01.02.1977
Sameinað þing: 43. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1750 í B-deild Alþingistíðinda. (1396)

82. mál, viðgerðir fiskiskipa

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Þessi athugasemd mín skal vera ákaflega stutt. Ég fagna þeirri eflingu sem orðið hefur á þeim framkvæmdum sem hér eru til umr., þ. e. a. s. stálskipasmíði, nýsmíði og viðhaldi stálskipa innanlands. Það eru ekki nema örfá ár síðan samgöngur á sjó heyrðu undir sjútvrn. sem ég taldist þá ráðh. fyrir, og ég varð fyrir mjög miklu aðkasti fyrir að taka þá ákvörðun eða leggja það til í ríkisstj., sem hún að sjálfsögðu samþ., að taka 20% hærra tilboði frá íslenskri skipasmíðastöð til byggingar fyrstu farskipanna á Íslandi, þ. e. a. s. Esju og Heklu, sem eru í eigu Ríkisskips, heldur en boðið var erlendis. Ég minnist þessara ásakana hér nú vegna þess að þetta er orðið breytt. Íslensku skipasmiðastöðvarnar hafa sannað, svo ekki verður um villst, að þær geta leyst þessi verkefni af hendi, og því ber a. m. k. að forðast alla refsivexti gagnvart þeim og verðlauna þær heldur fyrir þá öru og miklu framþróun sem orðið hefur á þeirra vegum s. l. ár. Og minnugir þess, sem ég áðan minntist lítillega á, að flotinn er að meginhluta til allvegleg stálskip, þá þarf hann einnig sína viðgerðaþjónustu, en nýsmíði og viðgerðir verða að haldast í hendur.