31.01.1977
Neðri deild: 43. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1741 í B-deild Alþingistíðinda. (1385)

Umræður utan dagskrár

Stefán Valgeirsson:

Virðulegi forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr., en ég get ekki annað en minnt á það, að þegar þessi lög voru hér til umr. á síðasta þingi og samþykkt, þá verð ég að segja að það kom ákaflega lítið fram frá starfsstúlkunum og öðrum um þessi mál. Ég verð líka að minna á það, að ég held að hv. landbn. hafi öll lítið svo á að málið væri komið á það stig að það væri ekki hægt annað en að samþykkja þetta frv. Hins vegar kom það fram bæði í mínu máli hér um daginn og eins í umr. um þetta mál þegar þessi lög voru lögfest, að ég harmaði þessa þróun. Mjólkursamsalan var búin að reyna að fá lóðir í nýju hverfunum og reyna að halda þessari sölu í sínum höndum, en hún fékk þær ekki. Hún var búin að tapa málinu þegar þetta frv. kom hér inn. Það er kjarni málsins. Og það er auðvitað ekki hægt, eins og ég hef margtekið fram, að skylda bændastéttina til þess að reka búðir sem engan veginn standa undir sér. Bændur hafa ekki náð viðmiðunarkaupi sínu — aldrei, ekki eitt einasta ár — og með því móti hlytu þeir að fjarlægjast það mark að ná slíkum launum.

Sem sagt, ég viðurkenni að ég var á móti þessari þróun, en ég beygði mig fyrir henni eins og ýmsir aðrir í hv. landbn. þegar við fjölluðum um þetta mál. Málið var tapað. Það var ekki hægt annað en gera þessar breytingar.