25.10.1976
Sameinað þing: 8. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í B-deild Alþingistíðinda. (139)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Vegna orða Ragnars Arnalds um landhelgismálið vil ég minna á að Framsfl. hefur frá upphafi, löngu áður en Alþb. varð til og á þeim árum sem Ragnar Arnalds gekk á stuttbuxum, þá hefur Framsfl. staðið í fararbroddi um sókn íslendinga að því marki að ná fullum yfirráðum yfir auðlindum hafsins við strendur landsins. Ég minni á að stefna íslendinga í landhelgismálinu hefur nú meirihlutafylgi á alþjóðavettvangi. Þingflokkur Framsfl. undir forustu Ólafs Jóhannessonar og Einars Ágústssonar mun nú sem endranær einbeita sér að fullnaðarsigri íslendinga í þessu mesta hagsmunamáli þjóðarinnar. Við framsóknarmenn sjáum, ef aðrir sjá það ekki, að sigurinn er í sjónmáli.

Benedikt Gröndal virtist hafa áhyggjur af dómsmálakerfinu. Í því sambandi dettur mér í hug: „Öðruvísi mér áður brá.“ Benedikt Gröndal og flokksmenn hans voru ráðamenn í ríkisstj. í um það bil 12 ár fyrir nokkrum árum, en ekki er vitað að þeir hafi þá lagt áherslu á dómsmálin. Það er ekki fyrr en í ráðherratíð Ólafs Jóhannessonar dómsmrh. sem þessum málum er sinnt sem vera ber. Það er fyrir frumkvæði hans að dómsmál og lögreglumál eru nú tekin alvarlegum tökum. Þessum orðum vil ég einnig beina til Karvels Pálmasonar.

Eins og fram hefur komið í þessum umr. hefur verð íslenskra útflutningsafurða hækkað verulega á síðustu mánuðum. Er þar um athyglisverð umskipti að ræða sem ættu að geta orðið til varanlegs ávinnings fyrir efnahagsástandið og heildarafkomu þjóðarbúsins ef rétt er á haldið. Undanfarin 2–3 ár hafa alvarlegir efnahagserfiðleikar steðjað að íslensku þjóðinni. Fleiri ástæður en ein voru þar að verki, en meginástæða erfiðleikanna var slæmt viðskiptaárferði, þ.e. lágt verð á útflutningi og óhagstætt innflutningsverð ásamt mikilli verðbólgu. Afkoma þjóðarbúsins blaut því að verða léleg miðað við viðskiptagóðærið sem ríkti á árunum 1971–1973. Ein afleiðing efnahagserfiðleikanna var sú, að ekki voru fyrir hendi skilyrði til kjarabóta í formi almennra launahækkana. því er ekki að leyna að dýrtíðin hefur viða komið hart niður á launafólki. Launafólk hefur vissulega orðið að axla þungar byrðar vegna undangenginna efnahagserfiðleika þjóðfélagsins í heild. En ætli launafólk átti sig ekki á því, hvaða ástæður liggja hér til grundvallar?

Ég held fyrir mitt leyti að flestir hugsandi menn í landinu geri sér grein fyrir því að afkoma hvers einstaklings og hverrar fjölskyldu er háð heildarafkomu þjóðarbúsins og atvinnuveganna. Það hlýtur því að vekja furðu hvernig umr. um kaupgjalds- og kjaramál og afkomu almennings fara fram hér á landi. Það er engu líkara en að ýmsir atkvæðamiklir umræðusnillingar, sem mikið láta á sér bera, geri ráð fyrir því að almenningur á Íslandi hlusti á það eitt, sem kitlar eyrun. Svo mjög ber á einhæfri röksemdafærslu og hæpnum viðmiðunum þegar rætt er um kaupgjalds- og kjaramál og afkomu almennings, að menn gætu helst látið sér detta í hug að þetta mikla málefni svífi í einangruðu rúmi utan og ofan við sjálft efnahagslífið, óháð þjóðarbúskapnum og afkomu hans. Það er furðulegt að skynsamir forustumenn eins og Ragnar Arnalds og Benedikt Gröndal og Karvel Pálmason skuli ávarpa íslenskan almenning með svo heimskulegu skrumi og vanaþrasi eins og hér var gert í kvöld. Raunar á þessi lýsing einnig við um umr. um efnahags- og atvinnumál í víðari merkingu.

Á árinu 1973 mátti greina ýmis merki þess að vá stæði fyrir dyrum í efnahagsmálum. Bentu þessi merki bæði til verðbólguaukningar og versnandi viðskiptaárferðis. Þetta var á miðju tímabili stjórnarsamvinnu Framsfl. við Alþb. og SF. Vegna óeiningar og klofnings í þáverandi samstarfsflokkum Framsfl. og vegna óbilgirni valda- og áhrifaafla utan Alþ. og loks vegna óábyrgrar stjórnarandstöðu var komið í veg fyrir að viðnámstill. þáv. forsrh., Ólafs Jóhannessonar, næðu fram að ganga. Mátti segja að á þessu tímabili stæði Framsfl. einn gegn öllum í því að vilja stöðvun þeirrar holskeflu verðbólgu og dýrtíðar sem blasti við á næsta leiti. Því miður stóðst vinstra samstarfið ekki þessa erfiðu prófraun. Ef farið hefði verið eftir ráðum og vilja Ólafs Jóhannessonar og Framafl. fyrri hluta árs 1974, þá hefði verðbólgu- og dýrtíðarástandið ekki komist á það stig sem var hér á landi þegar núv. ríkisstj. tók við völdum síðsumars 1974. Verðbólguaukningin 1974 var 53%, sem er bæði Íslandsmet og Evrópumet í verðbólgu á síðustu mannsöldrum. Þessi viðskilnaður í verðbólgu og dýrtíðarmálum setti ævarandi blett á vinstra samstarfið 1971–1974, og þess mætti Ragnar Arnalds minnast manna helst.

Verðbólgu- og dýrtíðarvandinn jókst svo á þessum tímamótum að hann hefur a; síðan verið langfyrirferðarmesta vandamál íslenskra stjórnmála og er enn þegar þetta er talað. Reynslan sýnir, að ef takast á að leysa þetta vandamál, þá verða öll valda- og áhrifaöfl þjóðfélagsins að snúa bökum saman.

Í þessu sambandi vil ég leyfa mér að leiða athygli áheyrenda minna að mikilvægri staðreynd sem mörgum sést yfir. Samkvæmt lögum og viðteknum venjum, sem mótast hafa smátt og smátt síðustu áratugi, er komin á valddreifing í íslensku þjóðfélagi sem er þeirrar gerðar að hún hefur rýrt völd Alþingis og ríkisstjórnar. Þessi valdskerðing Alþingis er áberandi á sviði efnahagsmála, t.d. að því er tekur til þróunar í kaupgjalds- og verðlagsmálum, en hennar gætir einnig á öðrum sviðum. Það er of viðamikið mál að taka hér til ítarlegrar meðferðar hina nýju valddreifingu í landinu og nútíma valdskerðingu Alþingis og ríkisstj. Þó er hér um stórmál að ræða sem snertir grundvallaratriði lýðræðislegs stjórnarfars. Tel ég á því mikla nauðsyn að áhugamenn um þjóðfélagsmál og allur almenningur fari að leiða hugann að þessu málefni til þess að geta gert sér skynsamlega grein fyrir því hvert stefnir. Ég er í hópi þeirra, sem hafa áhyggjur af hinni lausbeisluðu valddreifingu í þjóðfélaginu og valdskerðingu Alþingis. Ég get ekki lýst neinni hrifningu yfir þeirri þróun að hagsmunasamtök og alls konar þrýstihópar hrifsi til sin úr böndum Alþingis vald til þess að hafa úrslitaáhrif á gang þjóðmála. Ég mun gera mitt til þess að vara við þeirri hættu sem steðjar að Alþ. vegna umsvifa einstakra embætta og stofnana sem sýnt hafa tilhneigingu til þess að ráðast inn í valdhelgi Alþingis.

Í framhaldi af þessum sérstöku hugleiðingum vil ég leyfa mér að minna á að ríkisstj. hefur haft forgöngu um stofnun samstarfsnefndar allra áhrifa- og valdaaðila í þjóðfélaginu sem hafi það hlutverk fyrst og fremst að kanna orsakir verðbólgunnar undanfarin ár og gera till. um ráðstafanir til þess að draga úr verðbólgu og dýrtíð. Það má kannske segja um þessa nefndarskipan, eins og ég hef heyrt ýjað að á förnum vegi, að hún beri keim af uppgjöf ríkisstj. og Alþ. gagnvart valdahópum og áhrifaöflum sem magnast hafi í þjóðfélaginu á síðari áratugum á kostnað stjórnvalda. En því er til að svara að áhrifaöflin utan Alþ. mega sin mikils í reynd, og því er eðlilegt að finna samstarfsvettvang fyrir stjórnvöld og hagsmunasamtök um jafnbrýnt verkefni og það er að leysa erfið efnahagsleg vandamál, þ. á m. kjaramál almennings. Framsfl. telur að stefna beri að sem mestu launajafnrétti í landinu, en álítur jafnframt að launakjör hljóti í reynd að ráðast af afkomu þjóðarbúsins á hverjum tíma. Þá ófrávíkjanlegu kröfu gerir Framsfl., að haldið sé uppi fullri atvinnu í landinu, og telur að þannig sé afkomu almennings best borgið.

Ég er ekki í neinum vafa um það, að sú framkvæmda- og uppbyggingarstefna, sem núv. ríkisstj. hefur fylgt þrátt fyrir erfitt viðskiptaárferði, hefur ráðið því að almenn lífsafkoma hefur verið góð undanfarin ár og menn hafa ekki þurft að kvarta undan atvinnuleysi né fátæktarkjörum af þeim sökum. Uppbygging og framkvæmdir í landinu hafa sjaldan verið meiri en nú, og skulum við vona að svo verði áfram. Framsfl. mun ávallt beita sér fyrir því í ríkisstj. að atvinnuöryggi sé tryggt í landinu og telur það stærsta hagsmunamál almennings.

Eins og fram hefur komið í þessum umr., þá eru efnahagshorfur nú að ýmsu leyti bjartar, en þó því aðeins að stjórnvöld fái aðstöðu til þess að fylgja samræmdri efnahags- og fjármálastefnu. Augljóst er að það er hægt að gera svartnætti úr góðum horfum í þessu efni ef samræmd efnahagsmálastjórn fær ekki að njóta sín. Þótt horfur séu nú batnandi, þá fer því fjarri að opnast hafi gáttir að allsnægtaborði. Þrátt fyrir betri horfur eru vandamálin enn óleyst. En hitt er víst, að gott útlit leggur ráðamönnum, jafnt utan þings sem innan, upp í hendurnar gullið tækifæri til lausnar á vandamálunum. Mín skoðun er sú, að þorri fólks, allur almenningur í landinu, mundi fagna samstöðu áhrifaafla utan þings og innan, enda bera margir kvíðboga fyrir afleiðingum sundrungar og illvígra átaka í þjóðfélaginu.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.