31.01.1977
Neðri deild: 43. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1737 í B-deild Alþingistíðinda. (1382)

Umræður utan dagskrár

Svava Jakobsdóttir:

Hæstvirtur forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár vegna þingmáls, frv. sem var vísað til landbn. þessarar hv. deildar í desembermánuði s. l. Þetta frv. var flutt ásamt mér af hv. þm. Magnúsi Torfa Ólafssyni og Eyjólfi Sigurðssyni, sem þá sat á þingi fyrir Alþfl., og var þess efnis að Mjólkursamsölunni skyldi skylt að reka áfram a. m. k. 10 mjólkurbúðir í Reykjavík næstu 5 árin, svo fremi að nægilega margar afgreiðslustúlkur, sem nú starfa á vegum Samsölunnar, óskuðu að starfa þar áfram. Svo sem hv. þm. sjá, þá var eðli málsins samkvæmt nauðsynlegt að Alþ. tæki afstöðu til þessa frv. fyrir 1. febr. Nú er hins vegar síðasti dagur janúarmánaðar og nál. því miður ekki fram komið. Við umr. þessa máls tók formaður landbn. mjög vel í það að hraða afgreiðslunni og lofaði því af sinni hálfu að n. gerði allt sem hugsanlegt væri til þess að afgreiða málið og hraða afgreiðslu þess. Ég hef ekki ástæðu til þess að efa að hv. formaður n. hefur gert það. En sakir þess að nál. er ekki fram komið sé ég mig knúna til að fara þess á leit við hæstv. forseta að hann hlutist til um að það verði upplýst hér, hvað n. hefur gert í málinu, og fari þess á leit við n. að hún skili áliti. Nú er raunar svo komið að það fer að verða og er kannske orðið of seint að gera nokkuð í þessu máli þótt allir virðist sammála um óhagræði þess að Mjólkursamsalan skyldi leggja niður allar búðir sínar. Ég minni á að enn eru eitthvað um 50 stúlkur óráðnar í önnur störf og verða atvinnulausar frá og með morgundeginum að telja. Hér er því um ákaflega mikið alvörumál að ræða, og ég tel fyllstu ástæðu til þess að Alþ. sé gerð grein fyrir hvað út úr nefndarstarfi hefur komið.