31.01.1977
Neðri deild: 43. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1738 í B-deild Alþingistíðinda. (1383)

Umræður utan dagskrár

Stefán Valgeirsson:

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi minna á það, að þessu frv. var útbýtt 8. des., það kom til umr. í hv. d. 9. des. og var vísað til landbn. 10. des.

Vegna þess, hvað hv. þm. Svava Jakobsdóttir sagði áðan, vil ég að það komi fram sem ég sagði um þetta mál í ræðu minni 9. des, s. l. Það var aðeins þetta, með leyfi forseta: „Ég sem formaður landbn. mun strax halda fund í landbn. og kalla þessa aðila fyrir n. og athuga hvernig hefur verið staðið að þessum samningum.“

Og enn fremur sagði ég í lok ræðu minnar, að ég teldi að það væri ákaflega hæpið að það væri hægt að skylda bændastéttina til þess að hafa opnar búðir, þetta mál væri flókið og ég teldi tormerki á því að það væri hægt að samþykkja þetta frv.

Það var ekki hægt að ná saman fundi í landbn. af ýmsum ástæðum fyrr en miðvikudaginn 15. des. Þá voru kallaðir fyrir hv. landbn. Nd. í fyrsta lagi fulltrúar frá Félagi starfsstúlkna í brauða- og mjólkurbúðum. Þær, sem komu frá því félagi, voru Sigfrið Sigurjónsdóttir, Lilja Kristjánsdóttir og Hallveig Einarsdóttir. N. spurði þær um þetta mál, eins og það lá fyrir frá þeirra sjónarmiði, og ég sé ekki beinlínis ástæðu til að ræða það mikið því að í þeim upplýsingum, sem koma hér fram á eftir, kemur í sjálfu sér málið allt fram. En það var athyglisvert að í þessum viðræðum, kom fram að þessum starfsstúlkum hefði líkað svo vel við þetta fyrirtæki, Mjólkursamsöluna, að þær vildu engan veginn fara frá Mjólkursamsölunni til annarra atvinnurekenda.

Í öðru lagi var Guðlaugur Björgvinsson fulltrúi hjá Mjólkursamsölunni kallaður þar næst, og helstu upplýsingarnar í hans máli voru þær, að Samsalan hefði þá lokað 9 mjólkurbúðum og í þeim voru 18 starfsstúlkur. 11 stúlkur hafa sótt um starf hjá Kaupmannasamtökunum, þar af 5 ráðnar. Kunnugt er að í 8–9 tilvikum hafa stúlkur neitað atvinnutilboðum frá Kaupmannasamtökunum. Það kom fram í máli hans að Mjólkursamsalan rak 59 búðir í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði og 7 utan þess svæðis, alls 66 búðir. Af þessum 66 búðum voru 13 í leiguhúsnæði, þá eru eftir 53. Bindandi samkomulag var þá um sölu á 33 búðum til kaupmanna, þá voru eftir 20 búðir. Af þeim eru þegar seldar 4 búðir eða voru 15. des. Eftir voru þá 16 búðir og af þeim 9 utan Reykjavíkur. Staðan var sem sagt sú, þegar Guðlaugur Björgvinsson kom fyrir hv. landbn., að þá voru aðeins 7 búðir óseldar, þannig að ef hefði átt að samþykkja þetta frv., sem ég tel að mundi vera einsdæmi í löggjöf, að skylda menn til þess að halda uppi atvinnurekstri þannig, þá var þetta a. m. k. seint fram komið. Nm. gerðu mjög miklar fyrirspurnir sérstaklega um vanda eldri starfsstúlkna, og þá var margítrekað hvort Samsalan gæti ekki hugsað sér að reka áfram eitthvað af mjólkurbúðunum til að leysa mál þessara stúlkna. En sem sagt, þá voru eftir aðeins 7 búðir, sumt af þeim búðir sem var erfitt að reka, og vitað var að mjólk mundi koma í nágrenni flestra þeirra 1. febr. eða um það leyti.

Síðan komu fulltrúar frá Kaupmannasamtökunum: Magnús Finnsson framkvæmdastjóri og Guðni Þorgeirsson. Þessi mál voru rædd við þá fram og aftur og var sérstaklega spurt hvaða möguleikar væru á að leysa vanda þessara 36 kvenna sem komnar væru yfir sextugt, þar af 18 yfir 65 ára aldur. Var því svarað að Kaupmannasamtökin hefðu fullan skilning á þessu máli, enda væru hinar eldri stúlkur í mörgum tilfellum eftirsóttur starfskraftur, eins og þeir komust að orði.

Við sögðum öllum þessum aðilum að við mundum fylgjast með hvernig yrði staðið að þessum málum, og það hef ég sem formaður n. gert. Ég hef hér í höndum bréf frá Mjólkursamsölunni sem er dagsett 28. jan. og fyrst og fremst um hvernig þetta snýr að starfsstúlkunum.

Í þessu bréfi kemur fram að á Reykjavíkursvæðinu voru í okt. 1976 í starfi hjá Mjólkursamsölunni 153 stúlkur. Þegar hættar eða ráðnar til annarra 96. Eftir eru þá 57 stúlkur. Fyrir liggja atvinnumöguleikar í matvörubúðum fyrir 27, þá eru eftir 30. Ekki eru til upplýsingar um hvað margar af áðurnefndum 57 stúlkum vilja aðra vinnu. Aldursskiptingin á þessum 57 stúlkum er eins og hér greinir: Yngri en 60 ára 28, 60-64 ára 11 og 65–70 18.

Stjórn Mjólkursamsölunnar hefur ákveðið að greiða stúlkunum, sem verða 65 ára á þessu ári eða eru eldri, lífeyri þar til lífeyrissjóður tekur við þeim við 70 ára aldur. Þessar lífeyrisgreiðslur ná til 18 stúlkna. Greiðslum verður þannig háttað : Ákveðin eru viðmiðunarlaun, hin sömu fyrir allar stúlkurnar. Gengið er út frá því að viðmiðunarlaunin séu laun búðarstúlku í dag með fyllstu aldurshækkunum. Launin eru síðan tengd við ákveðinn launaflokk Verslunarmannafélags Reykjavíkur og fylgja því kaupgjaldsbreytingum. Hver aldursflokkur þessara 18 stúlkna fær ákveðinn hundraðshluta af viðmiðunarlaununum eins og þau eru á hverjum tíma, sem sagt þær, sem eru 64 ára og til og með 66 fá 30%, 67 ára 40%, 68 ára 50% og 69 ára 60% af þessum launum. M. ö. o. fá stúlkur, sem verða 65 ára á þessu ári, 30% af viðmiðunarlaunum til 70 ára aldurs eða þar til lífeyrissjóður tekur við. Stúlkur, sem verða 66 og 67 ára á þessu ári, fá sama hundraðshluta, og stúlkur, sem verða 68 ára, fá 40% o. s. frv. Ellilífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins er nálega 20-25% af viðmiðunarlaunum, þannig að reikna má með að lífeyrir frá Mjólkursamsölunni og ellilífeyrir frá Tryggingastofnuninni geri samanlagt 50–85% af fullum launum búðarstúlkna.

Ákveðið er að Mjólkursamsalan hafi áfram búðina að Laugavegi 162, og þar starfa 2–3 heildagsstúlkur og þar að auki 2–3 um helgar. Reiknað er með að 2 búðarstúlkur reki áfram mjólkurbúð í húsnæði að Njálsgötu 65 sem Mjólkursamsalan hafði á leigu. Búðarstúlka keypti húsnæði Mjólkursamsölunnar að Háteigsvegi 2 og rekur þar áfram mjólkurbúð ásamt starfssystur sinni. Kaupmaður með byggingavöruverslun keypti húsnæði Mjólkursamsölunnar á Réttarholtsvegi 3, en leigir húsnæðið búðarstúlku undir mjólkurbúð. Auk þess má geta þess að þær stúlkur, sem voru hjá Samsölunni í Vestmannaeyjum, hafa allar fengið aðra vinnu, á Snæfellsnesi 3 af 4 og á Akranesi 7 af 10.

Það er líka rétt að það komi fram, að síðan við héldum fund í landbn. hinn 15. des. s. l. hafa þegar verið seldar 3 búðir: á Brekkulæk 1, Freyjugötu 27 og Langholtsvegi 174. Þá eru eftir 4 búðir sem sjálfsagt verða lagðar niður. Þær eru á Laugarásvegi 1, Mávahlíð 25, Hrísateigi 19 og Blönduhlíð 2. Allar hafa þessar búðir verið með lakari sölubúðum Mjólkursamsölunnar. En eftir 1. febr. verður mjólk til sölu í kaupmannabúðum er liggja að þessum 4 mjólkurbúðum, þannig að fullvíst er að ekki verður minnsti grundvöllur fyrir áframhaldandi rekstur þeirra.

Vegna þess að töluverðar umr, fóru fram í fyrra, þegar frv. var samþ. um hvernig þessi mál stæðu frá heilbrigðislegu sjónarmiði, hafði ég samband við skrifstofu borgarlæknis og fékk eftirfarandi upplýsingar þar um ástand í þessum málum: Fyrir breytinguna, þ. e. a. s. hér í Reykjavík: Mjólkursamsalan 47 búðir. Aðrar brauða- og mjólkurbúðir 7. Kjöt- og nýlenduvöruverslanir með mjólkursölu 29. Samtals 83. Eftir breytinguna: Mjólkursamsalan 1 búð. Mjólkurbúðir reknar af starfsstúlkum 2. Kjöt- og nýlenduvöruverslanir samþykktar eða uppdrættir samþykktir 80, þar 37 með mánaðarfrest til að ljúka endurbótum varðandi aðstöðu til sölu á mjólk og mjólkurvörum. Verulegur hluti þessara verslana mun nú um helgina hafa lokið nauðsynlegum breytingum. Brauða- og mjólkurbúðir með bráðabirgðaleyfi í einn mánuð 4. Kjöt- og nýlenduvöruverslanir, nýir staðir, uppdrættir samþykktir, óákveðið hvenær þær hefja sölu, 4. Sölustaðir með mánaðar undanþágu 3. Samtals 94 búðir.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þessi mál frekar nema tilefni gefist til þess.