrar. Bankarnir sýna hagnað svo hundruðum millj. skiptir á sama tíma og alþýðumanninum er neitað um eðlilega fyrirgreiðslu. Og svo mætti lengi telja. Ástandið í kjaramálum hjá stærstu hópum opinberra starfsmanna er með þeim hætti að fjöldauppsagnir dynja yfir. Heilar ríkisstofnanir hafa gjörsamlega lamast vegna úlfúðar og óánægju sem þar ríkir með launamálin. Allt þjóðfélagið er meira og minna sýkt vegna þeirrar efnahags- og launastefnu sem ríkisstj. hefur fylgt. Pólitískir spákaupmenn fara allra sinna ferða. Fámennir hópar manna taka sér laun eins og þeim sýnist, og engu er líkara en að menn séu ekki lengur jafnir fyrir lögum. Sjónauki hæstv. ríkisstj. virðist fyrst og fremst hafa beinst að því að þrengja kjör launafólks í landinu.

En nú hefur borist hjálparbeiðni frá ríkisstj. þess efnis, að komið verði á fót nefnd fulltrúa vinnumarkaðarins og þingflokkanna er kanni vandlega horfur í verðlagsmálum, greini ástæður verðhækkana og orsakir verðbólgunnar undanfarin ár. Slík nefndarskipun hlýtur að skoðast sem viðurkenning um að stjórnarflokkarnir hafi sem stendur enga viðhlítandi stefnu fram að færa í efnahagsmálum á eigin spýtur. Nefndarskipun þessi getur þó á engan hátt leyst ríkisstj. undan þeirri ábyrgð að bregðast í tæka tíð við aðsteðjandi efnahagsvanda.

Ofan á allt það öngþveiti, sem ríkt hefur og ríkir í efnahags- og launamálum, bætist svo það, að skattalöggjöfin í landinu býður upp á slíkt ranglæti að stórir hópar innan þjóðfélagsins komast hjá að greiða réttlátlega skatta af tekjum sínum. Auk þess sem stórir hópar manna skammta sér tekjur að eigin vild virðast þeir einnig að eigin vild geta skammtað sér skatta sjálfir. Stór hluti atvinnurekstrar og atvinnurekenda í landinu er skattlitill eða skattlaus, á sama tíma og launafólk er þrautpínt með sköttum. Allt virðist benda til að réttarstaða almennings gagnvart sköttum sé ekki hin sama, það fari eftir því hvar viðkomandi er búsettur á landinu.

Það hróplega misrétti, sem á sér stað í skattamálum, misbýður svo réttlætistilfinningu þorra skattþegna að ekki verður unað óbreyttu ástandi skattamála lengur. Það er krafa almennings í landinu að hér verði bót á ráðin.

En það er ekki bara í skattamálum sem almenningur stendur agndofa frammi fyrir því sem er að gerast. Dóms- og réttarfarsmálin hafa ekki síður orðið umræðuefni að undanförnu. Sú ógnaröld afbrota og fjársvika sem virðist hafa gengið í garð hér á landi slær vissulega óhug á alla heilbrigt hugsandi menn. Vart líður svo dagur að ekki berist fréttir af slíkum málum, sumum hverjum svo ógnvekjandi að menn standa agndofa frammi fyrir þessum ófögnuði.

Ástand sem þetta vekur upp þær spurningar hvort við íslendingar búum í raun og veru í því réttarfarsríki sem talið hefur verið. Þess verður a.m.k. að krefjast af ríkisstj. og Alþ. að gerðar verði þær ráðstafanir sem duga til þess að uppræta þessa og aðra þá spillingu sem virðist þrífast innan þjóðfélagsins. Því miður hefur enn sem komið er lítið gerst í þeim efnum sem gefur vonir til að þess megi vænta, en að því verður vissulega að vinna.

Nú líður senn að þeim tíma að samningurinn við breta um heimildir til veiða innan landhelginnar rennur út, en það er 1. des. n.k. Ýmislegt bendir til að enn séu öfl innan ríkisstj. og stjórnarflokkanna sem eru þess hvetjandi að gera áframhaldandi samning um veiðiheimildir fyrir breta, annaðhvort við breta sjálfa eða Efnahagsbandalagið. Vitað hefur verið um þessar raddir og þær eru nú þegar farnar að heyrast — nú síðast hér á Alþ. fyrir nokkrum dögum. Það er því meiri nauðsyn nú en nokkru sinni áður að veita ríkisstj, það aðhald sem dugir til þess að koma í veg fyrir að frekari samningar um veiðiheimildir til handa bretum verði gerðir. Það ætti að vera öllum ljóst, að ástand fiskstofna við landið er með þeim hætti að ekkert er til sem réttlætir heimildir öðrum til handa til að nýta þessa auðlind. Við höfum bókstaflega ekkert um að semja.

Ég heiti á alla íslendinga að taka upp baráttu gegn því að samningar verði gerðir. Efnahagslegt sjálfstæði okkar íslendinga er í voða ef áfram á að halda á þeirri braut að heimila útlendingum sókn á fiskimiðin við landið. Það eina, sem getur komið í veg fyrir að ríkisstj. haldi áfram samningsgerð, er nógu sterkt almenningsálit, og það þarf að koma frá ykkur, góðir tilheyrendur.

Herra forseti. Ég lýk nú senn máli mínu. Ég sagði áðan að sjónauki ríkisstj. beindist fyrst og fremst að því að þrengja kjör launafólks, og ekki hafa íslenskir sjómenn farið varhluta af þessari stefnu ríkisstj. Það sýna brbl. hæstv. sjútvrh. um kaup og kjör sjómanna. Þessi brbl. eru einhver ósvífnasta árás sem gerð hefur verið á sjómannastéttina í landinu og er hún þó ýmsu vön af hálfu stjórnvalda. Með þessum brbl. á að þvinga sjómenn til að sæta þeim kjörum sem þeir hafa áður hafnað með atkvgr. í stéttarfélögunum. Hér er gerð tilraun til að skerða stórkostlega kjör sjómanna frá því sem þau voru. Þetta er þeim mun furðulegra þegar haft er í huga að hvergi á landinu hafði verið boðuð vinnustöðvun á fiskiskipaflotanum, allur flotinn var í gangi, og líklega finnast engin fordæmi hliðstæð um setningu brbl. Það er meira að segja vafasamt að setning brbl. við þær kringumstæður, sem þar var um að ræða, standist gagnvart stjórnarskránni. Það bar enga brýna nauðsyn til að setja lögin, nema þá til þess að klekkja á sjómönnum eða til þess að stöðva flotann, eins og raun varð á sums staðar. Auk þess er það sérstakt við þessi brbl., að þeim er ætlað að verka marga mánuði aftur fyrir síg, allt aftur til febrúarmánaðar s.l. Standist það ákvæði laganna fyrir dómstólum, þá er að renna upp hér á Íslandi tímabil sem gefur stjórnvöldum tækifæri til að stjórna með tilskipunum — og hvar er þá lýðræðið statt?

En þó að setning brbl. sé ósvífin árás á sjómannastéttina sem heild, þá er fleira athyglisvert við þessi lög. í fararbroddi fyrir lagasetningunni er hæstv. sjútvrh., 1. þm. Vestf. Nú hefur það verið svo um langt árabil að vestfirskir sjómenn hafa haft hagstæðari samninga en annars staðar hafa gilt og þar voru samningar í fullu gildi milli aðila og hafði ekki verið sagt upp. Með brbl. er gerð tilraun til þess að hafa þennan ávinning af sjómönnum á Vestfjörðum.

Það verður fróðlegt að fylgjast með hverjir aðrir þm. Vestf. úr stjórnarflokkunum koma til með að samþ. þessa aðför ríkisstj. að vestfirskum sjómönnum.

Vestfirskir sjómenn hafa tekið til sinna ráða og brotið á bak aftur þetta tilræði ríkisstj. gegn þeim. Þeir hafa því kunnað svar við þessu gerræði ríkisstj., og sjálfsagt enginn vafi á því, að það svar verður ítrekað frekar á réttum tíma.

Herra forseti. Að lokum þetta: Þeirri skoðun vex fylgi að stjórnmálabaráttan hér á landi sé svo rotin og spillt að í raun og veru sé það mannskemmandi að taka þátt í þjóðmálastarfi. Ekki skal því neitað, að allt of mörg dæmi má finna þessari skoðun til rökstuðnings. En til að hnekkja þessu og uppræta spillinguna þarf hugarfarsbreytingu. Það þarf hugarfarsbreytingu hjá stjórnmálamönnum, sumum hverjum a.m.k., og það þarf sterkt aðhald almenningsálitsins í landinu. Það er sagt að það þurfi sterk bein til að þola góða daga. Það þarf líka sterk bein til að fara með mikil völd og áhrif án þess að slík aðstaða leiði til spillingar. Stjórnmálabarátta á, ef rétt er á haldið, að vera mannbætandi, en ekki mannskemmandi. En til að svo megi verða þurfa stjórnmálamenn að vera sér þess meðvitandi að réttlætistilfinning almenningsálitsins sé svo sterk að þeim líðist ekki óheilindi né misheiting þess valds sem þeim er falið.

Mín síðustu orð til ykkar, góðu hlustendur, eru þau, að þið skerið upp herör gegn hvers konar óheilindum og spillingu, hvar sem slíks verður vart í þjóðlífinu. Gerum þjóðmálabaráttuna að vettvangi heiðarlegrar og drengilegrar málefnabaráttu. Höfnum rotnandi hugarfari og spillingu, hvaðan sem það kemur, hvort heldur er frá stjórnmálamönnum eða öðrum.

Ég þakka þeim sem hlýddu. — Góða nótt.